Náttúruvernd

Fimmtudaginn 07. mars 1996, kl. 17:19:10 (3728)

1996-03-07 17:19:10# 120. lþ. 103.9 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 103. fundur

[17:19]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur orð til viðbótar út af athugasemdum hv. 4. þm. Austurl. sem ég þakka út af fyrir sig fyrir. Ég þakka fyrir áhuga hans á þessu máli og að hann skuli sýna það hér í ræðu. Það kemur mér út af fyrir sig ekkert á óvart því að ég veit um áhuga hans á málaflokknum og hef heyrt viðhorf hans til sumra þessara mála áður. Við höfum áður rætt um það á þingi í tíð þessarar ríkisstjórnar einhvern tíma á upphafsdögum hennar, líklega í fyrirspurn, hvernig sá sem hér stendur hygðist taka á málum eða lögum um náttúruvernd og þar með auðvitað á málefnum Náttúruverndarráðs og náttúruverndarmálunum almennt.

Eins og fram kom í framsöguræðu minni hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé brýnt að ná fram breytingum á þessum stjórnþætti. Stjórnskipun þessara mála er eðlilega með þeim hætti frá fyrri tíð, óskylt því sem hefur í raun gerst eftir að umhvrn. sem slíkt tekur til starfa, og ég held reyndar að það sé í sjálfu sér ekki neinn ágreiningur um að á því þurfi að taka. Ég gerði mér líka vonir um það og geri það enn að vegna þess einmitt að þessi hlið málanna hefur tvívegis verið til umfjöllunar í þinginu, í tíð fyrri ríkisstjórnar, þ.e. að taka á stjórnskipunarþættinum, þá mundi það geta gengið hraðar fram nú í hv. þingi þannig að taka á honum. Ef ég hins vegar hefði valið þann kostinn að fara strax í heildarendurskoðun á öllum lagaatriðunum, þ.e. heildarskoðun með efnisatriðunum umfram þennan stjórnskipunarþátt, þá hefði það tekið miklu lengri tíma og mun gera það. Ég er fullviss um það eins og ég líka gat um í ræðu minni. Ég vil gera það og tel að það sé nausynlegt og brýnt að fara í það einnig og veit að það er búið að vinna í því máli töluverða undirbúningsvinnu. Það eru ýmsir þættir sem þar hafa verið til skoðunar, bæði hjá Náttúruverndarráði, hjá ýmsum áhugaaðilum og áhugasamtökum um náttúruverndarmál og í ráðuneytinu sjálfu, einmitt þættir sem hv. þm. nefndi og ég kem aðeins að síðar.

En niðurstaðan varð þessi og af hreinum praktískum atriðum talið skynsamlegra að fara þó fram með frv. í þessum búningi eins og hv. þm. gerði þó örlitla athugasemd við, að því skyldi vera valinn þessi búningur, af því að ekki var og ekki er um heildarendurskoðun að ræða. Ég tek undir það að vissulega er það álitamál og forverar mínir höfðu ekki valið þennan kostinn, heldur fluttu þeir, ef ég veit rétt, breytingar við lögin frá 1971. Og þess vegna bað ég um það áðan að hv. þingmenn og hv. nefnd sem fær málið til skoðunar tækju það til umfjöllunar með þeim fyrirvara að fjöldinn allur af atriðum sem hér eru sett fram í einstökum greinum eru í sumum tilfellum alveg óbreytt frá því sem er í gildandi lögum og hefði þess vegna ekki þurft að setja fram heildstætt frv. En þar sem stjórnskipunarbreytingin kemur svo víða við þá voru menn sammála, bæði þeir sem unnu að undirbúningi frv., nefndin sem vann að undirbúningi þess og aðrir ráðgjafar sem að því komu og töldu að þetta væri miklu aðgengilegra og betra form en um það geta auðvitað verið skiptar skoðanir. Ég tek að hluta til undir þessa athugasemd hv. þm. um það að búningurinn gefur kannski tilefni til þess að álíta að hér sé heildstæð endurskoðun sem er í raun ekki.

