Þingfararkaup

27. fundur
Fimmtudaginn 15. júní 1995, kl. 19:40:57 (1019)


[19:40]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Frv. sem hér er til umræðu er m.a. flutt af þingflokksformanni Alþb. og í því felst að þingflokkurinn hefur heimilað honum að standa að flutningi málsins og ég mun að sjálfsögðu standa að því að afgreiða málið og samþykkja það.
    Ég tek ekki undir þær athugasemdir sem fram hafa komið frá þingmönnum Kvennalista og Þjóðvaka og ég tel rétta leið, sem farin er í frv., að skilja á milli ákvörðunar þings annars vegar og Kjaradóms hins vegar.
    Hins vegar er eitt atriði í frv. sem ég hef gert athugasemdir við og vil að komi fram þó að þær breyti því ekki að ég muni styðja málið í heild sinni þegar það gengur til atkvæða. Ég er andvígur 4. gr. frv. sem kveður á um að alþingismenn sem gegndu starfi hjá hinu opinbera áður en þeir tóku sæti á Alþingi hafi rétt umfram aðra alþingismenn sem gegndu starfi á almennum vinnumarkaði áður en þeir urðu alþingismenn. Ég tel ekki efni standa til þess að alþingismenn, sem áður gegndu starfi hjá hinu opinbera, svo sem Háskóla Íslands eða hafa verið kennarar, njóti þess atvinnuöryggis að halda stöðu sinni í allt að fimm ár og hafa auk þess þar á eftir í önnur fimm ár forgangsrétt að starfi hjá hinu opinbera eða atvinnuöryggi í allt að tíu ár samfleytt. Í greinargerðinni kemur fram að hér sé um að ræða lágmarksákvæði þannig að það er ljóst að menn geta notið rýmri réttinda en kveðið er á um í þessari grein.
    Ég get ekki fallist á það, virðulegur forseti, að þeim alþingismönnum sem áður gegndu starfi hjá hinu opinbera sé frekar hætt við því að falla út af þingi en alþingismönnum sem gegndu starfi á almennum vinnumarkaði áður en þeir tóku hér sæti og af þeirri ástæðu sé ég ekki rök til þess að vernda þá sérstaklega fyrir því að missa starf sitt.