Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 22:50:01 (898)


[22:50]
     Kristján Pálsson (andsvar) :
    Herra forseti. Mér finnst hv. þm. Gísli Einarsson afskaplega viðkvæmur í kvöld og ef hann skilur þau orð sem eru látin falla til hans í fullri vinsemd sem einhver brigsl, þá er það mikill misskilningur og ég bið þig að stilla þig, hv. þm.
    ( Forseti (RA) : Ég vil bara minna hv. þm. á að eins og við erum að reyna að gera, að þegar þingmenn ávarpa aðra þingmenn úr ræðustól ber að gera það í 3. persónu en ekki í 2. persónu.)
    Ég þakka fyrir, herra forseti. Ég vil aftur á móti segja í lokin að það róðrardagakerfi sem nú er að koma inn í lög er í rauninni engin hugsmíð á þinginu. Það er fyrst og fremst hugsmíð þeirra smábátaeigenda sem hafa fjallað um þetta mál á undanförnum árum og kom hingað að ég best veit sem tillaga frá þeim. Og það finnst mér einmitt vera leiðin. Og ég vona sannarlega að það geti orðið niðurstaðan að samstarf og samvinna þingsins og samtaka krókaleyfiskarla verði með þeim hætti að úrbætur og breytingar til batnaðar á þessu kerfi komi í sátt og samlyndi við þessa aðila því svo sannarlega veit enginn betur en þeir hvernig best er að laga það sem gerist í þeirra eigin málum.