Verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 16:00:07 (3401)

1996-02-28 16:00:07# 120. lþ. 98.91 fundur 208#B verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[16:00]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru veigalítil. Raunverulega kom ekkert fram í máli hans nema það eitt að hann hefur enga stefnu. Hann vildi skoða eitthvað nánar. En þó kom fram ein stefna sem hann er fulltrúi fyrir, þ.e. að breyta engu og halda óbreyttu kerfi við eins og hægt er. Það er ekki rétt með farið hjá hæstv. ráðherra að hann hafi farið að tillögum nefndarinnar sem minnst hefur verið á. Það er viðtal við tvo nefndarmenn, Guðmund Gylfa Guðmundsson og Björn Arnþórsson, í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum þar sem fram kemur gagnrýni á þessa málsmeðferð. Ég rifja líka upp ummæli Páls Kr. Pálssonar sem talaði um að þessi aðgerð hvað varðar Borgarnes væri lögleg og siðlaus. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson lét einnig falla þung orð.

Athyglisverðast í þessari umræðu er að Sjálfstfl. lætur Framsfl. tala algerlega í þessu máli. Hins vegar kom afstaða ríkisstjórnarinnar mjög skýrt fram hjá hæstv. ráðherra Páli Péturssyni. Hann talaði um að samkeppnisráð skákaði sig út úr almennri umræðu með sinni afstöðu. Hann gaf skýra yfirlýsingu. Nú er samkeppnisráð ekki að gera annað en leggja lögfræðilegt mat á þessa stöðu. Ráðherrann vill greinilega að búvörulögin hafi forgang fram yfir samkeppnislög varðandi þessi tilteknu ákvæði. Hans afstaða er skýr og afstaða ríkisstjórnarinnar endurspeglaðist í málflutningi hans. Ég lít á ummælin um mig um að ég sé hinn versti krati sem hrós úr munni hæstv. ráðherra.

Hv. þm. Árni Mathiesen ræddi um aukna samkeppni. Hv. þm. Árni Mathiesen hefur ekkert með landbúnaðarstefnu þessarar ríkisstjórnar að gera. Hún er mótuð af Framsfl. og reyndar meiri hluta Sjálfstfl. Fyrst þyrfti því hv. þm. að geta unnið skoðunum sínum meira fylgi innan síns eigin flokks áður en hann viðrar þær hér í ræðustól.

Það kom greinilega fram hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni og reyndar hv. þm. Þorvaldi T. Jónssyni, en sérstaklega hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni, að þeir eru fjandsamlegir stórmörkuðum. Þeir eru fjandsamlegir markaðslausnum, frjálsri samkeppni og fleiri hlutum sem menn hafa verið að þróa um ártuga skeið í öllu efnahagsumhverfi. Það er augljóst hvaða afstöðu þessir menn vilja hafa. Þeir vilja reyra enn fastar þetta kerfi skömmtunar. Þeir eru fulltrúar þess. Þeir bjuggu það til. Þeir eru ánægðir með það og þeir ætla að verja það fram í rauðan dauðann alveg sama hvað líður hagsmunum bænda og neytenda.