Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 13:38:33 (818)


[13:38]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Lagt er til í nefndaráliti 2. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 63 að málinu sé vísað til ríkisstjórnarinnar og það er gert með þeim rökstuðningi að enga brýna nauðsyn beri til að afgreiða þetta mál. Þess í stað sé eðlilegast að því sé vísað til ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórninni um leið falið að undirbúa þessi mál betur og afla gagna og rökstyðja málstað Íslands ef til dómstólameðferðar komi varðandi ágreining við eftirlitsstofnun EFTA hvað þetta snertir og vísa þá til þeirra raka sem fyrr hafa verið uppi af hálfu íslenskra stjórnvalda, bæði í tengslum við samningagerðina um Evrópskt efnahagssvæði og eins síðar í bréfaskriftum að enga nauðsyn beri til þess að gera þá breytingu á starfsháttum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sem hér er lagt til.
    Með þessum rökstuðningi leggjum við til að þessi mál verði tekin af dagskrá og þeim vísað til ríkisstjórnarinnar.