Umgengni um nytjastofna sjávar

Þriðjudaginn 30. janúar 1996, kl. 16:11:38 (2544)

1996-01-30 16:11:38# 120. lþ. 79.1 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, KPál
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur


[16:11]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil taka lítillega þátt í þessari umræðu um umgengni um auðlindir sjávar, fyrst og fremst á þeirri forsendu að í þeirri umræðu sem ég hef tekið þátt í um sjávarútvegsmál í gegnum árin, kannski sérstaklega hin síðari ár, hef ég verið einn af þeim sem hafa gagnrýnt mjög umgengni um fiskimið landsmanna. Eftir því sem sannað er í dag og sögusagnir hafa verið hafa menn hent ótæpilega afla af öllum mögulegum tegundum og í alls konar ástandi. Og eftir því sem mér sýnist hafa menn verið að slaka á þeirri samviskukló sem hefur verið yfir íslenskum fiskimönnum í gegnum aldirnar. Ég hef verið sjómaður í nokkra áratugi og fiskimaður þar af nokkuð lengi. Ég get alveg upplýst að á þeim árum sem ég var á togurum og við fiskuðum undir kerfi sem þá var kallað skrapdagakerfi, hentum við jafnvel dögum saman tugum tonna á dag af fiski, ekki vegna þess að við gætum ekki nýtt hann með einhverju móti heldur bara vegna þess að okkur fannst hann of smár. Reglurnar sem þá voru heimiluðu okkur ekki að taka nema ákveðinn hluta af smáum fiski í land þannig að því var bara öllu hent. Maður henti kannski 80% af því sem kom inn jafnvel af 10 tonna hali. Það eru 20 ár síðan þetta gerðist en þetta er búið að gerast oft síðan. Í hv. Alþingi get ég upplýst að þetta var gert svona þó svo að allir um borð, að mér fannst, tækju út fyrir það að þetta skyldi vera gert. Þetta var gert undir skrapdagakerfi. Það er talað um að hættan sé miklu meiri við svokallað aflamarkskerfi og menn hendi meiru undir þeirri fiskveiðistjórnun en einhverri annarri. Ég held að það sé misskilningur því að reynslan sýnir okkur allt annað þó svo að ég geti svo sem tekið undir það að menn freistist til að henda kannski undir einhverjum öðrum formerkjum. Í þessum kerfum báðum hafa menn freistast til að henda fiski. En það er ekki hægt að segja í hve miklum mæli í hvoru tilviki fyrir sig.

Ég kom fyrst og fremst upp út af 2. gr. sem mér finnst beinlínis heimila íslenskum sjómönnum samkvæmt lögum að henda fiski í sjóinn. Það kemur fram í 2. mgr. 2. gr., með leyfi forseta.

,,Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að varpa fyrir borð afla sem sýktur er, selbitinn eða skemmdur á annan hátt sem ekki hefði verið unnt að komast hjá á þeim veiðum sem um er að ræða.``

Hvað þýðir þetta? Í mínum huga getur þetta þýtt alveg ótrúlega margt og t.d. á togveiðum er nánast hægt að segja að afli úr 40--50 tonna hali í flottroll geti allur verið ónýtur, meira og minna marinn, blóðsprunginn og smár. Ég sé fyrir mér að menn geti réttlætt með lögum að þeir hendi öllum afla sem kemur inn undir þannig kringumstæðum. Ég get líka séð þetta gerast á dragnótaveiðum þar sem menn geta tekið mjög stór höl. Það getur náttúrlega gerst á öllum mögulegum netaveiðum að menn skemma meira og minna fisk og er þá undir mati og vilja sjómanna hverju sinni hvað þeir telja skemmt og hvað þeir telja heilt. Mér finnst þetta atriði mjög vafasamt svo að ekki sé meira sagt.

[16:15]

Ég man eftir því þegar ég var á línu, sem telst mjög vistvænn veiðiskapur, var tindabikkja yfirleitt aldrei hirt. Í dag þykir hún herramannsmatur. Það hefur komið fram áður að fisktegundum eins og skötusel og langhala var yfirleitt alltaf hent en núna eru þær tegundir hirtar og seldar dýru verði þannig að menn hafa smám saman verið að reyna að koma aukaaflanum í verð. Hins vegar sýnist mér að með því að segja beinlínis í lögunum að leyfilegt sé að henda aukaafla séum við að heimila að henda nánast öllu því sem við ætlum ekki að nota. Með þessu er verið að opna fyrir ansi margar gáttir.

Ég vildi vekja athygli á þessu. Ég veit að þetta á eftir að koma fyrir hv. sjútvn. og verða rætt en ég hygg að margur geti sagt svipaða sögu. Ég get reyndar sagt miklu fleiri sögur en tel ekki ástæðu til þess við 1. umr. Ég vara eindregið við því að þetta verði gert og sjútvn. og ráðuneytið þurfa að skoða það sérstaklega. Ég held að það sé mjög hættulegt að losa svo mjög um þá siðferðilegu hömlu sem hefur verið á sjómönnum. Ég óttast að vinna ráðuneytisins að bættri umgengni um fiskimiðin við Ísland sé fyrir bí með þessu ákvæði. Ég vonast til að að þessu verði breytt í meðförum þingsins, við þurfum að herða á reglum um umgengni á fiskimiðum okkar við Íslandsstrendur.