Fjárreiður ríkisins

Fimmtudaginn 15. febrúar 1996, kl. 14:18:08 (3069)

1996-02-15 14:18:08# 120. lþ. 91.1 fundur 297. mál: #A fjárreiður ríkisins# frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur


[14:18]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að tefja þessar umræður lengi. Ég hef reynt að koma til skila sjónarmiðum með því að veita andsvar beint við ræðum hv. þingmanna sem allir hafa lýst yfir stuðningi við meginmarkmið þess frv. sem hér er til umræðu.

Ræða hv. síðasta ræðumanns gefur mér þó tilefni til þess að minnast á nokkur atriði við lok umræðnanna til þess að skýra kannski betur tilurð frv. og eins þá árekstra sem hafa verið uppi milli ýmissa aðila varðandi fjárreiður ríkisins. En áður en að því kemur vildi ég láta þess getið vegna ummæla hv. þm. Péturs H. Blöndals að það er að sjálfsögðu ekki vilji flutningsmanns eða ríkisstjórnar að halda úti bankastarfsemi hjá ríkinu. Það felst ekki í þessu frv. Það er alveg sérstakt mál og á því verður tekið annars staðar. Ástæðan fyrir því að menn skipta fjárlögunum og ríkisreikningi upp í þá hluta sem um er að ræða í þessu frv. er sú að hér er farið eftir flokkun sem hefur m.a. verið búin til hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en þar er þessum fyrirtækjum raðað upp þannig að í fyrsta lagi er um að ræða ríkissjóð eða ríkisstofnanir. Í öðru lagi opinber fyrirtæki sem eru ekki fjármálalegs eðlis og svo aðrar stofnanir bankalegs eðlis, á ensku ,,other bank like institutions``. Í D-hlutanum eru það peningayfirvöld eins og seðlabankar og viðskiptabankar og sparisjóðir og fjármálastofnanir sem eru ekki bankar. Þetta er skilgreining eða flokkun IMF eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og til samræmingar er svo tekið upp í þetta frv. þannig að það er ekki verið að lýsa vilja ríkisstjórnarinnar heldur einungis flokkunartillaga. Þetta vildi ég láta koma fram fyrst.

Hv. síðasti ræðumaður ræddi nokkuð um 41. gr. stjórnarskrárinnar sem hefur reyndar verið gert áður í þessari umræðu. Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem hér hefur verið sagt, einungis benda á að um þessi mál er mjög mikið fjallað í bók Ólafs Jóhannessonar prófessors, Stjórnskipun Íslands, sem talin hefur verið eins konar biblía til skýringar stjórnarskránni. Á bls. 310--313 er fjallað um þegar lög eru samþykkt sem stangast á við fjárlög og skyldu fjmrh. til að fara að fjárlögum. Þar er sagt réttilega frá því að það hefur venjulega verið skilið þannig þegar lög hafa verið samþykkt sem gera ráð fyrir útgjöldum án þess að gert sé ráð fyrir þeim í fjárlögum þá sé leitað heimilda í fjáraukalögum síðar rétt eins og þegar um útgjöld er að ræða sem ráðherra hefur efnt til. Nýjasta dæmið sem ég man um þetta var Vestfjarðaaðstoðin en lög um hana voru samþykkt á sínum tíma eftir að fjárlög höfðu verið samþykkt. Það var talið og er talið heimilt að greiða út þá fjármuni þótt þeirra væri ekki getið í fjárlögum en fjmrh. um leið skylt að sækjast eftir slíkri heimild í fjáraukalagafrv. haustið eftir. Nú vildi svo til ef ég man rétt að í þessu tilviki var ekki farið að greiða út fjármunina og var það ekki gert fyrr en síðar en það hefði ekki breytt neinu því að vilji Alþingis var talinn liggja fyrir.

Þetta vildi ég að kæmi fram af því að mér heyrist stundum eins og hv. þingmenn telji stjórnarskrána vera fortakslausa. Ég hef varað mjög við þeim skilningi þó að ég taki undir þau sjónarmið sem hafa komið mjög ríkulega fram í máli hv. þingmanna að auðvitað ber að fara með þessar heimildir af mikilli gát og reyna að fækka þeim sem mest, þ.e. fjáraukalagaheimildum, og að skilgreina eins og gert er í frv. hvenær og við hvaða tilefni megi grípa til slíks þannig að ég held að frv. sé til bóta hvað þetta snertir.