Þetta var það sem hv. þm. nefndi fyrst. Ég hef líka í öðru lagi gert grein fyrir þeirri afstöðu minni að gera þetta í tveimur áföngum á þennan hátt sem hér er lagt upp með. Og þó þar sé farið í fótspor forvera minna í umhvrn., þá hef ég gert mér vonir um að það gæti flýtt fyrir afgreiðslu þessa máls að þingið og þingnefnd er búin að fjalla um hliðstæð mál þótt þau hafi verið með nokkuð öðrum hætti, en mál hliðstæð því sem hér er lagt fram.

Í þriðja lagi nefndi hv. þm. nokkur efnisatriði sem vissulega er þörf á að taka á. Það er sjálfsagt orðið mjög brýnt að taka á ýmsum úreltum ákvæðum í eldri lögum og þess vegna má það ekki dragast að þessi endurskoðunarvinna fari í gang og er vonandi að henni ljúki líka sem fyrst þó ég hafi ekki gert mér vonir um að það gæti tekið skemmri tíma en kannski eitt og hálft til tvö ár, tvö ár þannig að við gætum fengið inn í þingið frv. e.t.v. um áramót 1998/1999. Það væri gott ef það gæti orðið fyrr, ég mundi að sjálfsögðu ekki harma það, heldur fagna því mjög, en veit að þetta tekur allt sinn tíma.

Hv. þm. nefndi sérstaklega þá þætti sem námuvinnslu og námaleyfi varðar og er vissulega brýnt mál að taka á. Í framhaldi af þeirri ráðstefnu eða því þingi, sem hv. 4. þm. Austurl. gat um í ræðu sinni áðan, höfum við fjallað um málið í ráðuneytinu og átt í viðræðum og bréfaskiptum við Náttúruverndarráð og fleiri hagsmunaaðila um það hvernig að því verði staðið. Ég sé það fremur fyrir mér að það verði að fara í þessa heildarendurskoðun, þó ég útiloki ekki að hægt sé að taka á þeim málum sérstaklega, þó það væri alveg eindregin niðurstaða okkar að setja það ekki inn í þetta frv., sumpart af ótta við að það kynni að leiða til þess að menn færu þá út fyrir það að hér er verið að fjalla um stjórnskipun og taka hina ýmsu þætti inn í þetta og halda áfram að bæta eða staga í eldri lög sem ég held að sé ekki góður kostur, heldur væri betra ef hægt væri að taka þetta með heildstæðu formi.

Í fjórða lagi nefndi --- ég hef merkt þetta í töluröð sjálfur, það var ekki beinlínis það sem hv. þm. gerði í ræðu sinni en eins og ég nóteraði hjá mér þessi efnisatriði hans, þá talaði hann í fjórða lagi um þrjá þætti frv. sem eru vissulega allir mikilvægir og það sem verið er að taka á er hin nýja stofnun, þ.e. hlutverk Náttúruverndarráðsins eins og það verður eftir breytinguna og síðan hvernig staðið verður að friðlýsingarmálunum sjálfum. Aðeins fyrst um stofnunina, Náttúruvernd ríkisins, sem hér er gert ráð fyrir að setja á fót. Ég tel eðlilegt að það sé gert á þennan hátt. Mér finnst eðlilegt að þessi stofnun heiti Náttúruvernd ríkisins. Mig minnir að það hafi verið talað um landvörslu áður og einhver hlutaverkefni af því sem þessi stofnun þarf að fara með. Ég tel eðlilegt að hún beri þetta nafn og fjalli um málin öll í heild sinni sem undir hana eiga að falla, en við höfum vissulega ekki gert ráð fyrir því að með þeirri breytingu, sem er fyrst og fremst stjórnskipunarbreyting, sé um að ræða gjörbreytt eða stóraukin umsvif. Eins og hv. þm. bendir réttilega á er ekki gert ráð fyrir því.

