Verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 13:48:10 (823)


[13:48]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um afar sérstæðan hluta þessa máls sem kom inn undir lok umfjöllunar efh.- og viðskn. á málinu, þ.e. sú hugmynd meiri hlutans að setja stjórn yfir Áfengis- og tóbaksverslunina. Eins og ráða má af orðanna hljóðan og umræðum um málið, þá hefur hlutverk þessarar stjórnar ekki á nokkurn hátt verið skilgreint og engin sérstök tilefni eru tínd til eða notuð til rökstuðnings því að taka upp þessa nýbreytni. Öll vinnubrögð í sambandi við undirbúning þessa máls eru með miklum endemum. Þannig heyrðu forstjóri og stjórnendur stofnunarinnar af því fjölmiðlum að meiri hlutinn hér á Alþingi hygðist leggja þetta til. Þetta allt saman verður auðvitað að átelja mjög harðlega og það eru engin efni til þess að afgreiða þetta mál með þeim hætti sem hér er lagt til. Því leggjum við eindregið til að þessi setning verði felld niður úr frumvarpsgreininni.