Aðgengi fatlaðra að umhverfisráðuneytinu

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 13:42:21 (2759)

1996-02-07 13:42:21# 120. lþ. 85.1 fundur 264. mál: #A aðgengi fatlaðra að umhverfisráðuneytinu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[13:42]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar sem hann kom fram með. Sérstaklega vil ég fagna því að það skuli ráðist í breytingar á húsnæði umhvrn. á miðju þessu ári þótt fyrr hefði að sjálfsögðu átt að ráðast í slíkar breytingar.

Hins vegar kom fram í máli hæstv. ráðherra að einvörðungu hluti ráðuneytisins yrði aðgengilegur fötluðum og er það mín skoðun að ríkisstjórnin eigi að hyggja að því hið allra fyrsta að fá annað húsnæði fyrir þetta ráðuneyti sem þegar öllu er á botninn hvolft á að sinna byggingar- og skipulagsmálum og þar á meðal aðgengismálum fyrir fatlaða. Að sjálfsögðu liggur í augum uppi að slíkt ráðuneyti og reyndar öll ráðuneyti og allar opinberar stofnanir, en ekki síst þetta ráðuneyti, á að sjá sóma sinn í því að hafa allar sínar vistarverur aðgengilegar fyrir alla þegna landsins.