Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 30 . mál.


34. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 93 20. nóvember 1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, með síðari breytingu.

(Lagt fyrir Alþingi á 119. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.


    Við 15. gr. laganna bætist ný málgrein er verður 2. mgr. Núverandi 2. mgr. verður 3. mgr. Málsgreinin orðast svo:
    Eftirlitsmönnum eftirlitsstofnunar EFTA er heimilt í samvinnu við Fiskistofu og í fylgd starfsmanna hennar að gera vettvangsathugun hjá þeim aðilum sem fengið hafa vinnsluleyfi frá Fiskistofu, sbr. 12. gr. laganna, til að sannreyna að uppfyllt séu skilyrði laga þessara og reglna settra með stoð í þeim.
    

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að eftirlitsmönnum eftirlitsstofnunar EFTA sé heimilað að gera vettvangsathugun hjá íslenskum fiskvinnslufyrirtækjum sem vinnsluleyfi hafa fengið frá Fiskistofu til að ganga úr skugga um að ástand fyrirtækja sé í samræmi við við löggjöf um meðferð og hreinlæti við framleiðslu sjávarafurða. Er gert ráð fyrir að fyrir fram sé haft sam ráð við Fiskistofu um vettvangsathugun og hún gerð í fylgd eftirlitsmanna Fiskistofu.
    Með aðild að samningi um Evrópskt efnahagssvæði skuldbatt Ísland sig til að fella inn í löggjöf sína meginmál samningsins og fjölmörg atriði úr löggjöf Evrópusambandsins. Á sviði sjávarútvegs var m.a. samið um að fella inn í löggjöf okkar flest efnisatriði tilskipunar ráð herraráðsins nr. 91/493 um hollustuhætti við framleiðslu og markaðssetningu fisks og fiskaf urða, ásamt tilskipunum og ákvörðunum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins henni tengdar. Í 8. gr. tilskipunarinnar er sérfræðingum framkvæmdastjórnarinnar í samvinnu við lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum heimilaðar vettvangsathuganir til að tryggja samræmda beit ingu tilskipunarinnar og til að ganga úr skugga um að farið sé í raun eftir ákvæðum hennar. Hliðstætt ákvæði við 8. gr. tilskipunar ráðherraráðsins nr. 91/493 er ekki að finna í lögum nr. 93/1992.
    Á grundvelli 108. gr. samnings um Evrópskt efnahagssvæði hafa EFTA-ríkin komið á fót sjálfstæðri eftirlitsstofnun með hliðstæðu sniði og hjá Evrópusambandinu til að tryggja efndir á skuldbindingum ríkjanna samkvæmt samningnum. Eftirlitsstofnunin (ESA) hefur í þessu skyni yfirfarið lög nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, og þær reglugerðir sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Íslenskum stjórnvöldum bárust formlegar athugasemdir frá stofnuninni vegna vanefnda Íslands á EES-samningnum, dags. 21. desember 1994. Meðal annars var gerð sú athugasemd að ekki væri að finna í lögum heimild þess efnis að eftirlitsstofnunin gæti gert vettvangsathuganir hjá þeim aðilum sem leyfi hefðu til að framleiða sjávarafurðir fyrir markað í ríkjum innan Evrópusambandsins. Á fundi með eftirlitsmönnum stofnunarinnar 6. apríl sl. voru ítrekaðar fyrri athugasemdir og óskað eftir því að gripið yrði til skjótra aðgerða til að heimila vettvangsathuganir hjá fiskvinnslufyrirtækjum.
    Frumvarp þetta er því lagt fyrir Alþingi til að uppfylla samningsskyldur Íslands samkvæmt samningi um Evrópskt efnahagssvæði og koma þannig í veg fyrir frekari aðgerðir af hálfu eft irlitsstofnunar EFTA sem gætu falist í formlegri kæru til EFTA-dómstólsins.