Útvarpslög

Þriðjudaginn 06. febrúar 1996, kl. 13:46:16 (2731)

1996-02-06 13:46:16# 120. lþ. 84.6 fundur 246. mál: #A útvarpslög# (auglýsingar) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur


[13:46]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera þetta frv. að umtalsefni efnislega en vil hins vegar aðeins ræða hvort það eigi heima í útvarpslögum. Ég tel sjálfur að vilji Alþingi setja slík ákvæði í lög sé skynsamlegra að huga frekar að samkeppnislögum sem lúta m.a. almennt að auglýsingum og því hvaða skilyrði menn verða að uppfylla varðandi þær. Eins og ég skil málflutning hv. flm. er tilgangurinn sá að koma í veg fyrir að auglýsingar með slíku efni séu almennt birtar. Ég tel að það sé of þröngt svið að binda það aðeins í útvarpslögum, frekar beri að líta á þá löggjöf sem almennt gildir um samkeppni og auglýsingastarfsemi ef menn vilja t.d. koma í veg fyrir að slíkar auglýsingar séu birtar í blöðum, kvikmyndahúsum eða annars staðar þar sem menn nota tæknina til að koma þeim á framfæri. Þá er of þröngt að miða þetta aðeins við útvarpslögin. Þess vegna legði ég til að þessu frv. yrði breytt og það yrði lagt fram sem breytingartillaga við samkeppnislögin og látið á það reyna í efh.- og viðskn. þingsins hvort slík ákvæði ættu heima í lögum. Eins og hv. þm. vakti máls á eru til alþjóðareglur verslunarráða og aðrar slíkar reglur sem gilda almennt um auglýsingar og efni þeirra. Mér finnst að það eigi að fjalla um þau mál án þess að tiltaka sérstaka miðla. Þarna er um efni auglýsinganna almennt að ræða og þá ætti þetta að gilda jafnt um alla miðla en ekki aðeins um útvarp eins og yrði ef þetta yrði bundið í útvarpslögum.


[13:48]