Læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 06. mars 1996, kl. 15:21:22 (3635)

1996-03-06 15:21:22# 120. lþ. 102.91 fundur 211#B læknavaktin á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[15:21]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Hafi það verið ætlunin með þessari umræðu að varpa frekara ljósi á stöðu þessara mála og stefnu ríkisstjórnar í þeim efnum, hefur sú tilraun því miður mistekist, þrátt fyrir tilraun hv. frummælanda í þessari umræðu.

Síðasti hv. ræðumaður talaði um samkeppni. Hv. formaður fjárln. ræðir um þá grunnþjónustu sem heilsugæslan eigi að sinna, sem eru að sönnu engin ný tíðindi. Hæstv. heilbrrh. skilar auðu í þessu eins og fyrri daginn.

Það eru auðvitað fjölmörg mál sem þarf að taka á. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að taka á sjálfstætt starfandi heilsugæslulæknum í Reykjavík sem standa til hliðar við hina venjubundnu heilsugæslu? Hvernig ætlar hann að taka á þætti Tryggingastofnunar ríkisins í þessum efnum? Hvaða hlutverki á Heilsuverndarstöðin að gegna í þessu sambandi? Þarna eru fjölmörg álitaefni og ég veit að við þeim eru engin einföld svör. En mér liggur hins vegar við að segja að hér sé fullkomlega skilað auðu og svör við spurningum af þessum toga eru engin.

Hér er auðvitað að hluta til um kjarabaráttu að ræða. Við skulum átta okkur á því. En það viðfangsefni má nálgast eftir ýmsum leiðum, m.a. þeim sem ég gat um hér áðan varðandi skipan heilsugæslunnar í Reykjavík. Heilsugæslan í Reykjavík er ekkert lík því sem gerist og gengur úti um land allt. Þar hefur þetta tekist býsna vel. Hér í nágrannabyggðum hefur hún til að mynda verið til fyrirmyndar í mörgu en Reykjavík hefur setið eftir. Það liggur alveg ljóst fyrir, virðulegi forseti, að við munum ekki haggast fetið fram á við ef hæstv. ráðherra ætlar að halda fast við þá stefnu sína að hreyfa sig ekki hænufet þegar kemur að nauðsynlegri uppbyggingu heilsugæslunnar í Reykjavík. Þar er ég að tala um byggingu nýrra heilsugæslustöðva þar sem þörfin er brýnust. Hæstv. ráðherra hefur sagt sem svo að það sé stóra stopp á byggingu steinkumbalda í heilbrigðiskerfinu. Á það líka við þegar sögunni víkur að nauðsynlegri uppbyggingu heislugæslustöðva í Reykjavík? Skýrt svar við því óskast.