Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 11:20:18 (3045)

1996-02-15 11:20:18# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[11:20]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að ræða áfram örlítið við hæstv. fjmrh. um þetta plagg sem ég þó vitnaði aðeins í með tveimur stuttum athugasemdum. Ég tel aftur á móti gagnstætt því sem fjmrh. segir, að Ríkisendurskoðun sé óháður aðili og sé ekkert beggja megin við borðið. Ríkisendurskoðun er einn aðalhvataaðilinn að því frv. sem hér liggur fyrir og til umræðu er og ég tel að það sé mjög nauðsynlegt. Ég tel að ábendingar eins og liggja fyrir frá Ríkisendurskoðun séu ekki bara nauðsynlegar, heldur verða þær að vera til þess að við gerum okkur grein fyrir því hvað það er sem fer aflaga í þjóðfélaginu. Ég tel, þvert á móti því sem hæstv. ráðherra sagði áðan, að Ríkisendurskoðun sé sjálfstæð og hvort sem þeir eru sérvitrir eða ekki eru ábendingar þeirra fyrir mig sem fjárlaganefndarmann mjög nauðsynlegar. Og ég mun halda áfram að ræða það þegar þar að kemur.