Erfðabreyttar lífverur

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 16:07:42 (3722)

1996-03-07 16:07:42# 120. lþ. 103.7 fundur 117. mál: #A erfðabreyttar lífverur# frv. 18/1996, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[16:07]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Við snúum okkur þá aftur að því að ræða 117. mál þingsins, frv. til laga um erfðabreyttar lífverur, sem nú er komið frá nefnd til 2. umr. í þinginu. Ég vil byrja á því að þakka hv. nefnd og nefndarmönnum, hv. þingmönnum í umhvn., fyrir gott starf og það sem þeir hafa lagt á sig við að fara yfir þetta frv. og þær breytingartillögur sem þeir leggja hér til. Ég hygg að segja megi að þær séu allar til bóta og gerðar í samvinnu eða samráði við ráðuneytið, við embættismenn þar og í samráði við sérfræðinga, því að þetta er auðvitað efnislega flókið mál.

Tveir hv. þm. hafa tekið þátt í þessari umræðu auk framsögu hv. formanns umhvn. Mig langar að gera einstök atriði úr ræðum þeirra að umræðuefni og reyna að svara þeim fyrirspurnum sem þeir hafa beint til mín. Það verður kannski ekki alveg í þeirri röð sem það kom fram í umræðunum, heldur þá frekar í þeirri röð sem ég hef síðan sett þetta upp hjá mér. Mig langar fyrst að fara örfáum orðum um tilurð frv. Ég ætla ekki að tala neitt um höfundarrétt að frv. heldur hvernig að því var staðið að vinna það og hver var meginröksemdin fyrir því að leggja það fram strax í upphafi minnar tíðar sem umhvrh. og þá áherslu sem ég hef lagt á að fá frv. afgreitt, eins og fram hefur komið í máli hv. þingmanna.

Umhverfismálin eru, eins og fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, lítt flokkspólitísk og þess vegna ekki óeðlilegt að mál sem hafa verið í vinnslu í ráðuneytinu í tíð fyrri ríkisstjórnar eða í tíð annarra ráðherra hafi nokkuð óhindrað framgang ef ekki eru einhver sérstök ágreinings- eða álitamál uppi. Ég leit svo á að þetta mál væri í þeim farvegi þegar ég kom í umhvrn. og það var einnig talið mjög brýnt að koma því inn á hv. Alþingi og til afgreiðslu sem allra fyrst vegna þess að við værum þá þegar að komast í tímaþröng með að afgreiða málið vegna tengsla þess við samþykktir eða tilskipanir frá Evrópska efnahagssvæðinu og aðild okkar að þeim samningi. Það er vissulega rétt, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom síðan inn á, að vöktunaraðilar, eins og hann kallaði þá sjálfsagt réttilega, hafa ýtt mjög fast á málið. Þeir gerðu það reyndar strax í fyrrasumar, að ég tali nú ekki um þegar ljóst var að málið yrði ekki afgreitt fyrir áramót. Þá stóðu þessir aðilar nánast á öndinni. Ég fékk upphringingar út af málinu erlendis frá þar sem lögð var áhersla á að hraða því og koma því gegnum þing. Ég taldi mig ná bærilega góðu samkomulagi við formann nefndarinnar, sem ég veit að gert var í samráði við aðra nefndarmenn, um afgreiðslu málsins upp úr áramótunum og ég tel að það samkomulag hafi fyllilega staðist. Ég veit að nefndarmenn hafa lagt mikla vinnu í að koma málinu eins fljótt til afgreiðslu hér og þeir töldu nokkurn kost á. Svona meira til gamans má kannski lýsa því svo að frá Brussel sé nánast fylgst með störfum þingsins daglega til að vita hvað afgreiðslu þessa máls líður. Ég er því sannarlega feginn að komið er á endasprettinn með að koma frv. í gegnum þingið.

