Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 21:55:42 (888)


[21:55]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns, Hjálmars Árnasonar, sem ég tel að sé farinn að styðja þetta mál fyrirvaralaust á nýjan leik, þá stend ég við það sem ég sagði bæði við 2. umr. og núna í kvöld um gervihnattaruglið í sambandi við þetta mál. Með því er ég ekki að gera lítið úr því að gervihnettir eru góðir til síns brúks og gætu orðið hluti af sjálfvirkri tilkynningarskyldu í öryggisskyni fyrir skipaflotann einhvern tíma í fyllingu tímans eins og útvarpsstjóri mundi orða það. En eins og þetta hefur verið borð á borð fyrir okkur í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að það væri alger og óumflýjanleg forsenda þess að hægt væri að taka upp róðrardagakerfi að hægt væri að fylgjast með smábátununum í gegnum gervihnött, þá er það rugl, fyrir það fyrsta vegna þess að yfirgnæfandi líkur eru á því að það séu til aðrar og miklu einfaldari tæknilegar lausnir á fjareftirliti fyrir smábáta, byggðar annaðhvort á landstöðvum sem eru ódýrari og draga nægilega langt út á miðin fyrir alla venjulega sókn smábáta eða hitt, sem er sennilega langheppilegast, að byggja þetta á litlum síritum um borð í bátunum sjálfum sem geyma í minni sínu upplýsingar um það hvar bátarnir hafa verið á hverjum tíma og svo sé lesið af því með tilteknu millibili. Niðurstaðan af skoðun á þessu máli eins og sjútvn. fór í gegnum það og hv. þm. er kunnugt, m.a. með að fá til viðtals við sig alla helstu tækniaðila í landinu um þetta mál, er sú að málflutningurinn eins og hann var á borð borinn í upphafi var rugl. Og það er það sem ég á við með gervihnattarugli og ég stend við það.