Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 18:31:13 (3156)

1996-02-19 18:31:13# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[18:31]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst kominn tími til að menn útmáli úr þessum ræðustól þá ógn sem þjóðinni stafar af Unilever og er nú langur tími liðinn síðan menn hafa dregið upp þann auðhring til þess að sýna fram á það hvað er erfitt fyrir Íslendinga að lifa af í þessum sviptingaheimi kapítalismans.

Mér finnst líka ástæða til að þakka hv. þm. fyrir hreinskilnina vegna þess að hann sagði: Þetta mál er ekki bara lagt fram til umræðu. Þetta mál er flutt af fullri alvöru. Það þýðir auðvitað eins og ég sagði áðan að hv. þingmenn Sjálfstfl., sem flytja málið, munu auðvitað hljóta að beita sér fyrir því að stjfrv. verði breytt í efh.- og viðskn. Þar sitja reyndar tveir flutningsmenn frv. þannig að mér sýnist einboðið að þessi umræðuþáttur sem hefur staðið í nokkra daga sé ekki nærri búinn.