Eins og hér hefur komið rækilega fram í umræðum og þá ekki síður í áherslum hv. þingmanna sem hafa talað og breytingartillögunum sem koma frá umhvn., fjallar málið um fleira en bara það að lögfesta tilskipanir. Enda væri kannski nánast hægt að gera það, þótt það séu ekki ásættanleg vinnubrögð, með einfaldri lagasetningu um að þessi eða hin tilskipunin gildi hér og hafi tekið lagagildi. Þann háttinn höfum við ekki tekið upp. Við viljum að tilskipanir fái efnislega umfjöllun og lögfestingu, þær sem þess þurfa, og það sé þá gert á vandaðan hátt. Við tökum líka inn í umræðuna þá þætti sem við teljum nauðsynlegt og eðlilegt að fylgi með við slíka lagasetningu. Ég tek því fyllilega undir það sem kom fram hjá hv. 4. þm. Austurl. þegar hann gerði grein fyrir því að auðvitað væri það meira heldur en að því væri ekki mótmælt, það væri beinlínis heimilt að byggja frv. upp með efnisatriðum sem við teldum nauðsynlegt að fylgdu, þótt það væri ekki endilega innan þrengsta ramma tilskipunarinnar. Ég er þess vegna ánægður með þessi vinnubrögð og lýsi stuðningi mínum við þær tillögur sem hér eru settar fram af nefndinni. Þrátt fyrir þetta tel ég nauðsynlegt að málið fái skjóta framgöngu þar sem það er komið til 2. umr. í þinginu.

Hv. 15. þm. Reykv., sem því miður hefur gengið úr salnum, ræddi um að hann teldi að vegna vissra atriða, sem lögð eru fram í breytingartillögum nefndarinnar, væri nauðsynlegt að bíða með samþykkt þessa frv. eftir samþykkt hugsanlega annarra frumvarpa sem liggja fyrir þinginu og verða senn tekin til umræðu. Það held ég að væri óráð og vona að til þess komi ekki. Ég kem kannski að því aðeins síðar ef hv. þm. gengur í salinn.

[16:15]

Hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, spurði mig um afstöðu til afurða erfðabreyttra lífvera og stefnu stjórnvalda í því að merkja skuli fyrir neytanda á umbúðir slíkrar vöru ef um er að ræða afurð erfðabreytta lífvera. Svar mitt hlýtur að helgast nokkuð af því að ég set hér fram mína persónulegu skoðun á málinu en ekki því að málið hafi verið tekið til efnislegrar eða formlegrar umræðu af hálfu stjórnvalda. Ég vil að neytendur hafi sem gleggstar upplýsingar um það hvað verið er að selja þeim. Ég hef t.d. talað mjög fyrir því í sambandi við kröfu um innflutning á vörum, t.d. ýmsum landbúnaðarvörum sem nú er heimilt að flytja inn en áður hafði verið óheimilt, að mönnum sé algerlega ljóst hvað þeir eru að kaupa og þar með talið láta ofan í sig. Ég hef reyndar viljað ganga lengra og held mig enn fast við það að við eigum ekki að hleypa ákveðnum vörum inn í landið en það er auðvitað algerlega óskylt þessu máli sem hér er til umræðu. En ég vil bara segja þetta til áréttingar á mínum viðhorfum eða sjónarmiðum í því efni. Þar er ég t.d. að tala um landbúnaðarvörur sem framleiddar eru með vaxtaraukandi efnum, hormónum eða vaxtaraukandi lyfjum sem við viljum ekki að séu heimiluð í framleiðslu okkar landbúnaðarafurða. Að öðru leyti ræði ég ekki frekar um það.

