Framleiðsla og sala á búvörum

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 11:41:47 (950)


[11:41]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það sem ég var að vekja athygli á er það að Alþingi er ekki framkvæmdarvaldið í þessu efni. Og búvörulöggjöfin er þannig uppbyggð að hún felur ráðherra að leita eftir samningum við Bændasamtökin um búvörustefnuna. Þannig er hún úr garði gerð og hefur verið um nokkuð langt skeið eða frá 1985 þegar fyrstu ákvæðin komu inn um það að landbrh. skyldi leita eftir samningum við Bændasamtökin um grundvöll búvöruframleiðslunnar. Það er á grundvelli þeirra ákvæða sem verkskiptingin í þessum efnum er alveg skýr. Það er hlutverk ráðherra, það er hlutverk ríkisstjórnar og framkvæmdarvaldsins að leita eftir slíku.
    Það má vel segja að Bændasamtökin hafi haft áhrif á það hversu málin eru seint á ferðinni með því að óska ekki fyrr formlega eftir endurskoðun. Við vitum að Bændasamtökin voru upptekin af sínum skipulagsmálum og kannski hefur farið fullmikil orka í það hjá þeim ágætu samtökum að velta því fyrir sér hvernig þeir ættu að sameinast og hverjir ættu að vera formenn og ekki formenn í hinum nýju samtökum. Það gæti líka hafa haft áhrif að Bændasamtökin, eins og aðrir í þjóðfélaginu, horfðu upp á það að fyrri ríkisstjórn var óstarfhæf nánast allt kjörtímabilið í málefnum landbúnaðarins. Það var því í sjálfu sér ekki mjög fýsilegt fyrir bændur að óska eftir endurskoðun á sínum starfskjörum við þær aðstæður að það var óstarfhæf ríkisstjórn í landinu í þeirra málaflokki. En það breytir ekki hinu að framkvæmdarvaldið ber þarna almennar skyldur. Og ég endurtek að það mun ekki vefjast fyrir Alþingi að mínu mati að ganga frá nauðsynlegum lagabreytingum ef skuturinn liggur ekki eftir, þ.e. ef sæmilega er róið í þeim efnum af hálfu ríkisstjórnar og framkvæmdarvalds.
    Mér fannst ástæða til að minna hv. þm. á þann þátt málsins líka vegna þess að hv. þm. er stuðningsmaður þeirra ríkisstjórna, núv. og fyrrv., sem hér bera mesta ábyrgð. Líka á þætti eins og þeim að jarðræktarlögin eru óvirk. Það er ágætt að koma hér í ræðustól sem mikill bændavinur og útmála erfiðleikana og harma það að jarðræktarlög séu óvirk þegar kal kemur upp í túnum og bændur standa frammi fyrir miklum erfiðleikum við fóðuröflun en þá er líka hollt að menn minnist þess hverjir bera á því ábyrgð að svo er komið.