Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 16:18:55 (2893)

1996-02-12 16:18:55# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., viðskrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[16:18]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég geri engar athugasemdir við það að þessi þrjú mál sem hér hafa legið fyrir þinginu í nokkurn tíma séu öll tekin til umræðu á þessum degi. Reyndar hefði þurft að vera búið að mæla fyrir þeim talsvert fyrr en af óviðráðanlegum ástæðum hefur það ekki tekist. Ég gerði því engar athugasemdir við málsmeðferð hæstv. forseta í upphafi fundar.

Varðandi síðari spurninguna þá er það frv. sem ég hef nú þegar mælt fyrir um óbeinu fjárfestinguna stjfrv., frv. ríkisstjórnarinnar sem báðir stjórnarflokkarnir standa að. Það hefur verið samþykkt í ríkisstjórn, báðir þingflokkar hafa rætt það og gengið hefur verið frá því með eðlilegum og formlegum hætti.

Mér var ekki gert viðvart um að hér kæmi fram frv. frá fjórum þingmönnum Sjálfstfl. Ég lít hins vegar svo á og veit að það er stjfrv. sem ríkisstjórnarflokkarnir standa að og vilja fá hér samþykkt í þinginu. Ég lít frekar á frv. sjálfstæðismanna sem dæmi um smásamkeppni milli þingmannanna sem það flytja og þingmanna Þjóðvaka um það hvorir bjóði betur, á að bjóða 25% eða 49%? Ríkisstjórnin stendur að því frv. sem viðskrh. hefur mælt fyrir og það er ætlun ríkisstjórnarinnar að fá það samþykkt á þessu þingi, enda nær það til ýmiss konar skuldbindinga gagnvart alþjóðlegum samningum sem við erum aðilar að.