Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 17:37:18 (3324)

1996-02-27 17:37:18# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, EKG
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:37]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega með hálfum huga sem maður hefur mál sitt á eftir mesta sérfræðingi í því að formbreyta ríkisfyrirtækjum, hv. 15. þm. Reykv., sem nú hefur yfirgefið salinn, en ég hygg að fáir menn á Íslandi í samanlagðri kristni hafi komið jafnmikið nálægt því að formbreyta ríkisfyrirtækjum eins og hv. 15. þm. Reykv. þannig að það er fullkomin ástæða til að hlusta eftir því sem hann segir. Hann átti þátt í því að formbreyta Áburðarverksmiðjunni, Sementsverksmiðjunni og Síldarverksmiðjum ríkisins. Mér er til efs að nokkur núlifandi Íslendingur hafi verið jafnafkastamikill á þessu sviði. Þess vegna var það svo að ég hlustaði mjög grannt eftir orðum hans og fagnaði því í sjálfu sér að hann lýsti því yfir að hann væri enn sömu skoðunar og á síðasta kjörtímabili að það væri ástæða til að breyta rekstrarformi Pósts og síma líkt og hann sjálfur stóð að því að breyta rekstrarformi allmargra ríkisfyrirtækja á síðasta kjörtímabili.

Það hafa orðið miklar breytingar í fjarskiptamálum okkar Íslendinga eins og í heiminum í kringum okkur. Það sem þótti viðurkennt í gær er orðið úrelt í dag og framtíðin ber eitthvað óvisst í skauti sér. Tæknibreytingarnar sem við erum núna að sjá gera það að verkum að hefðbundin landamæri á fjarskiptasviðinu eru að hverfa, aukin samkeppni mun lækka verð og það er einmitt niðurstaðan af alþjóðlegum samanburði OECD-ríkjanna að aukið frelsi á fjarskiptasviðinu lækki verðið. Það sem meira er, markaðurinn muni stækka og valmöguleikar neytendanna muni aukast. Í þessari veröld samkeppni mun verðmætasta eign hvers símafélags ekki verða fastur búnaður, heldur ekki síst markaðurinn og notendurnir og þess vegna skiptir það miklu máli að bjóða nægilega góða þjónustu sem sem flestir vilja nýta sér.

Á tækni- og tölvusviðinu, þar með fjarskiptasviðinu, eru landamæri milli ólíkra tæknisviða að breytast. Við getum ekki lengur leyft okkur að tala um símtækni eða fjarskiptatækni með hefðbundum hætti. Tölvur og símamál eru að verða óaðskiljanlegur hluti hvors annars. Einmitt vegna þess að sími, sjónvarp og tölvur eru að tengjast órjúfanlegum böndum munum við í framtíðinni sjá birtast framleiðsluvörur þar sem þessi þrenns konar tækni verður nýtt í sameiningu. Breska tímaritið The Economist orðaði það svo í rækilegri úttekt á fjarskiptamálum fyrir skömmu að hinar nýju framleiðsluvörur muni einkennast af ánægjunni sem sjónvarpstæknin munu veita okkur, minni og hugsun tölvunnar og af hinum mannlegu samskiptum sem síminn býður okkur upp á.

Það hefur líka verið bent á það að í venjulegum nútímabíl finnum við 50 mismunandi smátölvur sem hver um sig hafi sjálfstætt hlutverk. Með því að samtengja þessa tækni við bílasíma framtíðarinnar verði hægt að stjórna bílnum með öðrum hætti heldur en áður, svo sem eins og það að auðvelda mönnum að rata um, finna að nýju stolna bíla og ýmislegt annað sem framtíðin ein muni leiða í ljós.

Hverjir eru það sem hagnast munu á þessum breytingum á fjárskiptasviðinu? Það má nefna nokkra til sögunnar í þessu sambandi. Í fyrsta lagi mun fjarskiptabylting framtíðarinnar draga úr ferðalögum sem nú eru nauðsynlegur hluti ýmiss konar atvinnustarfsemi vegna ferða á fundi og til þess að reka erindi.

Í öðru lagi er margs konar þjónusta sem hið opinbera veitir og menn þurfa að sækja nú til sérstakra stofnana eins og Húsnæðisstofnunar ríkisins, Tryggingastofnunar og fleiri slíkra aðila. Henni má allt eins sinna í gegnum tölvur og fjarskipti framtíðarinnar.

Í þriðja lagi höfum við þegar séð möguleikana á fjarnámi í gegnum tölvur og önnur fjarskipti. Því miður erum við Íslendingar komnir mjög stutt áleiðis að þessu leytinu eins og fram kom í umræðu í síðustu viku en nú fer fram í menntmrn. stefnumótun á þessu sviði sem fróðlegt verður að fylgjast með.

