Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 15:29:45 (3292)

1996-02-27 15:29:45# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:29]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo sem ekkert nýtt að hv. þm. Árni Mathiesen botni hvorki upp né niður í Hafnarfjarðarkrötum. Það er frekar venja en undantekning þannig að það kemur ekki á óvart, hvort heldur sem er í sjónvarpi eða milliliðalaust. Ef hann hefði lagt við eyrun og hlustað á ræðu mína hefði hann skilið það og skynjað að ég sagði þetta frv. meingallað og ég árétta það hér. Það er ekki nokkur vegur að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir. Það er alveg skýrt. En ég sagði að á hinn bóginn þyrfti að gera breytingar á ákveðnum þáttum rekstrar Pósts og síma í ljósi alþjóðlegra samninga og gerbreyttra kringumstæðna. Það mætti þá gera með þessi þrjú lykilatriði að leiðarljósi; bætta þjónustu, ódýrari þjónustu og öryggi starfsmanna. En þessu er ekki til að dreifa þannig að svarið er að að óbreyttu er ekki hægt að samþykkja þetta frv. Ef hv. þm. skilur þetta ekki, virðulegi forseti, verður það að vera hans vandamál.