Hv. þm. las upp úr minnisblaði sem kemur sem svar til nefndarinnar við spurningum sem nefndin hefur beint til ráðuneytisins varðandi það að Ísland hafi ekki stutt áherslur sem virðast hafa þó komið fram hjá nágrannaþjóðum okkar í þessu efni. Ég ætla ekki að breyta þessu orðalagi og hef ekki ástæðu til þess. Sjálfsagt er það svo að Ísland hafi ekki stutt þær áherslur þar sem þær hafa verið til umræðu. Mér dettur í hug að segja um þennan þátt málsins að við höfum ekki verið mikilvirkir gerendur sjálfir á þessu sviði sem við erum að tala um hér en viðbúið að það gætu gerst miklar og sjálfsagt hraðstígar breytingar á því sviði hjá okkur eins og hjá öðrum löndum. Það hafi svo leitt til þess að við höfum ekki tekið þetta mál til mjög ítarlegrar eða efnislegrar umfjöllunar. Svarið hefði kannski getað verið þannig að Ísland hafi ekki tekið afstöðu til þessa máls frekar en það að við höfum ekki stutt viðhorfið. En nú ætla ég ekki að tala fyrir hönd forvera minna í þessu efni. Ég veit ekki hvað þar hefur verið á ferðinni. Það hefur ekki borið upp á borð hjá mér sérstaklega að ég sé að lýsa stefnu ríkisstjórnar í heild sinni á þessu efni. Ég er aðeins að segja frá mínum viðhorfum og því að ég muni þá reyna að fylgja þeim eftir þegar og ef málið kemur til minna kasta sem ekki er ólíklegt að það geri.

Ég sný mér þá aftur að því, fyrst hv. 15. þm. Reykv. er genginn í salinn á ný, sem ég var að tala um út af þeirri áherslu sem lögð hefur verið á það að flýta afgreiðslu frv. af hálfu eftirlitsaðila EFTA og nauðsyn þess að fá það lögfest. Ekki bara þess vegna heldur líka fyrir okkur og af efnisatriðum sem okkur varðar þá held ég að það væri ekki góður kostur eins og hv. þm. nefndi þó varðandi breytingartillögur frá hv. umhvn., að það kynni að vera nauðsynlegt að bíða með þetta frv. eftir samþykki hugsanlega annarra frumvarpa sem verða til meðferðar í þinginu og vonandi verða lögfest. Ég geri mér vonir um það að frv. sem hér er á dagskrá síðar í dag og fer til þingnefndar fái afgreiðslu og verði lögfest. En það er ekki að öðru leyti til umræðu hér. Í framhaldi af því verður að taka mið af þeim breytingum og þá breyta öðrum lögum sem kunna að skarast ef breytingar verða gerðar á lögum um Náttúruverndarráð og önnur stofnun tekur við því hlutverki sem Náttúruverndarráð hefur nú. En það var einmitt það sem hv. þm. var að velta fyrir sér þegar hann var að ræða um það hvort hér kynni ekki að koma upp skörun. Náttúruverndarráð hefur ákveðið hlutverk samkvæmt gildandi lögum og heldur því hlutverki og þeim verkefnum þar til þeim lögum hefur verið breytt, ef og þegar. Ég verð að biðja um það að menn líti til þess að þetta frv. verði afgreitt óháð því.

Síðan ræddi hv. þm. í beinu framhaldi af þessu um þær breytingartillögur nefndarinnar við 13. gr. frv. þar sem segir svo með leyfi forseta: ,,... komi: Náttúruverndarráðs og rannsóknastofnana eftir því sem við á og hjá aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins ...`` o.s.frv. Hér er skýrt tekið fram ,,rannsóknarstofnana eftir því sem við á``, þegar hv. þm. var að velta því fyrir sér hvort ekki þyrfti að gera ítarlegar grein fyrir þessu og telja þá þær rannsóknarstofnanir upp sem um væri að ræða. Þetta kemur einnig fram í nefndarálitinu sjálfu þar sem undirstrikað er að Hollustuvernd skuli leita umsagna rannsóknastofnana sem starfa á því sviði sem umsóknin lýtur að. Mér finnst nú að hér muni vera auðvelt fyrir Hollustuvernd að leita umsagna hjá viðkomandi aðilum án þess að þeir séu allir taldir upp í lagatexta. En þetta er tillaga nefndarinnar og ég tek undir þau sjónarmið sem þar eru sett fram og ítreka von mína og ósk um að málið verði afgreitt hið fyrsta eftir þessa ítarlegu umræðu.

