Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 14:54:07 (2799)

1996-02-08 14:54:07# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[14:54]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér fer fram mjög mikilvæg umræða um heilbrigðismál. Hér hafa fallið mjög mikilvægar pólitískar yfirlýsingar. Sumar koma á óvart, aðrar síður eins og sú yfirlýsing hæstv. fjmrh. nú áðan að það þurfi að leita leiða til að leyfa sjúklingum að borga. Þetta er ekki ný stefna af hans hálfu. Hitt er nýtt af hálfu hæstv. heilbrrh. að taka undir með leiðarahöfundi Morgunblaðsins varðandi þá hugmynd að aflögufært fólk, efnamenn, verði látnir greiða fyrir aðhlynningu á sjúkrahúsum. (Heilbrrh.: Í formi skatta.) Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. hvort hér sé verið að boða tekjutengd innritunargjöld á sjúkrahús?

Þessi umræða um heilbrigðismál er afar flókin um margt. Eins og hér hefur verið bent á er þetta stór og viðamikill málaflokkur. Við erum að tala um 50 milljarða sem varið er til heilbrigðis- og tryggingamála af 124 milljörðum á fjárlögum ríkisins. Við erum að tala um drjúgan hluta samneyslunnar. En við erum einnig að tala um mjög stór og mikilvæg mál af siðferðilegum toga.

En þótt þessi umræða sé stór, flókin og viðamikil, þá eru línurnar um margt mjög skýrar. Það er t.d. mjög skýrt sem fram hefur komið af hálfu Þjóðhagsstofnunar nú síðustu daga um hver þróun þessara mála hefur verið á síðustu árum. Í gögnum Þjóðhagsstofnunar kemur fram að framlag íslensku þjóðarinnar til heilbrigðismála hefur nánast staðið í stað á síðustu árum. Það sem hins vegar hefur breyst er hver það er sem borgar brúsann. Þar hefur orðið stórbreyting á. Þannig borga sjúklingar núna 2 milljörðum kr. meira. 2 milljarðar renna úr vasa sjúklingsins umfram það sem gerðist á árinu 1990. Það er þetta sem hefur breyst. Það er þessi stefna sem við eigum að ræða hér, hvert við viljum halda. Hvort við ætlum að sækja frekar ofan í vasa sjúklingsins, eins og hæstv. fjmrh. boðar, ,,að leyfa sjúklingnum að borga``, eða hvort við ætlum að reyna að viðhalda því kerfi samhjálpar sem hér hefur verið byggt upp á síðustu árum.

Síðasta ríkisstjórn sagði jafnan að hún væri að bjarga velferðarkerfinu þegar hún reyndi að skera það niður við trog. Þá var hún að bjarga velferðarkerfinu. Nú hefur það hins vegar verið staðefst sem gagnrýnendur þessarar stefnu héldu fram að það sem hefði gerst og væri líklegt til að gerast væri að kostnaðurinn færðist til. Það er þetta sem nú hefur verið staðfest af hálfu Þjóðhagsstofnunar.

Það er alveg rétt sem bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. hafa haldið fram, að við búum við mjög gott heilbrigðiskerfi. Hæstv. fjmrh. sagði reyndar í sinni ræðu að það væri nauðsynlegt að feta í fótspor annarra OECD-ríkja sem hvert af öðru væru nú að leita leiða til að gera breytingar á sínu heilbrigðiskerfi. Það er rétt að minnast þess að fyrir fáeinum árum gerði OECD, Efnahags- og framfarastofnunin, könnun á heilbrigðiskerfi Íslendinga. Þar varð meginniðurstaða sú að íslenska heilbrigðiskerfið veitti þjónustu sem væri töluvert yfir meðaltali að gæðum með tilkostnaði sem væri lítið umfram meðaltal OECD-ríkjanna. Og þegar spurt var hvort þeim milljörðum sem við verðum til heilbrigðisþjónustunnar væri vel varið þá sögðu sérfræðingar OECD að svo væri. Niðurstaða þeirra var sú að hér hefði náðst öfundsverður árangur umfram það sem gerðist hjá öðrum þjóðum. Við skulum því fara varlega í sakirnar þegar við gerum uppskurð á þessu kerfi eða breytingar í þá veru sem hæstv. fjmrh. hefur boðað.

Það hafa margoft verið gerðar kannanir, sennilega var sú ítarlegasta á vegum BSRB, það var hagfræðingur BSRB, Rannveig Sigurðardóttir, sem gerði könnun árið 1990 um tilfærslu á kostnaði í kerfinu við lokanir og samdrátt; hvernig sparnaður kæmi fram annars staðar sem útgjaldaauki, eða hætt væri við því. Þetta kom m.a. fram í yfirlýsingum í sömu veru sem eru hafðar eftir læknum í Morgunblaðinu í gær. Þar segir Lárus Helgason, yfirlæknir á geðdeild Ríkisspítala, þegar hann er spurður um kostnað við að úthýsa sjúklingum eða útskrifa þá hratt, þ.e. hvernig tilkostnaðurinn færðist til í kerfinu. Lárus segir, með leyfi forseta:

,,Menn verða að liggja heima hjá sér og fá aðeins aðhlynningu á göngudeildum sem kostar venjulega mikið álag fyrir fjölskyldu því að einhver verður að vera heima við til að sinna gæslu. Ef málin eru þannig eins og oft er, að um er að ræða fjölskylduföður sem fær sjúkrabætur eða tryggingar, þýðir það stóraukinn kostnað fyrir vinnuveitendur eða Tryggingastofnun ríkisins. Það sem á að spara flyst því að miklu leyti aðeins til í kerfinu,`` segir Lárus að lokum.

