Læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:19:05 (3634)

1996-03-06 15:19:05# 120. lþ. 102.91 fundur 211#B læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:19]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það er að sjálfsögðu mjög gagnlegt fyrir okkur hv. þingmenn að ræða þessi mál í þingsölum, en ég held að það væri ekki síður gagnlegt fyrir okkur að hafa að viðmælendum forustumenn stéttarfélaga innan heilbrigðisgeirans, ekki síður en hæstv. heilbrrh. Mér finnst þetta vera eitt af mjög mörgum málum sem eru að koma upp innan heilbrigðiskerfisins þar sem stéttarfélögin ganga fram af mikilli hörku og mikil samkeppni er að verða á milli stétta innan þessa geira.

Þessu til viðbótar kemur svo sú samkeppni sem er á milli stofnana og jafnvel á milli deilda innan stofnana um fjármagnið. Ég er þeirrar trúar að samkeppni sé af hinu góða og að við þurfum að nýta okkur hana sem best. Svo það megi verða þarf að skapa þessari samkeppni eðlilegan farveg og það þarf að vera innifalið í því að þeir sem standa sig best og veita bestu þjónustuna fyrir minnsta fjármuni hafi einhvern hag af því að gera þá góðu hluti. Þess vegna vil ég beina því til hæstv. heilbrrh. að hún reyni í slíkum málum sem hún hefur til úrlausnar að skapa samkeppninni farsælan farveg þar sem þeir sem þjónustunnar njóta og þeir sem þjónustuna veita best, njóti góðs af.