Alþjóðaviðskiptastofnunin

22. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 14:42:57 (828)


[14:42]
     Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Batnandi manni er best að lifa. Ég vil byrja á að lýsa yfir stuðningi mínum við brtt. hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að taka þennan bandorm, þ.e. löggjöfina um útfærsluna á GATT-aðild okkar, til heildarendurskoðunar fyrir árslok 1996. Það er nú skárra en ekki. Lengi hefur hv. þm. verið helst til hallur undir einokunarsjónarmið, en hann er nú í formannsframboði fyrir flokk sem einu sinni kenndi sig við verkalýð og sósíalisma og er kominn tími til að hann fari aðeins að taka eftir því að neytendur eiga svolítinn þegnrétt í þessu þjóðfélagi. ( Gripið fram í: Enda óháðir komnir inn.) Enda óháðir komnir til liðs, já.
    Hann vitnaði í svör mín til þáv. hv. þm., nú hæstv. félmrh. hvorki meira né minna, Páls Péturssonar, út af útfærslunni á lágmarksmarkaðsaðganginum á sínum tíma. Það er rétt að ég sagði þá að ég teldi best að beita uppboðsleið eða leita tilboða vegna þess að ég gerði mér vonir um að það mundi helst skila verðlækkuninni til neytenda. Af hverju gerði ég það? Það var vegna þess að ég gekk að sjálfsögðu út frá því að þegar menn væru að tala um lágmarksmarkaðsaðgang á lágum tollum meintu þeir lága tolla. Þ.e. ekki tolla eins og eru í frv. á bilinu 60--254%. Það eru ekki lágir tollar vegna þess að hæstu tollar í tollskrá eru 30%. Þetta eru hámarkstollar. Hæstu tollar sem eru heimilir samkvæmt GATT-samningnum. Þetta þýðir með öðrum orðum að hefði verið einhverjum ávinningi að skila ef tollarnir hefðu verið lágir, þeir boðnir upp og settir þá líka hugsanlega uppboðsskilmálar. Það er með öðrum orðum framkvæmdin sem hefur breyst, ekki skoðanir mínar. Alveg eins og hv. þm. þegar hann nefnir: ja, hvers vegna ekki að velja fjórðu leiðina sem er sú að velja viðskiptaaðila? Það kæmi vel til greina ef um væri að ræða lægri tolla og ef um það væri að ræða að hv. þm. gæti treyst þeim sem eiga að framkvæma málið til þess að velja þá ekki bara úr einokunarkerfinu.