En hér skal sem sagt áfram haldið á niðurskurðarbrautinni. Og við verðum að draga þá ályktun að þetta sé gert að yfirveguðu ráði, þetta sé yfirveguð pólitísk stefna að færa áfram tilkostnaðinn frá samneyslunni og yfir á notandann, frá skattborgaranum yfir á þann sem nýtir sér þjónustunna, frá hinum heilbrigða yfir á hinn sjúka.

[15:00]

Þrátt fyrir varnaðarorð stjórnenda sjúkrahúsanna, Ríkisspítalanna, Sjúkrahúss Reykjavíkur og sjúkrahúsa á landsbyggðinni og Ríkisendurskoðunar, er áfram haldið á þessari braut og skorið niður. Það var gert við síðustu fjárlagagerð, þótt mönnum væru ljósar afleiðingarnar. Þannig var vitað við fjárlagagerðina að fengi Sjúkrahús Reykjavíkur ekki viðbótarfjármagn sem næmi 440 millj. kr. yrði ekki unnt að veita þá þjónustu sem Borgarspítalinn og Landakot veittu í fyrra. Hið sama á við um Ríkisspítalana, þar var vitað að ef ekki kæmi til sögunnar viðbótarfjármagn yrði um að ræða rýrari þjónustu, fækkun starfsfólks, auknar sértekjur eða þá gjaldtöku á sjúklinga. Sama var uppi á tengingnum annars staðar. Svo dæmi sé tekið var búið að ráðast í mikinn niðurskurð og mikla hagræðingu hjá Sjúkrahúsi Suðurnesja. Vitað var að þar héngi allt á bláþræði ef ekki kæmi til viðbótarfjármagn. En menn skelltu við því skollaeyrum. Að sjálfsögðu er nú að ganga eftir það sem sagt var fyrir við fjárlagaumræðuna hér fyrir jólin. Sjúkrahús Reykjavíkur hefur lagt fram hugmyndir um niðurskurð, sparnað og gjaldtöku. Í greinargerð framkvæmdastjórnar með tillögum um aðgerðir til sparnaðar á Sjúkrahúsi Reykjavíkur fyrir árið 1996 segir í einum liðnum, með leyfi forseta:

,,Með því að endurskilgreina vistun á gæsludeild þannig að ekki sé litið svo á að sjúklingur sé innritaður á sjúkrahúsin má auka sértekjur um a.m.k. 7 millj. kr., tæplega 1.600 sjúklingar fara heim af gæsludeild sem þá ættu að greiða slysadeildargjald, 2.248. kr. Með hlut Tryggingastofnunar er heildargjald 2.823 kr. sem gæfi tæplega 4,5 millj. kr. Tekjur af röntgenrannsóknum þessara sjúklinga eru áætlaðar 1,8 millj. kr. og blóðrannsóknir 1,5 millj. kr.``

Það sem við erum að tala hér um er aukin gjaldtaka. Við erum í rauninni að tala um eins konar innritunargjöld með breyttum skilgreiningum.

Á Sjúkrahúsi Reykjavíkur hefur einnig verið talað um fækkun starfsfólks vegna þessa niðurskurðar, nokkuð sem gengur illa upp í ljósi þess að starfsfólki hafði verið gefið fyrirheit um starfsöryggi vegna skipulagsbreytinga sem tengdust sameiningunni.

Á Sjúkrahúsi Suðurnesja er mér kunnugt um að menn velti fyrir sér þremur valkostum. Það er lokun þriggja deilda, Víðihlíð sem er öldrunardeild í Grindavík, almennri lækningadeild eða fæðingardeildinni, sem mér skilst að sé valkostur sem menn horfi mjög alvarlega á þótt nauðugir séu. Þá spyrja menn eðlilega: Er sparnaður í því fólginn að senda 250 konur til Reykjavíkur til að fæða eða er hægt að taka við þeim þar? Hvað gerist þegar dregið er saman í öldrunarþjónustunni? Margoft hefur það sýnt sig að sparnaðurinn kemur annars staðar niður. Það er ávísað á Tryggingastofnun sem síðan fjármagnar einkapraxís utan sjúkrahúsanna. Það er hér sem komið er að því að ræða stefnu stjórnvalda í heilbrigðismálum. Í stuttu máli gengur hún út á það að auka hlutdeild sjúklinga í hjúkrunar- og lækniskostnaði og einkavæða þjónustu. Það er búið að undirbúa jarðveginn í langan tíma, það er búið að plægja hann um áraraðir með sífelldum rangfærslum um það hve dýrt sé að hjúkra fólki og lækna á Íslandi. Þessar staðhæfingar eru rangar samanber tilvitnun mína í gögn OECD. Í þeim gögnum kemur reyndar líka fram að þegar litið er á útgjöld til heilbrigðismála þá erum við í 13. sæti af 24 hjá OECD. Og ef við sleppum hjúkrunarheimilum eða öldrunarþjónustunni sem víða er gert þá erum við í 19. sæti af 24. Hér hafa því verið settar fram rangfærslur varðandi allan þennan samanburð.

