Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 14:46:54 (3021)

1996-02-14 14:46:54# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[14:46]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Við ræðum í dag mjög stórt mál og viðkvæmt í sjálfu sér vegna þess að það snertir bæði stóra spurningu um erlenda fjárfestingu sem áratugum saman hefur verið mikið álitamál í þjóðmálaumræðunni og hins vegar hvernig við viljum fara með auðlindina og aðgang útlendinga að henni. Þetta tvennt hefur verið meðal stærstu spurninga í íslenskri þjóðmálaumræðu árum og áratugum saman þannig að það er mjög eðlilegt að um þetta mál séu miklar umræður og skiptar skoðanir.

Ég vil í þessu sambandi vekja sérstaka athygli á því hversu mikil breyting hefur orðið á umræðunni um þessi mál á mjög skömmum tíma. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að ef frv. af þeim toga sem við ræðum hér m.a., þ.e. stjfrv. um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, hefði komið fram fyrir tveimur eða þremur árum, þá væri verið að ræða þessi mál á alveg gerólíkum nótum. Umræðan í þessari lotu hefur fyrst og fremst snúist um það hvort ganga eigi lengra en stjfrv. leggur til. Ég hef ekki orðið var við það almennt að hér séu stríðar skoðanir á lofti um það að það eigi að ganga skemur en stjfrv. leggur til. Ég fullyrði hins vegar að fenginni reynslu að fyrir 2--3 árum hefði umræðan verið alveg á þveröfugan veg. Frv. af þessu tagi, hvort sem það hefði komið frá ríkisstjórn eða einstökum þingmanni, hefði fengið þá umfjöllun hér í þinginu, að ég tali nú ekki um víðar úti í þjóðfélaginu, að hér væri verið að opna dyrnar fyrir útlendinga inn í íslenskan sjávarútveg á varasaman hátt. (GÁ: Þinginu er það gagn.) Hér kemur einmitt hv. þm. Guðni Ágústsson og kannast við slíkan málflutning. Þetta er auðvitað sú meginbreyting sem hefur orðið á þjóðmálaumræðunni vegna þess einfaldlega að aðstæðurnar í kringum okkur hafa verið að breytast og við erum komin inn í allt annað umhverfi heldur en við vorum áður.

Ég vakti athygli á því fyrir tveimur eða þremur árum í fyrirspurn að það væri svo að fjárfesting erlendra aðila í íslensku atvinnulífi hefði verið mjög lítil. Í svari við fyrirspurn minni í aprílbyrjun 1993 kom fram hjá hæstv. þáv. utanrrh. að erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi á árinu á undan hefði nánast eingöngu falist í því að útlendir eignaraðilar álversins í Straumsvík hefðu aukið hlutafé sitt í félaginu. Erlend fjárfesting á því ári í íslensku atvinnulífi var nánast fólgin í þessu einu með sáralitlum undantekningum. Við Íslendingar höfum hins vegar farið öfugt að. Við höfum verið að sækja blessunarlega út og taka þátt í fjárfestingu í öðrum löndum. Hér hefur verið rakið mjög rækilega hvað eftir annað af mörgum þingmönnum hvernig Íslendingar hafa verið að sækja út í fjárfestingu í sjávarútveginum í Chile, Namibíu, og Þýskalandi. Auk þess mega menn ekki gleyma fjárfestingu íslensku fisksölufyrirtækjanna beggja vegna Atlantsála í Bandaríkjunum, Frakklandi, Þýskalandi og á Englandi. Alls staðar hafa þessi fyrirtæki verið að festa sig í sessi og fjárfesta með skynsamlegum hætti til þess að skapa nýja útrás íslensks atvinnulífs á því sviði þar sem við þekkjum best til og þar sem við kunnum mest til verka.

Í svari við þessari fyrirspurn minni frá árinu 1993 kom líka fram að ekki færri en 10--20 erlendir aðilar á þeim tíma æsktu samstarfs við Íslendinga um sjávatútvegsrekstur í öðrum löndum. Að mínu mati segir þetta náttúrlega fyrst og fremst sögu um þá stöðu sem íslenskur sjávarútvegur hefur í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem hann þarf að heyja á hverjum einasta degi.

