Greiðsluaðlögun

25. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 14:01:39 (964)


[14:01]
     Jóhanna Sigurðardóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er verið að fjalla um mjög þarft frv. til laga um greiðsluaðlögun sem er mjög brýnt að væri hægt að fjalla um hér á þingi og að frv. fái meðferð í nefnd og það verði að lögum á þessu þingi. Við flm. frv. mundum vilja greiða fyrir því að mál þetta fengi afgreiðslu.
    Það er alveg ljóst eins og fram kom í máli 1. flm. frv. að hv. framsóknarmenn hafa haft mjög stór orð um að lögfesta þyrfti sem fyrst frv. um greiðsluaðlögun. Hægt er að vitna í hæstv. viðskrh. sem skrifaði mikið um þetta fyrir nokkrum vikum og talaði mjög mikið um það innan þings og utan. En í grein sem hann skrifaði í marsmánuði sl. segir hæstv. ráðherra, sem var þá þingmaður, með leyfi forseta:
    ,,Við þingmenn Framsfl. höfum lagt fram á Alþingi frv. til laga um greiðsluaðlögun, frv. sem ríkisstjórnin hefur lofað í langan tíma. Þar sem svo stutt var eftir af þinginu töldum við nauðsynlegt að slíkt frv. yrði flutt og fengist samþykkt sem lög frá Alþingi.``
    Þetta var sagt fyrir aðeins nokkrum vikum. Þá lögðu þingmenn Framsfl. fram sama frv. þó stutt lifði þá af þingi og töldu brýnt að það yrði lögfest þá þegar á því þingi. Hæstv. viðskrh. sagði einnig þá í þessari sömu grein, með leyfi hæstv. forseta.

    ,,Það er mat okkar framsóknarmanna, sem flytjum þetta frv., að nú sé tími kannana og skoðana á ástandinu liðinn, aðstæður fólks liggja fyrir og ástæður greiðsluerfiðleikanna eru kunnar og því er nú runninn upp tími aðgerða og því er þetta frv. um greiðsluaðlögun lagt fram á Alþingi.``
    Hæstv. félmrh. sem hér talaði áðan telur að tími aðgerða sé ekki enn runninn upp því að hann ætlar að láta skoða málið í nefnd. Þetta mál um greiðsluaðlögun hefur verið mjög lengi í skoðun og til umfjöllunar á Alþingi. Á árinu 1993 var nefnd að störfum á vegum félmrn. sem fór mjög ofan í þetta mál og skilaði skýrslu í maí 1994 um þær leiðir sem hún taldi rétt að fara í málinu. Í þeirri nefnd áttu sæti, ef ég man rétt, fulltrúar þriggja ráðuneyta, félmrn., fjmrn. og dómsmrn. Skýrslan var lögð fram í maí 1994 og er þá mjög heppilegt að hæstv. fjmrh. er hér viðstaddur vegna þess að ég held að það væri mjög æskilegt ef hæstv. fjmrh. mætti vera að því að hlýða á orð mín þó hann sé í hliðarsölum. Ég tek mér bara tíma, hæstv. forseti, að bíða eftir því að ráðherrann komi í salinn því að ég vil gjarnan eiga við hann orðastað.
    ( Forseti (StB) : Forseti mun gera ráðstafanir til að ráðherrann komi í salinn.)
    Þetta mál hefur verið lengi í skoðun og var lagt fyrir ríkisstjórnina á sínum tíma í maímánuði og hefði verið hægt að vinna á þessum tíma frv. til þess að leggja fyrir þingið.
    Hæstv. félmrh. ber því nú við að það þurfi að breyta ýmsum öðrum lögum og ég er sannfærð um það að þeir þingmenn sem flytja frv., sem eru þingmenn úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum, eru reiðubúnir að taka sér þann tíma sem þarf til að þetta mál fái skoðun á þinginu og tilbúnir að taka þá til umfjöllunar þau lög á vegum dómsmrn. sem þarf að breyta til að frv. gangi fram. Ég sé, virðulegi forseti, að klukkan gengur hér á mig, þannig að ég ætla að biðja hæstv. forseta að stoppa hana þar til hæstv. fjmrh. heiðrar okkur með nærveru sinni hér í salnum.
    ( Forseti (StB) : Forseti hefur gert ráðstafanir til að hæstv. ráðherra væri í salnum.)
    Mér sýndist að ráðherrann væri í símanum og ef hann getur gert hvorutveggja, að hlusta á ræður í þingsal og tala í síma, tel ég það ansi gott hjá honum. ( Gripið fram í: Hann er fjölhæfur.) Hann er fjölhæfur. Ég held að það væri nauðsynlegt því við erum að fjalla um mjög brýnt mál sem virðist vera mikil samstaða um á þinginu hjá öllum stjórnarandstöðuflokkunum og hjá öðrum stjórnarflokknum, Framsfl., að fá fram afstöðu sjálfstæðismanna í málinu og ekki síst hæstv. fjmrh. vegna þess að ég tel að það sé kannski raunverulega lykillinn að því að við getum afgreitt málið nú að fá fram afstöðu sjálfstæðismanna í málinu.
    Mér fannst, þegar þessi skýrsla lá fyrir á sínum tíma, í maímánuði 1994, að hæstv. fjmrh. og fjmrn. reyndar líka, hefði mjög margar athugasemdir við þessa leið um greiðsluaðlögun. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé einhver fyrirstaða hjá hæstv. félmrh. sem hann nefnir hér að nú þurfi að skoða málin í nefnd, hvort ástæðan sé ekki hreinlega sú að sjálfstæðismenn eru á móti málinu og hafi ýmislegt við það að athuga? Þess vegna mundi það greiða mjög fyrir umræðu ef hér fengist líka fram afstaða hæstv. fjmrh. í málinu.
    Ég get tekið undir með hæstv. félmrh. að það frv., sem hér liggur fyrir, þarf nokkurrar skoðunar við og nefndin sem fær þetta til athugunar þarf að skoða málið. Ef ég skil rétt frv. sem framsóknarmenn fluttu og hef ég nú farið ítarlega yfir þetta þá er um að ræða raunverulega beina þýðingu á sænsku lögunum. Það er ýmislegt í íslenskum aðstæðum sem kallar á að fleiri atriði verði skoðuð í þessu sambandi.
    Í þeirri skýrslu, sem ég minntist á, er mælt með því að það verði komið á þessari löggjöf um greiðsluáætlun og talað um að reynsla Norðurlandaþjóðanna af greiðsluaðlögun sé mjög góð. Ég hef tímans vegna ekki tækifæri til að fara efnislega ofan í þau atriði sem ég vildi sjá breytt í frv. en mun koma því á framfæri við nefndina sem fær málið til skoðunar. Þjóðvaki á þar áheyrnarfulltrúa í félmn. sem mun sækja þá fundi stíft sem verða haldnir um málið. Þar mun ég koma á framfæri nokkrum athugasemdum sem ég hef við frv. sem væru til bóta og koma til móts við sjónarmið félmrh. í þessu máli.
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé líka mjög brýnt að hv. þm. Guðni Ágústsson taki þátt í þessari umræðu. Hann hefur haldið því fram að líf, heill og hamingja þúsunda fjölskyldna lægi við að á þessu máli yrði tekið og komið á frv. um greiðsluaðlögun. Ef framsóknarmenn eru búnir með sinn tíma sem hér hefur verið skammtaður þá eru eftir tvær mínútur af mínum tíma og ég vil gefa þær yfir til hv. þm. Guðna Ágústssonar þannig að hann geti tjáð sig í málinu.