Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:33:57 (3275)

1996-02-27 14:33:57# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:33]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. að ég lýsti mig áðan opinn fyrir hugmyndum um einhverjar breytingar á rekstrarformi Pósts og síma sem gætu auðveldað fyrirtækinu svigrúm þess á almennum markaði. Ég vakti athygli einmitt á því áðan að rekstrarform Landsbankans gæti hugsanlega hentað í þessu tilviki. Það er ekki nein nauðsyn á því að Póstur og sími sé B-hluta stofnun. Ég hef hins vegar sagt það og segi það enn að ég tel að hlutafélagaformið sé óeðlilegasta rekstrarfyrirkomulagið í tilviki sem þessu og það sé vel hægt að finna aðrar gerðir rekstrarfyrirkomulags sem henti miklu betur.

Um jöfnun símkostnaðar vil ég segja það eitt að það mun vafalaust vera rétt sem kom fram að það hafa verið stigin jákvæð skref í þá átt. Stærsta skrefið á seinni árum til jöfnunar símkostnaðar var stigið í tíð þáverandi samgrh. Steingríms Sigfússonar þegar jafnaður var símkostnaður á þann veg að munurinn varð u.þ.b. helmingi minni en hann áður hafði verið. Hlutfallið var liðlega 1:8 áður en hann kom í sinn stól en það var orðið 1:3,8 þegar hann kvaddi ráðuneytið. Þetta var mjög merkur áfangi og ég hafði sannarlega vænst þess að því starfi hefði verið haldið áfram af fullum krafti því þá hefðum við nú þegar náð fullum jöfnuði.