Ég nefndi það áðan að umræðan hefði breyst mjög mikið á fáum árum og hún hefur líka breyst mjög mikið innan sjávarútvegsins. Einn þeirra útgerðarmanna sem tekið hafa þátt í fjárfestingu erlendis er Þorsteinn Már Baldvinsson á Akureyri og hann segir í viðtali við Morgublaðið nú fyrir skömmu:

,,Ég er alveg óhræddur við að breyta lögunum þannig að erlendir aðilar geti átt í íslenskum sjávarútvegi. Ég tel að það geti orðið sjávarútveginum til góðs og sé jafnvel nauðsynlegt fyrir framtíðarþróun greinarinnar.``

Þetta er ég að undirstrika vegna þess að við erum að ræða þetta í nýju og breyttu umhverfi. Líka vegna þess að nú þegar eru til staðar umtalsverð fjárhagsleg tengsl íslenskra útgerðar- og sjávarútvegsfyrirtækja og erlendra aðila. Það er ekkert óeðlilegt eða ólöglegt við það einfaldlega vegna þess að fjárhagsleg og viðskiptaleg samskipti íslensks sjávarútvegs við fyrirtæki erlendis eru svo mikil að fjárhagsleg tengsl á milli þessara aðila eru óhjákvæmileg. Menn eiga ekki að tala í þessari umræðu eins og þau séu ekki til, þessi fjárhagslegu tengsl eru auðvitað til staðar.

Höfuðvandamál íslensks atvinnulífs í dag er auðvitað það að arðsemi eigin fjár er allt of lítil. Hagfræðingur Vinnuveitendasambandsins hefur dregið það saman að afkoman eða arðsemi eigin fjár í íslensku atvinnulífi á árunum 1987--1995 hefur að meðaltali verið innan við 1% meðan hún var 11% í OECD-löndunum. Þetta er á vissan hátt í hnotskurn vandi íslensks atvinnulífs og mjög í ósamræmi við þann málflutning sem maður heyrir stundum úr þessum ræðustóli um það að verið sé að hygla íslensku atvinnulífi óeðlilega í skattalegu eða efnahagslegu tilliti.

Auðvitað er mjög margt að gerast í íslenskum sjávarútvegi núna. Eitt af því er að sjávarútvegsfyrirtækin eru með einum eða öðrum hætti að brjótast lengra inn á markaðinn en þau höfðu tækifæri til áður. Fyrirtækin eru á beinni hátt núna að tengjast viðskiptavinum sínum. Fjarskiptabyltingin á þarna hlut að máli, en ýmsar aðrar breytingar koma þar við sögu. Það er enginn vafi á því að við munum sjá þetta gerast í miklu meiri mæli en áður. Hluti af því verður að auka þar með vinnsluna hér innan lands með svipað og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson rakti hér áðan. Það leikur enginn vafi á því að slík sérhæfing og slík fiskvinnsla mun kalla á aukna fjárfestingu, þar á meðal erlent fé. Og ég er mjög sammála því sem hv. þm. sagði að þar eigum við að draga línuna. Það er auðvitað reginmunur á því hvort við erum að tala um sérhæfða fiskvinnslu, eins konar iðnað, eða hvort við erum að tala um útveg í þeim skilningi sem við öll þekkjum og ekki þarf að fara nánar út í.

Hér hefur oft verið klifað á því, og fær það m.a. góðar undirtektir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins, að það felist í því mótsögn þegar við annars vegar fögnum því eins og ég gerði áðan að Íslendingar væru að sækja út í erlendum sjávarútvegi og hins vegar vildum við fara af gætni varðandi fjárfestingu erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi. Ég tel að það sé engin mótsögn í þessu. Morgunblaðið segir t.d., með leyfi virðulegs forseta:

,,Þegar svo er komið að við höfum snúið dæminu við og erum ekki lengur í þeirri varnarstöðu að verja okkar heimastöðvar heldur sækjum fram bæði í veiðum og á fjarlægum miðum og með kaupum á sjávarútvegsfyrirtækjum í öðrum löndum má spyrja hvort aðstæður nú gefi tilefni til þess að endurskoða þá stefnu að fjárfestingar útlendinga í íslenskum sjávarútvegi séu alfarið óheimilar. En þá yrði að sjálfsögðu að fara að öllu með fyllstu gát``, segir Morgunblaðið, með leyfi forseta.

