Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:28:55 (2962)

1996-02-13 15:28:55# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:28]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég tel mig ekki hafa verið með neina sleggjudóma heldur var ég að vara við og furða mig á þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í ríkisstjórninni varðandi framkvæmdir til vegamála og í þessu tilviki til jarðgangagerðar undir Hvalfjörð.

Ég tel að það þurfi að fara með gát og gaumgæfa mjög alla gagnrýni þegar um svo stóra framkvæmd er að ræða eins og Hvalfjarðargöng. Við erum á jarðskjálftasvæði og ég man ekki betur en það hafi verið í fréttum nú í gær eða fyrrakvöld að göng féllu saman á jarðskjálftasvæði í Japan. Ég held því að full ástæða sé til þess að huga að gagnrýnisröddum sem snúa að gerð ganga undir Hvalfjörð.