Skipun nefndar um fréttaflutning af slysförum

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 13:57:19 (3364)

1996-02-28 13:57:19# 120. lþ. 97.3 fundur 303. mál: #A skipun nefndar um fréttaflutning af slysförum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[13:57]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Þann 25. febrúar 1995 samþykkti Alþingi þáltill. þess efnis að dómsmrh. yrði falið að skipa nefnd er legði grundvöll að samráðsvettvangi hlutaðeigandi aðila um fréttaflutning og upplýsingaskyldu stofnana um slysfarir og harmraunir fólks. Það er ljóst að fréttaflutningur af slysförum og harmraunum fólks er vandmeðfarið og viðkvæmt mál. Íslenskir fjölmiðlar hafa að sönnu í áranna rás leitast við að fjalla um slík mál af tillitssemi og varkárni, en upp á síðkastið má þó greina þá þróun að ágengni fjölmiðla gagnvart einstaklingum sem hlut eiga að máli, björgunarsveitum og lögreglu að störfum og öðrum viðkomandi aðilum, verður æ harðari og óvægnari. Óheppileg tilvik er hægt að nefna í því sambandi. Aukin samkeppni fjölmiðla um fréttaöflun af atburðum og málavöxtum getur orðið til þess að misbjóða mannvirðingu og siðrænum gildum.

Í þessari tillögu var ekki að því stefnt að hamla á neinn hátt tjáningarfrelsi eða prentfrelsi fjölmiðla, heldur fyrst og fremst að freista þess að koma á samráðsvettvangi sem gæti hugsanlega sameinast um samræmdar starfsreglur í þessu sambandi.

Í greinargerð með þáltill. sem samþykkt var voru nefnd til sögunnar nokkur samtök sem væru heppilegir aðilar til samráðs í þessu sambandi, svo sem slysavarnarfélög og björgunarsveitir, Blaðamannafélag Íslands, Félag fréttamanna, Prestafélag Íslands, Lögreglufélag Íslands, Rannsóknastofnun háskólans í siðfræði, Samtök um sorg og sorgarviðbrögð, Læknafélag Íslands og barnaverndarráð. Það liggur ljóst fyrir að í siðareglum blaðamanna er tekið á þessum málum í 3. gr. Enn fremur segir í reglum um fréttaflutning Ríkisútvarpsins, 8. gr., með leyfi forseta:

,,Fréttamönnum ber að sýna fyllstu tillitssemi í viðkvæmum málum. Þeim ber að forðast allt sem valdið getur saklausu fólki eða þeim sem eiga um sárt að binda óþarfa sársauka eða vanvirðu.`` Á þessu er hnykkt í 10. gr. sömu reglna.

Í ljósi þessa hef ég lagt fram fyrirspurn til dómsmrh. hvers vegna þessi nefnd hafi ekki enn verið skipuð. Á hinn bóginn hef ég fengið upplýsingar um að hún hafi þegar hafið störf þótt ég viti jafnframt að sumir þeirra sem ég nefndi hér til sögu sem heppilega samráðsaðila hafi ekki haft um það vitneskju. Því leyfi ég mér, virðulegi forseti, að óska eftir því að dómsmrh. upplýsi um stöðu þessa nefndarstarfs, hvar það er á vegi statt, hvort starfið sé komið það langt að fyrir liggi einhverjar hugsanlegar hugmyndir um samræmdar verklagsreglur í þessu sambandi og að öðru leyti almennt um þær vangaveltur sem ég hef hér lýst.