Vegáætlun 1995--1998

Þriðjudaginn 13. febrúar 1996, kl. 15:56:42 (2968)

1996-02-13 15:56:42# 120. lþ. 89.1 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur


[15:56]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson hefur nú tvívegis endurtekið það að honum er mikið í mun að skera niður þau framlög sem eru í flugmálaáætlun til flugvallarins á Akureyri. Er það út af fyrir sig mjög merkileg yfirlýsing en auðvitað í samræmi við þau ónot sem hann sendi Akureyringum líka í sambandi við Slippstöðina. Það má eiginlega velta því fyrir sér hvernig stendur á því að maðurinn er orðinn svona önugur þegar þann fallega stað ber á góma.

Auðvitað geta menn velt samgöngumálum fyrir sig á marga vegu og mun ég í ræðu minni hér á eftir nokkuð fjalla um ræðu hv. þm. á breiðari grundvelli en hægt er í stuttu andsvari. En ég verð þó að leiðrétta nokkur atriði.

Í fyrsta lagi hefur það verið svo að langtímaáætlun í vegamálum hefur aldrei verið samþykkt á Alþingi svo ég muni, aldrei. Það var ekki gert á fjögurra ára ferli forvera míns, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. (Gripið fram í: Það var ...) Það var ekki gert. (Gripið fram í.) Langtímaáætlun var ekki samþykkt þá. Á hinn bóginn var það samþykkt með lögum 1994 að slík langtímaáætlun yrði lögð fyrir Alþingi og hún er í vinnslu hjá Vegagerðinni nú. En það var auðvitað út í hött að leggja slíka áætlun fyrir rétt fyrir síðustu kosningar eins og ég hef áður lýst yfir að ég telji röng vinnubrögð. (Gripið fram í.) Það var ekki brot á samningum við verkalýðshreyfinguna að fresta framkvæmdum, hluta af framkvæmdum samkvæmt framkvæmdaátakinu. Og það er undarlegt að hv. þm. skuli ekki geta farið rétt með það sem hér liggur fyrir. Það er verið að tala um að framkvæma fyrir þær tekjur sem koma inn samkvæmt framkvæmdaátakinu um leið og þær verða til. Það er þess vegna ekki verið að tala um niðurskurð á framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt þessum tillögum heldur frestun á framkvæmdum. Það ætti hv. þm. að geta skilið.