Í fjórða lagi má nefna að eldri borgar og þeir sem t.d. vegna fötlunar eru einangraðir á heimilum sínum geta með auðveldari hætti átt samskipti við stjórnsýsluna, við annað fólk eða nám svo að dæmi sé tekið.

Í fimmta lagi er það deginum ljósara að einangraðri byggðir munu sérstaklega hagnast á þessari tækni. Möguleikarnir til þess að sinna störfum, t.d. á landsbyggðinni, munu aukast okkur öllum til hagsbóta.

Það er einmitt í þessari tæknibyltingu sem ég hef verið að lýsa sem við verðum að taka þátt. Það er óhjákvæmilegt ef við ætlum að þróast áfram sem nútímaþjóðfélag í fullri samkeppni við þjóðfélögin í kringum okkur. Sem betur fer er það svo að við búum við mjög gott kerfi að þessu leytinu hér á landi og Póstur og sími hefur borið gæfu til þess að fylgjast ákaflega vel með á fjarskiptasviðinu að öllu leyti. Það er líka ljóst eins og ég hef margoft vakið athygli á að verðlag á símkostnaði á Íslandi er mun lægra heldur en gengur og gerist í löndunum í kringum okkur og það er vissulega ánægjulegt að þannig hafi það tekist til. Það hefur orðið mjög umtalsverð breyting að þessu leyti á undanförnum árum. Ég vek athygli á því að það er ekki bara um það að ræða að símkostnaðurinn á milli landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðisins hafi jafnast heldur er það einnig svo að raunkostnaður símaþjónustunnar í heild hefur lækkað vegna þess að símataxtarnir hafa ekki hækkað mörg undangengin ár.

Það er líka ljóst að fjarskiptamálin verða æ þýðingarmeiri í atvinnulífinu og það t.d. vekur athygli við lestur erlendra blaða og tímarita að umfjöllun um fjarskiptamálin er að verða æ umfangsmeiri í viðskiptatímaritum og viðskiptablöðum af öllu tagi. Það er ekki óalgengt að á forsíðum virtra erlendra blaða og tímarita sé einmitt verið að fjalla um fjarskiptamál í sem breiðustum skilningi þess hugtaks.

Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er sú að við erum að ræða frv. sem felur í sér formbreytingu á mjög mikilvægri stofnun, Pósti og síma. Menn spyrja eðlilega: Hvers vegna? Er einhver ástæða til að gera þessa formbreytingu? Hv. 4. þm. Norðurl. e. lýsti bókstaflega eftir rökum fyrir því að við værum að gera þessa formbreytingu á þessu félagi.

Ég tel að það sem við eigum að hafa í huga í þessu sambandi sé einfaldlega að það rekstrarform sem við ætlum að búa utan um starfsemi Pósts og síma hér á landi verði sem þjálast, virkast og líklegast til að takast á við þær breytingar sem eru að verða, ekki munu verða heldur eru að verða í fjarskiptamálunum allt í kringum okkur. Það er sá útgangspunktur sem við þurfum að ganga út frá. Og þess vegna finnst mér það fráleitt koma til greina að við notum t.d. Landsbanka Íslands eða ríkisbankana sem sérstaka fyrirmynd að því rekstrarformi sem við viljum sjá í nútímalegri stofnun sem ætlar að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni sem fram fer af mjög mikilli hörku.

Ég held þess vegna að það séu fjöldamörg rök fyrir því að við breytum um rekstrarform á Pósti og síma í því skyni að tryggja forræði þessa fyrirtækis og tryggja stöðu þessa fyrirtækis á innlendum markaði í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem er að mæta fyrirtækinu nú þegar.

Í fyrsta lagi tel ég að við hljótum að horfa á hlutafélagaformið vegna þess að það er form sem við þekkjum í atvinnurekstri hér á landi. Það hefur almennt gefist vel í atvinnurekstri í heiminum í kringum okkur og hvers vegna skyldum við ekki nota það form sem við þekkjum best sjálf, Íslendingar, og er algengast úti um allan heim í rekstri fyrirtækja? Af hverju skyldum við reyna að hverfa til einhvers annars forms sem við þekkjum síður og er augljóslega alls staðar á undanhaldi sem það rekstrarform fyrirtækja í heiminum?

[17:45]

Í öðru lagi má benda á það sem hefur margoft komið fram að samkeppnislögin gætu mjög auðveldlega eins og fram hefur komið í áliti Samkeppnisstofnunar knúið Póst og síma til að losa sig frá ýmsum veigamiklum þáttum í sínum rekstri. Það er alveg ljóst að samkeppnissvið Pósts og síma mun stækka vegna þess einfaldlega að það eru að verða æ fleiri þættir í rekstri þessa fyrirtækis sem hafa snertifleti við fyrirtæki á erlendum og innlendum markaði.

