Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Miðvikudaginn 14. febrúar 1996, kl. 15:17:42 (3028)

1996-02-14 15:17:42# 120. lþ. 90.2 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., TIO
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur


[15:17]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Það liggur ljóst fyrir að það mál sem er til umræðu í dag er mjög mikilvægt og ekkert óeðlilegt að það séu nokkrar skiptar skoðanir um hvernig halda beri á því. Það frv. sem hér liggur fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar ber þess merki að menn kjósa að ganga í málið af mikilli varkárni og stíga lítil skref, stíga að vísu nokkur skref í frjálsræðisátt í sambandi við fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútveginum en að skrefið sem stigið verði að þessu sinni verði þá óbein fjárfesting en ekki verði gengið lengra.

Ég tel ástæðu til þess hér og nú að leiða rök að því hvers vegna sé skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að fara varlega þá leið sem hér er verið að feta því að um það snýst deilan. Hún snýst um það hversu hratt við eigum að ganga þessa braut. Hún snýst einnig um það hvort hér gilda almennt sömu lögmál og um efnahag annarra þjóða og hvort við eigum að leiða hér inn lögmál fjálsra viðskipta án tillits til sérstöðu okkar. Þá er einmitt gott að athuga um leið hvort aðrar þjóðir gera slíkt hið sama.

Það er sjálfsagt að taka undir þann málflutning sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hafði uppi í þingræðu sinni að við gerum okkur grein fyrir því hversu þungt vægi sjávarútvegurinn hefur í íslensku efnahagslífi. Það er rétt fyrir okkur að spyrja okkur að því hvort slíkt vægi fyrirfinnist í nágrannalöndum okkar þar sem við þekkjum best til, þeim löndum sem við miðum okkur mest við. Eru einhver dæmi um ríki, t.d innan Evrópu, þar sem ein atvinnugrein og ein auðlind skiptir slíkum sköpum sem sjávarútvegurinn og nýting hafsins skiptir fyrir Íslendinga? Svarið við þessu er ósköp einfalt. Það eru engin dæmi um þetta. Samanburðurinn verður ekki gerður á þessum nótum. Á mjög marga lund er hægt að styðja með rökum þá fullyrðingu að Ísland njóti hér mikillar sérstöðu.

Ég hef örlítið dundað mér við að reyna að finna sambærilegar aðstæður og hér ríkja í sambandi við sjávarútveginn og hef engar fundið. Engu að síður ætla ég að nefna dæmi sem er engan veginn fyllilega sambærilegt en varpar þó ljósi á það til hvaða úrræða þjóðir grípa þegar þær telja að efnahagslegt sjálfstæði sé í hættu og þar af leiðandi pólitískt sjálfstæði. Það vildi svo til að Evrópuþjóðirnar höfðu lengi vel ekki gert sér fyllilega grein fyrir því hversu efnahagslega þær voru háðar olíu og þar af leiðandi líka stjórnmálalega háðar olíu fyrr en olíukreppurnar tvær skullu yfir Evrópu og yfir heiminn á áttunda áratugnum. Það sem blasti við þegar verð á olíu hækkaði skyndilega í tvígang var ósköp einfalt en alvarlegt umhugsunarefni fyrir Evrópuþjóðirnar. Það blasti með öðrum orðum við að efnahagur ríkisins, t.d. Frakklands, var svo háður orkunni og verðlagningu á orkunni að þeir sáu að ekki var hægt að búa við slíkan þrýsting sem olíuverðið var á efnahag Frakka. Þeir urðu að grípa til ráðstafana til þess að losa þjóðina úr þeim heljartökum sem olíuframleiðendur höfðu á Frakka og raunar miklu fleiri Evrópuþjóðir. Þetta var svo alvarlegt vandamál að Frakkar eyddu offjár í það að koma sér upp kjarnorkuverum til þess að minnka hin beinu efnahagslegu áhrif OPEC-ríkjanna og hin beinu stjórnmálalegu áhrif arabaríkjanna á utanríkisstefnu Frakka og efnahag Frakka.

Þessi þróun sem varð ekki bara innan Frakklands heldur í mjög mörgum öðrum Evrópuríkjum varð raunar til þess að draga mjög verulega úr samrunaþróun Evrópuríkjanna og frestaði um sinn þeirri samrunaþróun sem hafði staðið lengi og verið raunverulega fyrst og fremt á grundvelli efnahagslegrar samvinnu. Þetta hafði síðan í för með sér að Evrópuríkin settu upp sérstaka áætlun til þess að vinna gegn þeirri verndarstefnu sem var afleiðing af olíukreppunni og út úr því komu svo einingarlögin og Maastricht-samkomulagið. En einingarlögin sem slík, sameiginlegi markaðurinn og Maastricht-samkomulagið, hafa engu breytt í því að Evrópuþjóðirnar leggja jafnmikið upp úr því nú eins og þær gerðu eftir olíukreppuna að framleiða eins mikið af orku innan eigin landamæra og frekast er unnt. Mér er ekki kunnugt um að Frakkar hafi neinn hug á því að draga úr möguleikum sínum til þess að framleiða rafmagn með kjarnorku. Þeir líta þvert á móti á það sem eina af undirstöðum pólitísks sjálfstæðis síns að hafa þennan geira atvinnulífsins á sínu valdi.

