Samningsveð

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 14:10:32 (2634)

1996-02-01 14:10:32# 120. lþ. 82.3 fundur 274. mál: #A samningsveð# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[14:10]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur mestar áhyggjur af þessu atriði en kemur ekkert inn á þá ábyrgð sem Alþfl. ber á því hvernig komið er um sameign þjóðarinnar, aflaheimildir sem úthlutað er á hverju ári til fiskveiðiflotans. Ég held að það væri fróðlegt að rifja upp að það var í tíð ríkisstjórnar sem Alþfl. sat í og þar á meðal hv. þm. sem hjólið fór að snúast einmitt á þann veg að svokallaðir sægreifar eiga nú aflahlutdeildirnar. Þetta var gert með þeim ráðstöfunum sem gerðar voru í gegnum Byggðastofnun á sínum tíma til að bjarga fyrirtækjum og koma þeim inn í sjóði sem stofnaðir voru beinlínis af þeirri ríkisstjórn og hafa verið vandræðabörn ætíð síðan. Ég hefði nú hugsað að í rauninni væri eðlilegra að velta þeirri ábyrgð sem hv. þm. ber á þessu máli frekar fyrir sér.