Í þriðja lagi er mjög þýðingarmikið að Póstur og sími geti farið að taka þátt í skyldum rekstri. Ég nefndi áðan að það er þannig að með þeirri þróun sem hefur orðið í fjarskiptamálum, sjónvarpsmálum og tölvumálum eru skilin á milli þjónustusviðanna, þ.e. síma, fjarskipta og tölvu, að verða mjög óljós. Það verða mjög vandfundin rök fyrir því að fyrirtæki á einu þessara sviða hasli sér ekki völl á öðru þannig að þetta eru líka rök í málinu.

Í fjórða lagi eru hin almennu rök sem hafa verið flutt af fjöldamörgum þingmönnum. Það eru þessi almennu rök um mikilvægi sveigjanleikans og um að boðleiðirnar séu sem stystar innan fyrirtækisins svo að menn geti tekið skjótar ákvarðanir og brugðist hratt við miklum breytingum. Það er ekkert vafamál á því að þetta form sem við höfum núna á rekstri Pósts og síma, þó að það hafi gefist vel á síðastliðnum árum, mun henta frekar illa í því að bregðast hratt við örum breytingum sem allir eru sammála um að verða á þessu sviði á allra næstu árum og eru reyndar þegar hafnar af miklum krafti.

Í fimmta lagi segi ég að það er varla tilviljun að allar þjóðir sem hafa tekið þessi mál til rækilegrar endurskoðunar hafa einmitt valið sér þetta form hlutafélagavæðingarinnar í einhverju formi til að fyrirtækin á fjarskiptasviðinu verði sem best í stakk búin til að takast á við framtíðina. Það er ekki þannig að við eigum að apa upp að óathuguðu máli allt sem gerist erlendis. En við hljótum, nema við ætlum að vinna í algerri einangrun, að taka tillit til þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað víðast hvar úti um allan hinn frjálsa heim.

Þetta eru í mínum huga, virðulegi forseti, helstu rökin fyrir því að það er óhjákvæmilegt að við tökumst á við það núna að breyta formi þessa félags í hlutafélagsformið vegna þess einfaldlega að ég held að það sé skynsamlegt allra hluta vegna að styrkja þessa atvinnugrein innan lands sem er að mæta aukinni erlendri samkeppni. Menn geta velt fyrir sér hver sé reynsla annarra þjóða af þessu. Í nýlegri úttekt sem gerð var eftir að formbreytingin átti sér stað í Danmörku og kynnt var fyrir fulltrúum samgn. Alþingis eða fulltrúum þingflokkanna sem heimsóttu danska símafyrirtækið, er komist svo að orði að séð frá sjónarhóli notendanna hafi formbreytingin í meginatriðum tekist vel. Fyrirtækið, þ.e. danska símafélagið, varð notendavænna ef svo má að orði komast og lægra verð á þjónustu náði til fleiri þátta. Þetta er með öðrum orðum það mat á reynslunni sem þegar er fengin frá öðrum þjóðum. Og ég endurtek að þó að það sé þannig að við eigum ekki að éta upp að óathuguðu máli allt sem frá öðrum þjóðum kemur, hljótum við að reyna að byggja á reynslu þeirra þjóða sem hafa gengið í gegnum þessar miklu breytingar.

Það er svo að hin alþjóðlega samkeppni er hafin og þó að við höfum kannski tamið okkur, eins og fram kom í máli hæstv. sagmrh. í upphafi umræðunnar, að ætla það að Póstur og sími geti starfað í óbreyttri mynd að eilífu, amen, þá er það einfaldlega ekki þannig. Menn hafa orðið nú þegar möguleika á því að fara fram hjá símakerfi Pósts og síma, hringja til ,,óperatora`` úti í heimi og komast þannig inn á alþjóðlegar símalínur. Þetta er því einfaldlega komið til að vera og við stöndum frammi fyrir þessum raunveruleika.

Virðulegi forseti. Hér hefur verið nokkuð rækilega farið ofan í það sem ég geri mér mætavel grein fyrir að hlýtur að verða langviðkvæmasta málið í þessari umræðu, þ.e. spurningin um réttarstöðu starfsmannanna. Ég held að það sé alveg ljóst að í samgn. Alþingis verði þetta það mál sem við þurfum að fara hvað rækilegast yfir því að það er skýr vilji sem hefur komið fram í máli hæstv. samgrh. og kemur mjög skýrt fram í athugasemdunum við 8. gr. þessa frv. að það er andi frv. að tryggja starfsmönnum Pósts og síma eins og segir í athugasemdunum, með leyfi forseta: ,,sömu eða sambærileg störf hjá félaginu eftir formlega stofnun þess`` og nú er ástæða til að undirstrika, ,,eins og engin formbreyting hefði orðið á rekstri hennar, enda ekki um neina eðlisbreytingu á störfum eða starfsaðstöðu að ræða.``