Ég tek þetta dæmi þó að það sé ekki á nokkurn hátt sambærilegt við fiskveiðar og sjávarútveg Íslendinga. Ég nefni það einungis til þess að benda mönnum á það að þegar eitt svið atvinnulífsins eins og orkugeirinn eða eitt svið atvinnulífsins eins og sjávarútvegurinn hefur verulega mikið vægi fyrir þjóð eins og Íslendinga eða þjóð eins og Frakka ber að fara varlega þegar menn tala um það hver hafi ákvörðunarvald í því hvernig farið er með slíka auðlind. Það er einmitt þetta ákvörðunarvald sem tengist mjög náið í því máli sem hér er til umfjöllunar. Það er ljóst að með kvótakerfinu þá fylgir skipi afnotaréttur á auðlindinni svo fremi sem skipið hefur kvóta. Á þennan hátt tengjum við saman ákvarðanir um fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi við meðferð auðlindarinnar. Þetta dæmi sem ég tók er vísbending um það að við eigum að fara okkur varlega í þessum efnum.

Í því frv. ríkisstjórnarinnar sem liggur fyrir er m.a. verið að heimila samkvæmt samningi okkar um Evrópska efnahagssvæðið ótakmarkaða fjárfestingu í flugi. Ég vek athygli þingsins á því að einmitt á þessu sviði þar sem við erum nú að opna þetta er einnig full ástæða til varfærni þó þess sjáist ekki merki í þessu frv. Það er full ástæða til varfærni og full ástæða til þess að horfa með opnum augum á það hvað gæti gerst á sviði flugrekstrar. Einmitt það undirstrikar sérstöðu Íslands. Hvað haldið þið að gerðist í Lúxemborg ef Lux Air færi á hausinn? Yrðu veruleg umskipti í samgöngumálum þeirra sem búa í Lúxemborg? Að sjálfsögðu ekki. Þar eru nógir aðilar til að taka við þessu, járnbrautirnar og ýmsir aðrir samgöngumöguleikar, þannig að markaðurinn mundi sjá um það þar. (Gripið fram í: Flugvöllurinn verður þar áfram.) Hins vegar ber að hugsa um það hvað mundi gerast á Íslandi ef fyrirtæki eins og Flugleiðir færu á hausinn. Mundi markaðurinn lagfæra það? (Gripið fram í: Þeir voru ekki látnir fara á hausinn.) Nú er það svo eins og hér kom fram í frammíkalli að það lá mjög nærri því að Flugleiðir væru komnir á höfuðið árin 1978 og 1979. Í raun og veru bókhaldslega séð eða tæknilega séð var fyrirtækið komið á hausinn. Árið 1978 tapaði fyrirtækið 20 millj. dollara og var því bókhaldslega séð komnir á hausinn. Fyrirtækinu var hjálpað upp úr erfiðleikunum með stjórnvaldsaðgerðum í Lúxemborg og hér á Íslandi. Þannig var nú það. En hvað hefði gerst ef fyrirtækið hefði farið á hausinn? Hefði markaðurinn lagfært það? Engin rök eru fyrir því að markaðurinn hefði haldið uppi því þjónustustigi sem Flugleiðir halda uppi hér. Það eru engar markaðslegar forsendur fyrir því. Flugleiðir eru þeirrar skoðunar og þeir sem eru sérfróðir um þetta mál að íslenskur markaður sé allsendis ónógur til þess arna. Til þess að sjá Íslendingum fyrir þeim mikilvægu samgöngum sem þeir hafa við aðrar þjóðir vestan hafsins og austan þarf annað að koma til heldur en markaðslögmál. Markaðurinn skapar ekki þær flugsamgöngur sem við njótum í dag. Það sem skapar þær flugsamgöngur er sú staðreynd að hér vinna menn út frá íslenskum forsendum. Þeim hefur tekist að gera Ísland að ákjósanlegum lendingarstað og dreifingarstað fyrir flugumferð til Evrópu en Ísland hefur í raun og veru ekkert fram yfir Írland í þessum efnum eða, ef því er að skipta, ýmsar flughafnir á Englandi.

Þetta held ég sé rétt að láta koma fram vegna þess að umræðan gengur svolítið út á það hér og nú að hér ríki hin almennu lögmál og engin sérstaða landsins gildi í þeim efnum. Við eigum samkvæmt þessari umræðu að taka þátt í samstarfi þjóða að því er varðar viðskiptafrelsi, við eigum að gera það hiklaust og án þess að tryggja okkur nein sérréttindi á því sviði og ég vil aðeins vara við þessum málflutningi. Ég held að við eigum að taka fullt tillit til sérstöðu þjóðarinnar og það var einmitt í ljósi þessarar sérstöðu sem þrýst var á það í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að fá hana viðurkennda, að fá sérstöðu íslensks efnahagslífs viðurkennda og fá sérstöðu sjávarútvegsins einnig viðurkennda. Þetta er nú raunar ekki annað en það sem hver einasta þjóð sem hefur átt í samningum við Evrópusambandið hefur lagt sig fram um að gera, þ.e. að fá viðurkennda sína sérstöðu, efnahagslega og pólitískt. Evrópusambandsríkin hafa að sjálfsögðu líka gert þetta í sínum samningum. Þau ríki hafa lagt áherslu á það að fá sérstöðu síns landbúnaðar viðurkennda sem nær reyndar líka yfir sjávarútveginn.

