Nýting innlends trjáviðar

Fimmtudaginn 01. febrúar 1996, kl. 15:33:37 (2666)

1996-02-01 15:33:37# 120. lþ. 82.5 fundur 184. mál: #A nýting innlends trjáviðar# þál., JónK
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur


[15:33]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Ég vil leggja áherslu á mikilvægi tillögunnar sem hér er flutt. Ég tel nauðsynlegt að hún nái fram að ganga. Hún er flutt vegna mikillar framþróunar og breytinga í skógrækt á Íslandi. Ég vil undirstrika það vegna þess að ég hef haft það fyrir augum síðustu 25--30 ár hve árangurinn er gífurlegur í þessum efnum, m.a. í mínu heimahéraði.

Það eru raunverulegir möguleikar á atvinnuuppbyggingu í þessari grein. Þessi grein getur leitt til nýsköpunar í atvinnulífi og að því ber að huga sem allra fyrst.

Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu meira en vona að tillagan fái framgang á hv. Alþingi þannig að hefjast megi handa í skipulagningu þessara mála.