Samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 15:39:17 (3714)

1996-03-07 15:39:17# 120. lþ. 103.91 fundur 216#B samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda# (umræður utan dagskrár), SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[15:39]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Föstudaginn 6. febr. sl., birtist ákvörðun samkeppnisráðs nr. 3 frá 1996 um málið ,,Samkeppnishindranir Félags eggjaframleiðenda, viðskiptakjör við sölu eggja``. Málavextir voru þeir að tveir aðilar, verslun í Reykjavík og Alþýðusamband Íslands, höfðu óskað eftir því við stofnunina að rannsökuð yrði kæra um verðsamanburð og verðsamráð Félags eggjaframleiðenda og hins vegar markaður eggjaframleiðenda hér á Íslandi. Í öðru lagi hafði stofnunin komist að niðurstöðu um að enn væri verð á eggjum u.þ.b. 110% dýrara hér í Reykjavík en t.d. í Kaupmannahöfn og hefði lítið dregið úr þeim verðmismun í fimm ár. Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð tóku þá ákvörðun um að hefja rannsókn að eigin frumkvæði. Í byrjun þessa árs fékk Samkeppnisstofnun fundargerðir frá fundum samtakanna og tel ég fulla ástæðu til að vitna í nokkur ummæli sem þar falla. Þar segir í fyrsta lagi í fundargerð frá samtökunum, með leyfi forseta:

,,[NN] reifaði málið og greindi síðan frá því að hann hefði hækkað verð hjá sér og lækkað afslætti jafnframt því ... Menn tjáðu sig um málið almennt og fram kom að menn hefðu víðast hvar hækkað en misjafnt væri hvort tekist hefði að lækka afslætti.``

Á öðrum stað segir, með leyfi forseta: ,,[NN] lagði áherslu á að lækka afslætti og í framhaldi af því leitaði ... álits manna á því hvort þeir væru reiðubúnir að skrifa undir samkomulag um að virða markað hver annars.``

Í þriðja lagi segir í fundargerðunum, með leyfi forseta: Tiltekinn maður ,,... sagði verðið of lágt. ... taldi að menn þyrftu að vera jákvæðir, sýna vilja og standa saman. [NN] fagnaði viðhorfsbreytingu í þá átt að menn teldu verðið of lágt og tók undir þá skoðun. Það gerði [JJ] einnig. Hann vildi að hænur yrðu teknar úr varpi og félagið útvegaði mönnum, sem það gerðu, egg frá þeim sem ættu miklar birgðir.``

Í fjórða lagi segir enn úr fundargerð, með leyfi forseta: ,,Að lokum voru menn sammála um það að miða hámarksafslátt við 12% og stefna bæri að því að ná því í síðasta lagi hinn 1. júlí nk. Mikil áhersla var lögð á að menn virtu markað hver annars.``

Í fimmta lagi segir í fundargerðinni, með leyfi forseta. ,,Á stjórnarfundi 28. júlí 1994 var rætt um markaðsmál og þetta bókað: ,,Menn sammála að almennt hafi gengið vel að ná upp verðum.````

Þá segir einnig í þessari fundargerð sitthvað sem sýnir hvernig Félag eggjaframleiðenda hafi bundist samtökum um að stuðla að verðhækkunum á eggjum og koma í veg fyrir að menn kepptu á markaði.

Í niðurstöðum segir m.a. svo, með leyfi forseta: ,,Efni þeirra gagna sem reifuð voru hér að framan gefa ótvírætt til kynna að Félag eggjaframleiðenda hefur haft skýran og einbeittan vilja til þess að ræða, stuðla að og framkvæma aðgerðir sem hvað alvarlegastar þykja jafnt í íslenskum sem í erlendum samkeppnisrétti.``

Hér segir líka, með leyfi forseta: ,,Ljóst má því vera að á umræddu tímabili hafa ákvæði samkeppnislaga um bann við verðsamráði ekki átt við um heildsöluviðskipti á eggjum þar sem búvörulög bönnuðu alla verðsamkeppni í þessum viðskiptum. Á hinn bóginn er ljóst samkvæmt gögnum málsins að a.m.k. á þessu tímabili hafa eggjaframleiðendur og verslanir ekki farið eftir hinu opinbera verði og þannig brotið gegn skýru ákvæði 18. gr. búvörulaga.``

Þar segir enn, með leyfi forseta: ,, Athyglisvert er að Félag eggjaframleiðenda skýrir 18. gr. búvörulaga með mismunandi hætti eftir atvikum.``

Enn segir, með leyfi forseta: ,,Á landbúnaðarráðherra hvílir því sú skylda að sjá til þess að ákvæðum búvörulaga sé fylgt. Ekki er að sjá að viðkomandi stjórnvald hafi haft virkt eftirlit með því að farið sé eftir 18. gr. búvörulaga í viðskiptum með egg. Vegna þessa athafnaleysis stjórnvalda hefur skapast það ástand að verð á eggjum hefur í reynd verið frjálst. Undir þessum kringumstæðum er með öllu óviðunandi að Félag eggjaframleiðenda hafi komist upp með að grípa til aðgerða sem hamla gegn verðsamkeppni.

Framangreint ástand hefur leitt til þess að öll verðmyndun á eggjamarkaði er mjög óeðlileg og í skýrri andstöðu við markmið samkeppnislaga ...``

Enn segir: ,,Í ljósi þessa alls er það skoðun samkeppnisráðs að ákvæði samkeppnislaga taki til þeirrar háttsemi Félags eggjaframleiðenda að skipta mörkuðum.``

Og enn segir: ,, Samkeppnisráð telur sannað að á ... stjórnarfundum Félags eggjaframleiðenda hafi félagið, stjórnarmenn og starfsmaður félagsins ákveðið eða hvatt til aðgerða sem miðuðu að því að skipta mörkuðum eggjaframleiðenda eftir svæðum og þannig brotið ítrekað gegn 10. og 12. gr. samkeppnislaga.``

Nú hef ég áhuga á að vita hvað hæstv. ráðherra neytenda og samkeppnismála hefur um þetta álit að segja. Nú er ljóst að það er skoðun samkeppnisráðs að í mörgum tilvikum hafi búvörulögin ekki átt við. Túlkun þeirra hafi verið mismunandi eftir aðstæðum hjá Félagi eggjaframleiðenda og þeir hafi hvað eftir annað gerst sekir um brot á beinum ákvæðum samkeppnislaga sem framleiðsla þeirra fellur undir þó svo að hluti þeirra falli undir búvörulög.

Virðulegi forseti. Ég vil óska eftir því að hæstv. ráðherra samkeppnis- og neytendamála tjái sig um afstöðu sína og hvað hann hyggist gera til að tryggja að eðlileg verðsamkeppni geti átt sér stað í eggjaframleiðslu og að ekki sé samráð um skiptingu markaða.