Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 13:44:27 (2931)

1996-02-13 13:44:27# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[13:44]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt var við afgreiðslu fjárlaga gert ráð fyrir auknu framlagi úr Vegasjóði í ríkissjóð og afleiðingar af því eru þær að framlög til vegamála lækka sem því nemur eins og kemur fram hér í till. til þál. um breytingar á þingsályktun um vegáætlun fyrir árin 1995--1998. Samkvæmt gildandi vegáætlun áttu framlög til vegamála að vera 7 milljarðar 678 millj. kr. en verða 6 milljarðar 763 millj. kr. Af þessum sökum er óhjákvæmilegt að flytja hér till. til þál. um breytingu á gildandi vegáætlun og eru þær tölur sem fram koma á þskj. í samræmi við fjárlög með þeirri breytingu þó að bensíngjald hefur verið hækkað sem nemur 100 millj. kr. á þessu ári og munu þær falla til nýbyggingar vega.

Í sjálfu sér er ekki mikið um þetta mál að segja fram yfir það sem ég hef nú sagt. Ástæðan fyrir því að vegáætlun var skorin niður og sömuleiðis hafnaáætlun og flugmálaáætlun var sú að ríkisstjórnin hafði einsett sér að afgreiða fjárlög svo að halli á þessu ári yrði ekki meiri en 4 milljarðar kr. Þó svo að menn einbeittu sér að því að reyna að ná rekstrargjöldum niður og draga úr eyðslu ríkissjóðs fundu menn ekki ráð til þess umfram það sem í fjárlögum segir og af þeim sökum voru framlög til framkvæmda skorin niður og þar á meðal framlög til vegamála.

Það er eftirtektarvert sem fram kemur í greinargerð með frv. að gert er ráð fyrir því að á þessu ári verði markaðar tekjur af bensíngjaldi um 200 millj. kr. minni en í gildandi vegáætlun sem gefur vísbendingu um að dregið hafi úr bensínnotkun eða akstri. Á hinn bóginn hefur bætt innheimta á þungaskatti það í för með sér að tekjur af kílómetragjaldinu vaxa um 80 millj. kr. og um 90 millj. kr. af þungaskatti, árgjaldið, en innheimta og eftirlit með þungaskatti var fært til Vegagerðarinnar á sl. ári og virðist gefa mjög góða raun. Raunar er talið að þungaskattur á þessu ári kunni að innheimtast betur en segir hér í athugasemdum en ekki þótti á það hættandi að gera ráð fyrir því í vegáætlun, þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, en mun á hinn bóginn koma til góða ef svo fer sem Vegagerðin spáir í þeirri tekjuáætlun sem hún hefur lagt fyrir.

Ef horft er til einstakra útgjalda þá er samanburður á þeim á bls. 4 í í greinargerðinni með tillögunni, þ.e. borið saman hvernig útgjöld verði samkæmt hinni nýju tillögu og hvernig þau eru samkvæmt gildandi vegáætlun. Sé ég ekki ástæðu til að fara með þá talnaþulu hér fram yfir það að vekja athygli á því aðalatriði að gert er ráð fyrir því að framlög til nýframkvæmda almennt lækki rétt um 18%, ríflega það. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því að fresta framkvæmdum sem gert hafði verið ráð fyrir í sérstöku framkvæmdaátaki sem efnt var til á sl. ári, þá er gert ráð fyrir því að framkvæmdaátakið yrði unnið á fjórum árum en tekjur kæmu inn á fimm.

[13:45]

Samkvæmt þeim tillögum sem hér liggja fyrir er gert ráð fyrir því að ekki komi til lántöku vegna framkvæmdaátaksins, en framkvæmdirnar færist á hinn bóginn aftur þannig að unnið verði fyrir um 350 millj. kr. á árinu 1999, en áður hafði ekki verið gert ráð fyrir því að fé af framkvæmdaáætlun rynni til vegagerðar á því ári heldur til endurgreiðslu á skuldum, sem mjög var gagnrýnt af stjórnarandstöðunni á síðasta ári og veit ég að ýmsir sem enn eru í stjórnarandstöðu munu gleðjast mjög yfir þessu.

Þetta hefur það óhjákvæmilega í för með sér að frestun á framkvæmdum verður meiri á höfuðborgarsvæðinu hlutfallslega og Norðurl. e. en í öðrum kjördæmum, sem byggist á því að fé samkvæmt framkvæmdaátakinu var veitt til einstakra kjördæma í samræmi við höfðatöluregluna. Og þar sem Norðurl. e. er langfjölmennasta landsbyggðarkjördæmið þýðir þetta að sjálfsögðu það að Norðurl. e. verður fyrir meiri niðurskurði nú en önnur landsbyggðarkjördæmi.

Ég man það frá síðasta Alþingi að sú röksemd mín að það væri eðlilegt að skipta bensíngjaldinu að hluta eftir höfðatölureglu var gagnrýnd mjög harkalega af ýmsum sem ekki vildu breyta hinum fyrri skiptitölum. Það má líklega segja um þá þingmenn sem þannig hugsuðu að þeir hljóta þá að gleðjast þeim mun meira yfir því að niðurskurðurinn skuli nú koma þyngra niður á þeim kjördæmum sem samkvæmt gildandi vegáætlun nutu fjölmennisins.

Ef við horfum til stórverkefna, þá hafa tilboð í þau á þessu ári verið það hagstæð að niðurskurðurinn kemur ekki að sök varðandi brúna yfir Gilsfjörð, varðandi veginn á Hólsfjöllum, austur fyrir Biskupsháls og sömu sögu má raunar segja um Ártúnsbrekkuna, en auðvitað hefur minna vegafé til langframa þau áhrif að framkvæmdir ganga hægar en ella mundi, en eins og nú horfir kemur niðurskurðurinn ekki að sök í þessum stórverkefnum.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Á næstu dögum mun Vegagerðin að sjálfsögðu hafa samband við einstaka þingmenn einstakra kjördæma um það hvernig staðið verði að niðurskurði á framkvæmdum í viðkomandi kjördæmum. Ég vonast til þess að samgn. taki málið fljótt fyrir og afgreiði eins fljótt og unnt er til þess að hægt sé að bjóða verk út eins og hagkvæmast þykir. Þetta mál er einfalt í sniðum, en hitt er auðvitað flóknara að semja nýja vegáætlun sem verður unnið að á þessu ári og lögð fyrir það Alþingi sem saman kemur næsta haust. Hér er sem sagt einungis um vegáætlun fyrir þetta ár að ræða en síðan verður endurskoðuð vegáætlun lögð fyrir á hausti komanda.