Menn eru ekkert að fela það sem vakir fyrir þeim. Hæstv. fjmrh. sagði áðan að hann vildi láta sjúklinga borga. Það ætti að leyfa þeim að borga. Einn af embættismönnum hæstv. ráðherra, Halldór Árnason, skrifstofustjóri fjárlagaskrifstofu, segir í DV mánudaginn 5. febr., með leyfi forseta:

,,Þá er ekki síður mikilvægt að stjórnvöld gefi fólki kost á að greiða sjálft í meira mæli fyrir sjúkraþjónustu í stað þess að útiloka það frá henni, t.d. með lokun á deildum eða að innleiða ekki nýjustu tækni eða lyf. Fólki er örugglega svo annt um eigin heilsu að það vilji fá notið sem bestrar þjónustu.``

Það er þetta sem menn eru að reyna að innleiða hér. Og ekki nóg með það. Nú er það að gerast að fyrirtækin eru að byrja að forgangsraða inni á sjúkrahúsunum. Þannig ákveður stjórn Ríkisspítala að draga saman, t.d. á geðdeildum. Hvað gerist þá? Til sögunnar kemur lyfjafyrirtækið Pharmaco hf. með framlag, eflaust af mjög góðum hug og mjög vel þegið. Á fundi heilbrn. þingsins fyrir fáeinum dögum sagði pólitískur fulltrúi í stjórn Ríkisspítalanna, sjálfur stjórnarformaður Ríkisspítalanna, fulltrúi hæstv. heilbrrn. þar inni, að sér þætti þetta vera góð þróun og var þessu líkt við kostun í Ríkisútvarpinu sem einnig væri jákvæð. Á hvaða leið erum við eiginlega? Mér er spurn. Í ríkissjónvarpinu eru fyrirtæki farin að hafa áhrif á dagskrárgerð með kostun, á því leikur enginn vafi. Og nú taka menn því fagnandi að fyrirtækin fari að stýra inni á sjúkrahúsunum. Fyrst er létt af þeim skattbyrðinni og síðan koma þau færandi hendi með hluta af því sem þannig sparast aftur inn í samneysluna, en nú á sínum eigin forsendum. Í Verslunarskólanum eru kennslustofur merktar fyrirtækjum sem kostuðu smíði þeirra, Hekla hf., Flugleiðir hf. Er e.t.v. stutt í það að menn liggi ekki lendur á deild 3A eða 17B, heldur á gangi Pharmaco eða Hampiðjunnar eða séu vistaðir hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna? Eða svo við höldum okkur við dæmið frá forstjóra Ríkisspítalanna um kostun í sjónvarpi, er þess kannski skammt að bíða að þegar fjallað verður um niðurskurð á Landspítalanum verði í lok fréttarinnar sagt: Ríkisspítalar styrktu þessa frétt.

Auðvitað er það markviss stefna sem við erum hér að tala um. Fólk heldur áfram að veikjast og við erum að ræða það hvernig við ætlum að fjármagna hjúkrun fólks. Fjmrh. hæstv. talar um að það eigi að leyfa fólki að borga. Fulltrúi hæstv. heilbrrh. hjá Ríkisspítölunum segir það góða þróun að innleiða þar kostun. Ég sé að hæstv. forseti ætlar að minna mig á að ég er búinn með tíma minn, þótt ég gæti talað hér miklu lengur. Og það væri þörf á að tala miklu lengur um það hvernig haldið er áfram á þeirri braut sem fylgt var í tíð síðustu ríkisstjórnar, að seilast sífellt ofan í vasa sjúklinga. Hvernig hlutfallsgreiðslur í t.d. lyfjakostnaði eru að þyngjast. Ég vona að það komi fram hér við umræðuna á eftir. Það er ekki aðeins að krónutalan hækki heldur er hlutfallið að breytast sjúklingnum í óhag.

Því miður er tíminn útrunninn. Málefnið er þó ekki að fullu rætt og verður ekki í bráð með þeirri stefnu sem hér er fylgt og hér er boðuð af hæstv. ráðherrum, ekki aðeins hæstv. heilbrrh. heldur ekki síður hæstv. fjmrh. sem vill lofa sjúklingum að borga.