Þetta er kannski í hnotskurn hluti af þeirri umræðu sem við höfum hlustað á undanfarna daga. Svar mitt er það að hér sé býsna ólíku saman að jafna. Annars vegar erum við að tala um atvinnugrein sem skiptir sköpum fyrir þjóðarbú okkar og er auðvitað fjöregg okkar í fremsta skilningi þess hugtaks. Þess vegna verðum við að viðhafa gríðarlega mikla gát og aðgæslu. Hins vegar erum við að tala um einstakar atvinnugreinar og einstök fyrirtæki sem tiltölulega litlu máli skipta í þjóðarbúi þeirra ríkja þar sem við erum að hasla okkur völl. Í Þýskalandi þar sem við höfum verið að fjárfesta mjög myndarlega í togaraútgerð mun það ekki skipta neinu máli um efnahagslega stöðu þeirrar þjóðar hvort sjávarútvegurinn er rekinn með sama hætti frá Rostock í dag eins og hann var í gær. (GÁ: Þar er ólíku saman að jafna.) Ólíku saman að jafna, segir hv. frammíkallandi sem virðist ætla að láta þetta duga sem framlag sitt til þessarar merku umræðu. Reyndar er söknuður að því að hv. þm. er orðinn svona þögull í þingsölum eftir að hann varð formaður landbn.

Annars vegar höfum við þá stöðu þar sem við erum að tala um tiltölulega lítil fyrirtæki í stórri heild og hins vegar ráðandi afl í íslensku efnahagslífi. Þess vegna segi ég að þótt ég fagni því að við tökum erlenda fjárfestingu til umræðu og þótt ég sé þess almennt mjög fýsandi að við löðum að erlent fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf, þá vil ég draga línuna þar sem ég hef þegar nefnt. Ég styð hins vegar mjög eindregið í meginatriðum það frv. til laga sem hæstv. ríkisstjórn flytur og vil raunar segja það sem mína skoðun að ég tel að það megi vel íhuga þann kost að opna þetta enn þá meira en þar er gert ráð fyrir. Ég tel t.d. að það sem hv. 11. þm. Reykn. nefndi í ræðu sinni í fyrradag um stöðu einstakra fyrirtækja sé hlutur sem við eigum virkilega að skoða. Við eigum auðvitað að viðurkenna þann raunveruleika og við eigum að skoða það mál til fullnustu. Að vísu mun hv. þm. hafa fullyrt, eða það minnir mig a.m.k., að þetta frv. eins og það er muni rústa hlutafjáreign Olíuverslunar Íslands, Olís, en það er að vísu ekki rétt samkvæmt mati lögfræðings fyrirtækisins eða stjórnarformanns fyrirtækisins. Hins vegar gæti það haft veruleg áhrif á framtíðarfjárfestingu þess fyrirtækis. Mín skoðun er sú að ég tel að við eigum að skoða það hvort hægt sé að breyta þessari prósentu, ekki sérstaklega fyrir þetta fyrirtæki heldur vegna þess að ég tel að það sé skynsamlegt í ljósi efnahagslegs raunveruleika og þess raunveruleika sem við sjáum í viðskiptalífinu að þessu leyti.

Virðulegi forseti. Ég læt þetta duga sem innlegg mitt í þessa umræðu. Ég tek undir það með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að ég tel að það komi til greina að við skoðum það að opna fyrir fjárfestingar í mjög skilgreindan hluta fiskvinnslunnar sem við getum kallað iðnað í því skyni að geta opnað fyrir okkur möguleika til þess að sækja út á hina erlendu markaði. En ég tel að bein eignaraðild útlendinga að útveginum sjálfum komi ekki til greina. Þar dreg ég mörkin, en ég vil jafnframt að við skoðum málið frekar. Ég er ekki reiðubúinn á þessari stundu til að kveða upp úr með þá prósentu sem þar eigi að vera varðandi hina óbeinu eignaraðild. Ég tel að það þurfi frekari íhugunar við og engin ástæða til að festa sig í einhverjum yfirlýsingum um tiltekna prósentu. Ég er opinn fyrir því að við skoðum betur að það sé rýmra en gert er ráð fyrir í stjórnarfrv.