Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 12. febrúar 1996, kl. 18:04:52 (2907)

1996-02-12 18:04:52# 120. lþ. 88.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur


[18:04]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. um það að það er afar mikilvægt að við höfum forræði þessara mála í eigin höndum. Þess vegna var það að sæmileg þverpólitísk samstaða ríkti t.d. um það á sínum tíma að ganga frá málum með svipuðum hætti og gert var þegar lögin um fjárfestingu erlendra aðila voru sett á Alþingi 1991, ef ég man rétt. Þótt mjög skiptar skoðanir hafi verið um ágæti EES-samningsins tel ég samt að samstaða hafi verið um það að fjárfestingarfyrirvarinn gagnvart sjávarútveginum, sem er í raun og veru þau lög sem enn gilda, væri til bóta. Það var betra en ekki að ná honum. Þess vegna finnst mér að það standi fáum mönnum nær en einmitt hv. þm. sem hefur öllum núlifandi Íslendingum betur lofað hugverkið mikla, EES-samninginn og gerðina alla, að verja þennan fyrirvara. Málið snýst um það. Það er líka hárrétt að við getum svo sem hvenær sem er slakað á umfram það sem hann gerir ráð fyrir. En ég er þeirrar skoðunar að þar eigum við að fara afar gætilega. Við núverandi aðstæður á ekki að gera neina breytingu á því að hafa landamærin eða víglínuna þá að leyfa enga beina eignaraðild í sjávarútvegsfyrirtækjunum.

Ég sé ekki inn í framtíðina frekar en hv. þm., a.m.k. ekki með neinni vissu. Maður reynir þó að spá í hlutina og vera á varðbergi fyrir þeim hættum sem gætu leynst með fram veginum sem fram undan er. Og það held ég sé afar mikilvægt fyrir litla þjóð eins og okkur sem er að burðast við það að lifa efnahagslega sjálfstæðu lífi hér úti á þessari úteyju. Það hlýtur að vera mikilvægara en flest annað að passa upp á fjöreggið sjálft sem hér er í húfi, sjávarútveginn.