Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Mánudaginn 19. febrúar 1996, kl. 19:21:46 (3174)

1996-02-19 19:21:46# 120. lþ. 92.3 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 242. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., 307. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (sjávarútvegsfyrirtæki) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur

[19:21]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Mér var satt að segja farið að líða hálfsérkennilega í salnum. Ég var sammála öllu sem hv. 3. þm. Vestf. sagði. En það er nú liðin tíð því að ég mótmæli þessu séreignarréttartali. Ég mótmæli því og get gert það með rökum sem enginn tími er til að tína upp nú. Þetta er ekki séreignarréttur. Hérna er um það að ræða að tilteknir aðilar í þjóðfélaginu fá ákveðinn afnotarétt og aðgang að þessu með tilteknum hætti eins og mótað er í lögum á grundvelli þess að þjóðin á þessi verðmæti. Það er alveg meginatriði að menn geri sér grein fyrir því. Þess vegna tel ég að 1. gr. laganna sé efnislega þýðingarmikil. Hún er ekki gerð til að friða einhverja, til að þóknast einhverjum, til að leysa eitthvað. Hún er höfuðatriði af því að þjóðin á þetta. En síðan hafa menn fengið eftir ákveðnu kerfi aðgang að þessu með tilteknum aðgöngumiðum sem sumir út af fyrir sig vilja selja og taka gjald fyrir. Þetta er veruleikinn sem menn þurfa að horfast í augu við. Því miður er tíminn útrunninn og ég get ekki svarað hv. þm. meiru. En ég mótmæli þessu sjónarmiði. Ég tel það rangt.