Fjárfesting Íslendinga erlendis

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:35:28 (3380)

1996-02-28 14:35:28# 120. lþ. 97.5 fundur 319. mál: #A fjárfesting Íslendinga erlendis# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:35]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Af því að menn hafa talað um að við séum að ræða stórt mál undir þröngu formi minni ég á að í þinginu hefur undanfarið farið fram mjög mikil umræða bæði um eignarhald fyrirtækja og einnig form á fyrirtækjarekstri. Þar vil ég minna á síðustu umræðuna sem fór fram um hlutafjárvæðingu Pósts og síma í gær og síðan þá umræðu sem hefur farið fram á undanförnum vikum um erlenda fjárfestingu, ekki síst í sjávarútvegi.

Þær upplýsingar sem koma hér fram leiða í ljós eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal bendir á að tífalt meira fé streymir út úr landinu en það sem kemur inn. Því held ég að það væri full ástæða til fyrir hæstv. ráðherra að skoða frv. ríkisstjórnarinnar um erlendar fjárfestingar, endurskoða það með það í huga hvort ekki væri rétt að það yrði kannað betur hvort við ættum ekki að heimila beina fjárfestingu erlendra aðila í sjávarútvegi vegna þess að það er rökstudd ástæða til að ætla að það sé einmitt sá vettvangur sem gæri verið líklegastur til að laða erlenda fjárfesta að Íslandi vegna þess að menn þekkja Ísland best í gegnum sjávarútveginn. Það er líklegt ef þeir vilja fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi leiði þau kynni til þess að þeir vilja e.t.v. fjárfesta einnig í öðrum atvinnurekstri.