Ég held að það skipti mjög miklu máli vegna þess að hér hefur verið mjög vitnað til dómsins í SR-málinu svokallaða, að vekja athygli á því að það er munur á 8. gr. þessa frv. og hins vegar 7. gr. laganna um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins. Í lögunum um Síldarverksmiðjur ríkisins segir aðeins, með leyfi forseta:

,,Fastráðnir starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins skulu hafa rétt til starfa hjá nýja hlutafélaginu við stofnun þess og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður hjá verksmiðjunum.`` Síðan kemur þessi setning: ,,Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.``

Ég hef að vísu ekki sjálfan dóminn undir höndum. En ég hef efnislega frásögn í BSRB-blaðinu af þessu máli. Þar er það að í fyrsta lagi er vakin athygli á því, segir í dómnum, að þetta ákvæði í lögunum um Síldarverksmiðju ríkisins, SR, brjóti gegn jafnréttisreglu stjórnarskrár og alþjóðasáttmála sem Ísland á aðild að með því að biðlaunaréttur einstaklingsins við þessar aðstæður sé skertur. Nú er það þannig að það sem skiptir öllu máli og hæstv. samrh. hefur verið að fara rækilega yfir, er að gert er ráð fyrir því í þessu frv. að biðlaunarétturinn flytjist með viðkomandi starfsmanni inn í hið nýja félag. Munurinn á þessu og lögunum um SR er að þar var ekki gert ráð fyrir þessu ákvæði. Það er ekki talað um það ákvæði í þeim lögum. Mér sýnist því af þessu máli að við séum að tala um mjög ólík ákvæði. Ég er hins vegar á þeirri skoðun í grundvallaratriðum að ofan í þessi mál verði að fara mjög rækilega því að málið stendur og fellur með því að þetta gangi upp.

Ég verð að segja það að ég áttaði mig ekki alveg á ræðu hv. 15. þm. Reykv. þegar hann fjallaði um þetta. Hv. þm. var ákaflega jákvæður fyrir þessari formbreytingu enda kom það ekki á óvart því að hann var, svo að ég noti hans eigin orðalag, múrbrjótur hinn mesti þegar verið var að formbreyta ríkisfyrirtækjum á síðasta kjörtímabili. Annars vegar var hv. þm., hinn mikli múrbrjótur og jákvæður fyrir hugmyndinni um það að breyta þessu ríkisfyrirtæki í hlutafélag en dró svo í land í hinu orðinu og fór að tala um að það væri ekki hægt að gera þetta fyrr en búið væri að breyta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna vegna þess að þetta ræki sig hvert á annars horn. Ég trúi varla að það hafi verið meining hv. þm. að segja sem svo að til þess að hann gæti látið þessar hugsjónir sínar rætast á þessu kjörtímabili eins og hinu síðasta, þyrfti að gera breytingar sem fælu í sér skerðingu á lífeyrisréttindum og öðrum réttindum opinberra starfsmanna. Það er ekki meiningin með þessu frv. hér. Með frv. er þvert á móti talað mjög um það að tryggja, eins og ég hef þegar rakið og kemur fram í athugasemdum við 8. gr., svo að ég endurtaki, með leyfi virðulegs forseta: ,,að tryggja starfsmönnum Póst- og símamálastofnunar sömu eða sambærileg störf hjá félaginu eftir formlega stofnun þess eins og engin formbreyting hefði orðið á rekstri hennar ...`` Mér sýnist því, virðulegi forseti, að við fyrsta yfirlestur sé á þessu reginmunur og dómurinn í SR-málinu eigi ekki við varðandi 8. gr. í frv. um Póst og síma. En ég endurtek að þetta er það mál sem rækilegast þarf að kafa ofan í til að taka af öll tvímæli svo að þetta góða framfaramál sem formbreytingin á Póst og síma er, takist sem best.

Ef ég hefði undir höndum ívitnun í hv. formann Alþfl., hv. 9. þm. Reykv., þá nánast hvetur hann til þess með miklum látum á forsíðu Alþýðublaðsins að formbreyting af þessu taginu eigi sér stað. Hann kvartar mjög undan því og telur að það sé eitt af því sem standi í veginum fyrir framförum á Íslandi að við séum með svo stóran hlut af atvinnulífinu njörvaðan niður með ríkisafskiptum og nefnir sérstaklega í því sambandi fjarskiptakerfið og Póst og síma. Út af fyrir sig kemur mér því ekki afstaða hv. 15. þm. Reykv. neitt á óvart enda lýsti hann því yfir að hann væri afar hollur sínum foringjum og hlýtur að hafa gegnt því herútboði sem var blásið til á forsíðu Alþýðublaðsins á dögunum.