Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 14:14:55 (2936)

1996-02-13 14:14:55# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[14:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Framsögðuræðan var ekki lengri en svo að ef maður hefði geispað óvart á meðan hún var flutt, þá hefði maður misst af henni. Í henni voru bókstaflega engar upplýsingar. Engar. Ég hef aldrei heyrt ráðherra flytja framsögu fyrir meiri háttar framkvæmdaáætlun sem hefur verið jafnsnautleg og þessi. Ræðuhöld hæstv. ráðherra nú um að niðurskurðurinn bitni sérstaklega illa á Reykjavík og Norðurl. e. vegna þess að hann sé að talsverðu leyti af framkvæmdaátakinu, hvað segir það, hæstv. ráðherra? Það segir auðvitað að þessi kjördæmi fengu óvenjulega mikið á meðan framkvæmdaátakið var. Það var aðferð í og með til þess að breyta skiptaprósentunni að nota höfðatölureglu, sem er heimskulegur mælikvaði fyrir samgöngukerfið, vegna þess að stærð kjördæmanna, lengd vegakerfisins, ástand vegakerfisins og ýmsir aðrir þættir eiga að koma þar inn í myndina. Auðvitað tekur umferðarþunginn í einhverjum mæli mið af fólksfjölda, enda er hann mældur og kemur inn í þær viðmiðanir sem notaðar hafa verið. Þetta segi ég ósköp einfaldlega út frá efni málsins og hæstv. ráðherra er þá í raun að segja að þetta bitni á þessum kjördæmum vegna þess að þeim hafi verið hyglað sérstaklega umfram skiptaprósentuna eins og hún var í gegnum þessa aðferð.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra hafði enga tilburði uppi til að svara hinni spurningunni, þeirri fyrri. Hvar liggur það fyrir skriflegt? Getur hæstv. ráðherra reitt það fram fyrir þingið að fjmrh. sé búinn að samþykkja að þetta verði svona? Er til skriflegt samkomulag um þetta? Mér nægir ekki, með fullri virðingu fyrir þessum hæstv. ráðherrum, --- hæstv. ráðherrum, á ég að segja, er það ekki, herra forseti, það er ekkert undanfæri með það. Mér nægir ekki að það sé sagt hér að að liggi fyrir skilningur. Það er enginn frágangur á stóru, mikilvægu hagsmunamáli af þessu tagi. Ég vil fá um þetta skýrari svör.