Hv. þm. kom í ræðustólinn fyrst og fremst til þess að benda á að hann hefði ásamt samstarfsmönnum sínum í fjárveitinganefnd á sínum tíma átt allan heiðurinn af þessari vinnu eða a.m.k. bróðurpartinn og nú hefði hann sigrað í baráttunni sem til var stofnað 1989 við fjmrn. Ekki ætla ég að draga úr sigri hv. þm. Menn verða að hrósa sér af einhverju, sérstaklega þegar ekki er af miklu að státa á öðrum sviðum en ég vil bara minna á að í þessu frv. er ... (Gripið fram í: Getur ekki þingmaðurinn skýrt hvað hann á við?) Nei, hann kærir sig ekkert um það að skýra þetta frekar enda er þetta mælt fram í fullri vinsemd og reyndar í sams konar hálfkæringi og ég skildi að ræða hv. ræðumanns hefði verið þegar hann fjallaði um þessi mál enda þekkjumst við ágætlega, ég og hv. þm., og ég veit alveg svo sem hvert hann var að fara.

Málið snýr þannig að fjmrn. að í þessu frv. er farið bil beggja. Ákveðið er að stilla upp fjárlögum sem aðalreglu á rekstrargrunni eins og ríkisreikningi hefur verið stillt upp á undanförnum árum. Það hófst með ríkisreikningi 1989 sem var reyndar ekki afgreiddur á Alþingi fyrr en mörgum árum seinna eftir að ég kom í fjmrn. Það kom því í minn hlut að ganga frá þeirri breytingu sem var ákveðin á tímabili hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar. Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir að sýna greiðslugrunninn eða greiðslustreymið enda hefur það oft afgerandi áhrif á þjóðarhag á hverjum tíma því að greiðsluhreyfingarnar hafa þýðingu en ekki skuldbindingarnar í sjálfu sér, t.d. ef við lítum á vexti og önnur áhrif sem ríkisfjármálin geta haft á þjóðarhag og efnahagsmál þannig að hér er farið bil beggja.

Þá rifjaði hv. þm. upp deilur sem hefðu oft orðið út af fjárreiðum ríkisins og vissulega hefur það verið svo löngu áður en ég kom í ráðuneytið eins og hann rifjaði einnig upp. Hann dró inn í umræðuna deilur okkar Pálma Jónssonar, fyrrv. alþm. Þær snerust ekki um greiðslugrunn og rekstrargrunn. Þær snerust um hvort færa hefði átt á árinu 1991 eða 1992 afskriftir vegna framkvæmdasjóðs og annarra atriða. Deilan stóð nánar tiltekið um það hvort ákvörðun Alþingis í atkvæðagreiðslu ætti að ráða sem tímapunktur eða hvort fjmrn. eða viðkomandi stjórnvöld mættu láta afskriftina koma fram þegar skuldin var sannanlega töpuð, þegar lánið var sannanlega tapað. Það stóð þannig á í þessu tilviki að afgreiðslu lánsfjárlaga var frestað yfir áramót, 2. og 3. umr. var frestað yfir áramót. Ég held að flestallir sem komu nálægt þessu máli væru sammála því að afskriftin átti að koma fram á árinu 1991 en ekki 1992 en deilan stóð um það milli mín og hans á hvoru árinu ætti að framkalla afskriftirnar. Hins vegar er rétt að þetta hefur áreiðanlega verið eitt af þeim atriðum sem hefur tafið afgreiðslu ríkisreikninga í gegnum tíðina. Mér er það reyndar óskiljanlegt því að nefndin hefur oftar en einu sinni afgreitt málið frá sér en ekki gefist tími til þess í þinginu að afgreiða málið endanlega.