[15:30]

Það hefur verið spurt eðlilegrar spurningar. Hvers vegna hafa erlendir aðilar ekki haft áhuga á því að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi fram til ársins 1992? Menn fórna hér höndum og segja: Hvers vegna í ósköpunum þegar þetta frelsi var við lýði? Hvers vegna fjárfestu erlendir aðilar ekki í sjávarútveginum hér þá? Þessum málflutningi er því ætlað að sýna fram á það að nú sé engin hætta. Það er engu að síður mótsagnakennt að menn eru að flytja frv. um 49% fjárfestingu í sjávarútvegi væntanlega í þeirri trú að það verði nýtt. Varla eru þeir að flytja frv. í þeirri trú að það verði ekki nýtt. En síðan er þessi röksemd notuð: Hvers vegna komu menn ekki inn í íslenskan sjávarútveg fram til 1992 þegar þetta var frjálst? En er nú þetta ekki einum of einfaldur málflutningur? Hvers vegna var ekkert ákjósanlegt fyrir erlenda aðila að koma inn í íslenskan sjávarútveg fyrir 1992? Það er nú bara svo einfalt mál, að þá ríkti hér allt annað efnahagsumverfi. Stjórn efnahagsmála hafði þá mjög lengi lotið allt öðrum lögmálum en almennur alþjóðlegur hlutabréfamarkaður lýtur. Það má minna á það t.d. að gengisskráningin laut þá ekki markaðslögmálum. Fiskverð hafði þá verið ákveðið í langan tíma með opinberum ákvörðunum. Það þjónar því ekki neinu upplýsandi markmiði að segja að aðstæður sambærilegar þeim sem nú gilda um fjárfestingu í íslensku atvinnulífi hafi gilt á þeim áratugum er hér ríkti óðaverðbólga og háskráning gengis og svo líka verulegar takmarkanir á heimildum til að versla með gjaldeyri og flytja gjaldeyri og hlutafé úr landi. Þannig að þessi umræða finnst mér að sé ekki upplýsandi.

Ég vil einnig taka það fram að það orkar nokkuð mótsagnakennt á mig þegar menn vitna í það annars vegar að erlendir aðilar hafi ekki sýnt því áhuga að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi og þess vegna sé engin hætta. En eru flm. þeirrar tillögu sem er á þskj. 547, hv. þm. Kristján Pálsson, Pétur H. Blöndal, Vilhjálmur Egilsson og Guðjón Guðmundsson, ekki að flytja þetta frv. til þess að erlendir aðilar fjárfesti í íslenskum sjávarútvegi? Af hverju er verið að draga sérstaklega fram í dagsljósið að það sé engin hætta á því? Væntanlega eru menn að gera þetta til að málið gangi eftir og að það verði fjárfest í íslenskum sjávarútvegi.

Nú er það svo að inn í þessa umræðu hefur blandast fjárfesting íslenskra aðila í sjávarútvegi erlendis. Það er eðlilegt. Það er ekkert í okkar samningum við Evrópuþjóðirnar, samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem hindrar þá fjáfestingu. Um það sömdum við. Og það er verið að nýta sér þá möguleika fullkomlega í samræmi við það svigrúm sem við höfum samkvæmt þeim samningi. En við sömdum um sérákvæði varðandi sjávarútveg okkar og það er heldur ekkert óeðlilegt við það að við nýtum okkur þau sérákvæði í samræmi við okkar eigin hagsmuni.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fara nánar út í þetta mál. Ég vil aðeins ljúka máli mínu með því að hvetja menn til að skoða þetta mál vendilega í ljósi séríslenskra hagsmuna og láta það ekki henda sig að ímynda sér að nákvæmlega sömu lögmál gildi á Íslandi og hjá öllum öðrum þjóðum. Ýmis mál eru sameiginleg til allrar lukku en margar aðstæður eru mjög ólíkar. Ég nefndi tvenns konar ástæður. Annars vegar vægi sjávarútvegsins í atvinnulífinu en hins vegar þetta merkilega atriði sem eru flugsamgöngur okkar við önnur lönd og forsendurnar fyrir því að við njótum eins góðs þjónustustigs og raun ber vitni á því sviði. Ég undirstrikaði að það eru einmitt ekki markaðsforsendur sem hafa orðið til þess að við njótum þess heldur sú staðreynd að menn hafa skipulagt þá starfsemi út frá íslenskum hagsmunum fyrst og fremst.