Stjórn fiskveiða

23. fundur
Miðvikudaginn 14. júní 1995, kl. 23:05:39 (900)


[23:05]
     Ágúst Einarsson :
    Herra forseti. Í 2. umr. um þetta mál var tekist á um stefnu stjórnar og stjórnarandstöðu. Allar tillögur stjórnarandstöðunnar voru felldar eða að þær fengu ekki nægjanlegan styrk innan sjútvn. Þær hefðu þó horft til verulegra bóta fyrir þetta frv. sem við erum hér að ræða um. En niðurstaðan var að þær voru felldar og í þessu frv. og brtt. meiri hlutans sem hér liggja fyrir kemur afstaða stjórnarþingmannanna til smábátaútgerðar fram.
    Það var einkum tekist á um hvenær róðrardagakerfið yrði tekið upp. Stjórnarandstaðan vildi gera það strax í haust. Stjórnarþingmenn vildu láta eftir mati hæstv. sjútvrh. Nú leggja stjórnarþingmenn fram tillögu um gildistöku 1. febrúar. Það er betra en áður, en það er margt við brtt. meiri hlutans að athuga. Og ég vil taka fram að það er enginn þingflokkur á Alþingi sem vill ekki róðrardagakerfi. Það hafa allir þingflokkar alltaf viljað róðrardaga. Það er alltaf betra í sóknarmarki, sama hvers eðlis það er, að hafa sóknardaga en banndaga. Það hefur aldrei í sjálfu sér ríkt ágreiningur um þetta efni. Ágreiningurinn sem var hér í umræðunni var um hina tæknilegu útfærslu þó svo ýmsir stjórnarþingmenn hafi kosið að gera róðrardagana, sóknardagana að aðalatriði þessa máls. Þeir hafa í sjálfu sér aldrei verið það.

    En það er ýmislegt við brtt. meiri hlutans að athuga. Það er ekki heimilt að flytja sóknardaga frá 3. og 4. veiðitímabili yfir á 1. og 2. Það er einungis hægt að færa í aðra áttina. Það er ekki sanngjart að svona skuli með farið.
    Það er sömuleiðis í þessu að ef menn vilja flytja milli tímabila, þá verða þeir að sleppa alveg því tímabili sem þeir flytja frá. Þetta er heldur ekki sanngjarnt gagnvart þeim mönnum sem þurfa að vinna undir þessu kerfi. Þetta er ósveigjanlegt og ósanngjarnt. Þess er hins vegar getið í brtt. meiri hlutans að ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga, eftirlit með þeim og hvernig tilkynnt skuli um flutning á sóknardögum. Ráðherra getur á sama hátt með reglugerð leyft flutning á milli annarra tímabila. Af hverju fela menn ráðherra allt það vald að útfæra þessa hluti? Af hverju setja þeir þetta ekki skýrt í texta frv. eða treysta þeir svo vel reglugerðarvaldi hæstv. sjútvrh.?
    Ég fæ ekki séð heldur í þessu frv. að lendi menn í alvarlegum vélarbilunum t.d. á sínum róðrardögum og raskist verulega útgerðarhættir manna, hvernig með skuli vera farið, hvort menn eigi einhvern rétt í því sambandi. Ég fæ ekki séð út úr þessu frv. að það sé nokkuð tekið á þessum þætti.
    Þetta frv. fjallar í sjálfu sér mjög lítið um fiskveiðistjórnun. Það eru afmarkaðir þættir sem eru teknir hér upp og frv. verður afgreitt hér eins og meiri hlutinn leggur fyrir. Minni hlutinn hefur barist fyrir ákveðnum endurbótum og er enn að því, en niðurstaðan breytist ekki, Það er lögmál lýðræðisins hér á Alþingi að menn skiptist í stjórn og stjórnarandstöðu og í þessu máli munu stjórnarþingmenn standa saman að þessum brtt.
    Það er þó alvarlegust í sambandi við þetta mál, alla málsmeðferðina, sú blekking ýmissa hv. þm. þegar nýliðin kosningabarátta er höfð í huga. Þingmenn Framsfl. í Reykjaneskjördæmi mótuðu eigin sjávarútvegsstefnu og sögðu fyrir kosningar m.a. að togararnir ættu að fá 15% hluta af botnfiskaflanum og bátaflotinn 85%. Togarar ættu að færast utar, flottroll takmarkað verulega, framsal aflaheimilda takmarkað verulega. Það voru margir kjósendur á Reykjanesi sem kusu Framsfl. út á þessi loforð þeirra sem síðar urðu þingmenn. Það voru margir kjósendur sem tóku þessa frambjóðendur trúanlega í sínum málflutningi.
    Það er allt í lagi að hafa haft þessi sjónarmið í kosningabaráttunni og það er eðlilegt að tekist sé á um hugmyndir. En eins og þær voru lagðar fram í kosningabaráttunni hafa kosningaloforð sjaldan verið svikin jafnhrottalega og gert var af þessum hv. þm. Framsfl. á Reykjanesi. Ég hugsa að þessarar umræðu verði minnst nokkuð lengi í stjórnmálasögunni því þetta er óvenjulegur málflutningur sem hluti af stjórnarþingmönnunum gekk í gegnum í kosningabaráttunni.
    Og það er lítið betri raunasaga vestfirsku sjálfstæðismannanna. Þeir fóru mikinn fyrir kosningar. Þeir boðuðu sóknarmark og flotastýringu. Það átti að koma sóknarmark á öll skip undir 10 tonnum, síðan á öll skip undir 100 tonnum og síðan sóknarmark á allan flotann.
    Ég geri ekki lítið úr þessum hugmyndum, síður en svo. Og svo háttar til að við hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson höfum skipst á skoðunum um öll mál, þar á meðal fiskveiðistjórnunarmál, um 15 ára skeið. Við gerþekkjum skoðanir hvors annars. Það er ekkert að þessum skoðunum í sjálfu sér, menn geta talað fyrir þeim. En það er ekkert af þessum hugmyndum þeirra í þessu frv., ekkert.
    Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson lýsti því yfir að hann styddi ekki ríkisstjórn sem ekki gerbreytti fiskveiðistjórnuninni. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gaf engar slíkar yfirlýsingar þótt hann hafi sagt ýmislegt annað í hita leiksins, sérstaklega hina síðustu daga. Mér finnst vera dapurlegt hlutskipti manna að þurfa að standa hér og fylgja þessu litla frv. sem er til umræðu. Þar stendur ekki steinn yfir steini af yfirlýsingum þessara hv. þm.
    Það verður að taka frv. eða löggjöfina um fiskveiðistjórnun aftur upp í haust. Það er augljóst að það eru alvarlegir gallar á þessu frv. sem stjórnarmeirihlutinn ætlar að knýja í gegn og komið hefur fram í umræðum. Þetta er illa gert frv. með mikilli óvissu og of miklum heimildum fyrir ráðherra. Og það er ekki tekið á mikilvægum þáttum í fiskveiðistjórnuninni. Ríkisstjórnin hefur enga stefnu í þessu frv. um brottkast afla, veiðileyfagjald, línutvöföldun eða að allur afli fari á fiskmarkaði svo að fátt eitt sé nefnt. Stefnuleysi stjórnarþingmannanna í þessu máli er algert.