Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:30:21 (3273)

1996-02-27 14:30:21# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:30]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt skilið hjá hæstv. ráðherra að ég er sannarlega fús til viðræðna og umræðna í nefnd um að auka sjálfstæði Pósts og síma. Ég held að hæstv. ráðherra hafi fært ágæt rök fyrir því og það sé gert í þessari grg., að það getur verið þörf á því að auka svigrúm Pósts og síma og endurskoða rekstrarform stofnunarinnar. En það er ekki einsýnt að breyta þurfi stofnuninni í hlutafélag. Ég heyri það á skoðanaskiptum okkar að við getum vafalaust nálgast í þessu máli og komist að einhverri niðurstöðu sem sætti sjónarmið.

Um ábyrgð ríkisins á fyrirtækinu vil ég segja það eitt að það er alveg rétt að eftir að búið er að breyta því í sjálfstæða stofnun fylgir ekki með sjálfkrafa ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum stofnunarinnar. En við skulum hins vegar ekki láta okkur eitt andartak detta það í hug að eftir að þessi breyting hefur átt sér stað og ef það gerðist nú að viðkomandi fyrirtæki, alfarið í eigu ríkisins, yrði gjaldþrota, yrði það bara látið fara sína leið. Auðvitað segir það sig sjálft og liggur í hlutarins eðli að ríkið mun áfram bera fulla ábyrgð á þessu fyrirtæki. Það er ekki hægt að láta það fara á hausinn.