Aðgengi opinberra bygginga

Miðvikudaginn 07. febrúar 1996, kl. 14:08:37 (2768)

1996-02-07 14:08:37# 120. lþ. 85.3 fundur 266. mál: #A aðgengi opinberra bygginga# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur


[14:08]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Nú er það svo að ég hef enga sérstarka ást á skýrslum og skýrslugerð yfirleitt. Skýrslur gera menn hins vegar til þess að kanna ástand mála og síðan framkvæma í samræmi við það.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að þessum framkvæmdum hefur miðað mjög hægt og víða er pottur brotinn og mörgu áfátt í reglugerðum og lögum og ég fagna því sem fram kom í hans máli að það eigi að gera bragarbót á. Ég tel nauðsynlegt að gerð verði mjög rækileg og ítarleg úttekt á aðgengi í öllum stofnunum ríkis og sveitarfélaga á vegum ríkisstjórnarinnar með tilliti til þarfa fatlaðra og mun ég leggja fram tillögu til þingsályktunar þess efnis. Markmið slíkrar úttektar verður að fá fram óyggjandi upplýsingar um stöðu þessara mála. Á grundvelli upplýsinga sem þar koma fram ætti að vera hægt að gera framkvæmda- og kostnaðaráætlun um úrbætur svo vinna megi markvisst að því að gera allar byggingar ríkis og sveitarfélaga aðgengilegar öllum Íslendingum.