Hitt er svo annað mál að önnur deila hefur stundum sett svip sinn á ríkisfjármálin og það er einmitt deila um greiðslugrunninn annars vegar og rekstrargrunninn hins vegar. Ég hef alltaf sagt að báðar þessar aðferðir séu gildar til síns brúks. Gagnrýni mín hefur verið í því fólgin að segja að ekki sé hægt að meta árangur fjárlaganna sem eru sett fram á greiðslugrunni með mælikvarða á rekstrargrunni þannig að ekki er hægt að bera þessa tvo grunna saman og segja: Mönnum hefur mistekist af því að það kemur í ljós að skuldbindingar hafa komið fram, af því að vextir hafa fallið á, vegna þess að afskrifaðar hafa verið útistandandi eignir í sköttum o.s.frv. Krafan sem ég hef gert er sú að meðan fjárlög eru á greiðslugrunni eigi gagnrýnin og matið að vera á þeim sama grunni. Í allri þessari vinnu var spurningin alltaf þessi: Hvenær á rekstrargrunnurinn að koma inn í myndina? Allir voru sammála um að það ætti að vera í ríkisreikningnum. Spurningin var: Átti það að vera í fjárlögunum sjálfum, við fjáraukalagaafgreiðsluna eða í ríkisreikningnum? Lengi töldu menn eðlilegt að breytingin ætti sér stað við lokafrágang fjáraukalaganna en hérna varð niðurstaðan sú að setja fjárlögin upp á rekstrargrunni en birta jafnframt hvernig greiðslustreymið ætti að vera á því ári. Það er því farið bil beggja svo að það sé alveg skýrt. (JBH: Hæstv. fjmrh. vill ráða gagnrýninni.) Það hefur hv. þm. alltaf vitað. Ég hélt að fyrrv. samstarfsmaður minn, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, sem hefur reynslu úr fjmrn. í nokkra mánuði vissi að það liggur í hlutarins eðli að við viljum ráða gagnrýninni. Ég er hissa á því að heyra svona spurningar frá hv. þm.

Síðan gerði hv. þm. heilmikið úr hlut sínum og samstarfsmanna sinna og ég ætla ekki að rýra þann hlut neitt. En ég held þó að við verðum að viðurkenna það báðir, ég og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, að það var Ólafur Ragnar Grímsson, hv. 8. þm. Reykn., sem hleypti þessari vinnu af stað og það verður varla af honum tekið. Það gerðist 1990. (Gripið fram í: Þrátt fyrir góðan vilja formanns fjárln.) Já, þrátt fyrir góðan vilja fyrrv. formanns fjárveitinganefndar og núv. fjmrh. komumst við ekki fram hjá þessari staðreynd að þar hófst starfið. Hitt er svo annað mál sem ugglaust er rétt að tillöguflutningur hv. alþm. 1989 hafði sín áhrif. Ég býst við að ágreiningurinn um það að samþykkja lögin á þeim tíma hafi verið um það að mönnum þótti ekki eðlilegt að taka þennan eina þátt út úr. Ég man það ekki gjörla. Ég vil benda hv. þm. á að þess er mjög vandlega getið á bls. 16 í frv. Þar segir neðst á blaðsíðunni í greinargerðinni að alþingismenn hafi flutt tillögur fyrir nokkrum árum, það var sem sagt ekki eingöngu 1989 heldur líka síðar, og þær hafi að meginstofni til verið teknar upp í þetta frv. þannig að því er mjög vel til haga haldið. Sjálfsagt er að geta þess að einn af þeim sem á hrós og heiður skilið fyrir að hafa lagt þessu máli lið og jafnvel stofnað til þess á sinn hátt er einmitt hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, þáv. formaður fjárveitinganefndar. Auðvitað hefur svo margt fleira bæst við, sumt að mínu viti kannski umfangsmeira og viðameira en framlag þeirra fjárveitinganefndarmanna.

[14:30]

Ég hef, virðulegi forseti, aðeins fjallað um þessa þætti sem auðvitað eru ekki stærsta málið. Aðalatriðið er að frv. sjálft fái efnislega umfjöllun. Ég hélt að það væri sæmileg sátt um að efna til sérnefndar um málið. Það er heldur ekki stórmál. Ef menn vilja endilega láta fjárln. fá málið kemur það vel til greina. En ég hélt satt að segja að það væri góð sátt um sérnefnd.

Ég vil að lokum nota tækifærið til að segja það sem ég minntist ekki á í framsöguræðu minni. Það er full ástæða til að þakka ríkisreikningsnefndinni fyrir þessa vinnu sem tekið hefur mörg ár, en það er líka vel að henni staðið. Í henni sátu fulltrúar Ríkisendurskoðunar, Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka, Hagstofunnar og Ríkisbókhalds auk fjmrn. Ég tel að þeir hafi lokið góðu verki og nú sé kominn tími til að hv. alþm. fari yfir frv. og leggi í púkkið þannig að útkoman verði okkur öllum til sóma og að fjárreiður ríkisins muni framvegis markast af þeim vilja að þær eigi að sýna glöggt og skýrt hver staða ríkisfjármálanna er á hverjum tíma og hvaða stefna sé ríkjandi.

Að svo mæltu vil ég ítreka þakkir mínar fyrir undirtektir við málið í dag.