Hv. 4. þm. Austurl. og 15. þm. Reykv. fjölluðu báðir um stöðu og möguleika Hollustuverndar ríkisins til að takast á við og fjalla um ný verkefni. Ég tek undir það með þeim báðum, hv. þm., og hef reyndar gert það áður í þessum ræðustól að nauðsynlegt er að horfast í augu við þá staðreynd að þessi stofnun hefur á undanförnum árum fengið stöðugt ný og mikilvæg verkefni, ekki síst tengd samningum okkar um Evrópska efnahagssvæðið, en stjórnvöld, þar með talið sá sem hér stendur, hafa ekki verið nógu öflug í að verja stofnunina og skapa henni þau skilyrði að hún geti af fullum krafti gegnt sínu hlutverki og fylgt eftir þessum nýju verkefnum. Þetta segi ég nú vegna þess að það hef ég áður sagt úr þessum ræðustól og vil aðeins gera nánari grein fyrir því að á seinustu vikum nýliðins árs fjallaði sérstök nefnd um fjármál og fjárveitingar þessarar stofnunar og komst að ákveðinni niðurstöðu um það hvernig að því skyldi standa að vinna betur úr því verkefni. Hún fékk litla fjárveitingu til að fara í ákveðna sérfræðivinnu sem nú er í gangi á stofnuninni. Síðan er gert ráð fyrir því að þessi nefnd ljúki endanlega sínum störfum fyrir vorið þannig að þá liggi fyrir hugmyndir hennar um það bil sem þarf að fara að taka ákvarðanir fyrir fjárlagagerð næsta árs. Í öðru lagi má geta þess að líka hefur verið sett á laggirnar ný nefnd eða önnur nefnd sem á að fjalla um lögin um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Hún á að endurskoða þau þannig að þar verði farið efnislega í lögin í heild sinni, efnisatriði þeirra. Það verður ítarleg vinna um verkefni stofnunarinnar og þá í framhaldi af því hvernig henni skuli að öðru leyti skipað.

Ég vona að við getum náð saman um það að styrkja stofnunina. Ég held að það sé ekki ástæða til þess sem kom fram í máli hv. 15. þm. Reykv. ef ég skildi hann rétt, að fjölga stofnununum sem eiga að vinna samkvæmt þessum lögum formlega, hvort það ætti að tilgreina fleiri stofnanir sem hefðu eftirlitshlutverk samkvæmt lögunum. Ég held að það mundi flækja málið. Ég held að það sé eðlilegt að það sé ein stofnun sem hafi með það að gera og leitar síðan upplýsinga, umsagnar og samstarfs við aðrar stofnanir á þeim sviðum sem um er að ræða hverju sinni eins og áður hefur komið fram. Það er auðvitað sú stofnunin sem tilheyrir umhvrn. sem eðlilegast er að fjalli um þau ákvæði sem hér er verið að lögfesta.

Að lokum vil ég taka undir þau viðhorf sem fram komu bæði hjá hv. framsögumanni nefndarinnar og síðan hjá hv. 4. þm. Austurl. um það að leggja áherslu á siðfræðilega þáttinn, taka hann meira inn í frv. og inn í þessa lagasetningu en í upphafi var áætlað. Ég held að ég hafi lýst því yfir strax við 1. umr. að það væri ekkert nema gott eitt um það að segja teldi nefndin sér mögulegt að koma því hér inn þannig að það væri ásættanlegt, þó svo kannski þyrfti að fjalla um þau mál í víðara samhengi. Vafalaust tengist það ýmiss konar annarri lagagerð og lagasetningu eins og ég held að hafi komið fram hjá hv. 4. þm. Austurl. líka, að það ætti ekki bara við hér. Ég tel að það sem hér hefur þó verið gert, að taka þessar áherslur inn eins og breytingartillögur umhvn. gera ráð fyrir, sé mjög til bóta og lýsi einnig stuðingi mínum við það.

Ég held, hæstv. forseti, að ég eyði þá ekki lengri tíma í það að fjalla um þessi efnisatriði. Ég vona að ég hafi að nokkru svarað þeim spurningum sem beinlínis var til mín beint frá hv. 4. þm. Austurl. um kröfuna um merkingarnar og frá hv. 15. þm. Reykv. um stöðu og skipulag Hollustuverndarinnar og stöðu hennar til þess að takast á við þessi verkefni. En ég lýsi að öðru leyti ánægju minni með þessar umræður og ítreka þakkir mínar til nefndarinnar fyrir vönduð og góð vinnubrögð.