Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:04:15 (3368)

1996-02-28 14:04:15# 120. lþ. 97.4 fundur 318. mál: #A fjárfesting erlendra aðila á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:04]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Undanfarið hafa farið fram allmiklar umræður um erlenda fjárfestingu á Íslandi. Þessar umræður hafa upp á síðkastið fyrst og fremst snúist um rétt útlendinga til þess að eiga í og fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Hins vegar hafa verið í gildi hér á landi lög býsna rúm varðandi heimildir útlendinga til fjárfestinga í íslensku atvinnulífi að öðru leyti.

Því miður hefur oft og tíðum gætt mikillar tortryggni í garð útlendinga sem vilja festa fé sitt í íslensku atvinnulífi. Þetta þekkjum við af umræðum í gegnum tíðina. Samt er það þannig að víðast út um allan heim sækjast fyrirtæki og ríkisstjórnir eftir því að fá erlent áhættufé inn í atvinnulíf viðkomandi landa til þess að treysta það og gera það betur í stakk búið til að takast á við verkefni framtíðarinnar.

Það er augjóst mál að afstaða manna til erlendrar fjárfestingar hér á landi er mjög að breytast. Mikil átök urðu fyrir nokkrum áratugum um hugsanlega fjárfestingu útlendinga í stóriðju hér á landi. Nú má heita að sú umræða sé mjög breytt, ef ekki að baki. Nægir í því sambandi að minna á afgreiðslu Alþingis á samningnum um stækkun álversins í Straumsvík.

Í svari við fyrirspurn minni til þáv. hæstv. viðsk.- og iðnrh. fyrir tveimur árum kom fram að sáralítið var um fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi ef undan var skilin þátttaka svissneska fyrirtækisins Alusuisse í hlutafjáraukningu hjá Ísal um þær mundir. Þó má segja að umtalsverð erlend fjárfesting hafi farið fram fyrr á árum í fiskeldi hér og á takmörkuðum sviðum öðrum. Engu að síður er erlend fjárfesting í atvinnulífi okkar sáralítil, svo lítil að það má segja að það standi nokkuð atvinnulífi okkar fyrir þrifum. Nú hefur verið breytt mjög skattalegu umhverfi fyrirtækjanna þannig að möguleikar Íslendinga til að laða að erlent fjármagn eru nú meiri og betri en áður. Það er vissulega vel. Vandi okkar innan lands undanfarin ár hefur því ekki stafað af því að andstaðan er svo mikil við þátttöku útlendinga í ýmissi atvinnustarfsemi ellegar að það séu lög sem giltu fyrir slíka fjárfestingu. Þvert á móti er það svo að vandinn hefur verið sá að útlendingar hafa lítið kært sig um að fjárfesta í íslensku atvinnulífi því miður, sjálfsagt einkanlega vegna þess að arðsemin er almennt minni í atvinnulífi okkar en erlendis. Engu að síður skiptir máli fyrir okkur hvernig til hefur tekist í þessum efnum og hvernig okkur mun ganga á þessu sviði. Því hef ég leyft mér á þskj. 560 að leggja fram eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. viðskrh.:

1. Hversu mikil var fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi árin 1993--1995?

2. Hversu mikil var sú fjárfesting í einstökum atvinnugreinum?

3. Má vænta aukins áhuga útlendinga á því að fjárfesta í íslensku atvinnulífi?