Færsla grunnskólans til sveitarfélaga

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 15:34:17 (3123)

1996-02-19 15:34:17# 120. lþ. 92.91 fundur 192#B færsla grunnskólans til sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[15:34]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er býsna sérkennilegt að ræða hér frumvarpsdrög sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum ekki séð. Og reyndar ekki margir stjórnarþingmenn heldur. En það hafa auðvitað borist fregnir af því hvað þarna er á seyði og það er allt í anda hinnar nýsjálensku hagfræði sem hæstv. fjmrh. er ákaflega hrifinn af og laumar hingað inn með hverju frv. á fætur öðru.

Það er vert í þessu samhengi að velta því fyrir sér hvernig samskiptum ríkisins og opinberra starfsmanna er háttað. Við höfum á undanförnum árum orðið vitni að hverju verkfallinu á fætur öðru, endalausum vinnudeilum og málaferlum milli ríkisstarfsmanna og ríkisins. Því er auðvitað ekki að leyna að þessi samskipti milli ríkisins og opinberra starfsmanna eru afar sérkennileg hér á landi og svona getur þetta ekki gengið áfram. Menn verða að ná samkomulagi um vinnubrögð og um það hvaða reglur eigi að gilda á vinnumarkaði. Kennarar eru nú opinberir starfsmenn en hluti þeirra verður starfsmenn sveitarfélaganna ef af yfirfærslu grunnskólans verður. Það er engin furða að þeir bregðist harkalega við vegna þess að þarna eiga í hlut hluti félagsmanna þeirra. Auðvitað mun það hafa áhrif á kjör starfsmanna sveitarfélaganna ef stórfelldar breytingar verða á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þetta hangir allt saman. En ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að ræða málin við starfsmenn sína og leita eftir samkomulagi. Það má ljóst vera að ef meiningin er að keyra hér í gegn breytingar í anda þess sem gerst hefur á Nýja-Sjálandi verður allt kolvitlaust í þjóðfélagi okkar. Það gefur auga leið. Er það það sem hæstv. ráðherrar vilja?