Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:01:09 (3266)

1996-02-27 14:01:09# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka drottni sjálfum fyrir að það er rétt hjá hæstv. samgrh. að hann er ekki endanlegur dómari í því máli sem ég reifa hér. Ég vek líka eftirtekt á því að hæstv. ráðherra vék sér undan því að svara hvort hann teldi 8. gr. frv. í samræmi við þann dóm sem ég nefndi eða hvort dómurinn væri að hans mati rugl. Samkvæmt þessum dómi liggur ljóst fyrir að staða hjá hlutafélagi, þó það sé að öllu leyti í eigu ríkisins, er ekki sambærileg við stöðu hjá ríkinu. Það liggur fyrir að Póstur og sími verður hlutafélag og því er alveg ljóst að þessi dómur á líka við starfsmenn Pósts og síma. Að vísu er það svo að hæstv. samgrh. hefur gert afskaplega klaufalega tilraun í 2. mgr. 8. gr. til þess að laga réttindamálin að niðurstöðu SR-dómsins, en sú tilraun er hins vegar dæmd til þess að mistakast vegna 3. mgr. sem fylgir strax á eftir.

Herra forseti. Ég tel að þetta frv. og 8. gr. sérstaklega beri að lesa í samræmi við þau frumvörp til laga sem ríkisstjórnin hefur kynnt sem er ekkert annað en aðför að réttindum opinberra starfsmanna. Ég segi þess vegna: Að þessu leyti er þetta frv., sem að mörgu leyti er gott, úlfur í sauðargæru. Og um ráðherra sem heldur því fram að þetta standist er ekkert annað að segja, ég vona að forseti fyrirgefi mér, en að hann er sauður í sauðargæru.