Ég þarf út af fyrir sig ekki að draga það inn í þessa umræðu, þó að það megi og þurfi því miður oftast nær að fylgja þegar rætt er um starfsemi opinberra stofnana, að við erum í þessari fjárhagsglímu sem ríkissjóður stendur í, ekki bara um þessar mundir heldur er búinn að vera í undanfarin ár, og við ætlum að halda áfram þeirri glímu, þ.e. að reyna að ná ríkissjóði hallalausum þannig að það gefur ekki mikið svigrúm til þess að auka umsvif opinberra stofnana. Hér er fyrst og fremst verið að breyta stjórnskipuninni en í öllum höfuðatriðum er gert ráð fyrir því að starfsemin verði með svipuðu sniði. Ég veit þó að Náttúruverndarráð og hin væntanlega stofnun, Náttúruvernd ríkisins, hefur við að glíma mörg viðfangsefni sem þyrfti að taka enn fastari tökum heldur en gert hefur verið og væri vissulega ekki á móti því að geta eflt það starf og aukið á einhvern hátt en ég er ekki svo bjartsýnn að ég geri mér vonir um það eins og sakir standa, hvað svo sem framtíð ber í skauti sér með batnandi þjóðarhag. Ég veit að umhverfismálin í heild sinni og ekki kannski hvað síst náttúruverndarmálin hafa vaxandi fylgi í hugum þjóðarinnar og ég hygg að það gefi þess vegna möguleika fyrir þá sem fást við þessi mál á komandi árum að efla þennan málaflokk og taka hann enn fastari tökum en mönnum hefur þó tekist hingað til.

Það geta verið og eru að sjálfsögðu skiptar skoðanir um það hvernig eigi að standa að því að skipa menn í stjórnir stofnana, í fyrsta lagi hvort þær yfirleitt eigi að vera með stjórnir. Ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að Náttúruvernd ríkisins sé skipuð stjórn. Það er mín eindregna skoðun. Síðan geta alltaf verið uppi ótal álitamál um það hvernig eigi að skipa þær stjórnir og hverjir eigi að eiga aðild að því. Niðurstaða mín varð sú að ferðamálin væru mikilvægur þáttur í sambandi við umhverfismál og miklu máli skipti að þar væri góð og traust samvinna milli ferðamálaþáttarins og náttúruverndarinnar. Fyrir því er hægt að rekja ýmis dæmi, en ég held að það sé ekki þörf á því, enda undirstrikaði hv. þm. það líka í sinni ræðu að mikilvægt væri að það væri gott samspil milli ferðamála og umhverfismála þó að hann væri ekki sammála því að það ætti endilega að gerast á þann hátt sem hér er lagt til, að samgrh., ráðherra ferðamála eins og það hefur þróast í okkar stjórnskipun, ætti að skipa í þessa stjórn. Ég endurtek að um það geta alltaf verið skiptar skoðanir, hvernig eigi að standa að því. Landbrh. ætti kannski alveg eins að eiga þarna fulltrúa og menntmrh. og minnugur þess að til skamms tíma heyrði þessi málaflokkur að verulegu leyti undir menntmrh., þá má kannski segja að það hafi ekki verið og sé ekki fráleit hugmynd eða hugsun og mikilvægi þess að innprenta þjóðinni, æsku landsins, strax í upphafi mikilvægi fyrir náttúruverndarmálum. Ég tek algjörlega undir þau sjónarmið. En þetta varð niðurstaða okkar. Ég minni á að þarna er líka um að ræða þrjá fulltrúa sem skulu skipaðir í stjórnina án tilnefningar. En auk samgrh. er það síðan Náttúruverndarráð sem skal tilnefna í stjórnina og þannig tengist alveg ótvírætt inn í stjórn hinnar nýju stofnunar.

Síðan ræddi hv. þm. um Náttúruverndarráðið sjálft og vissulega má segja að það fær mjög breytt hlutverk. Ráðið verður ráðgefandi. Það er hópur áhugafólks og samtaka þeirra aðila og einstaklinga, sem vilja vinna að og leggja áherslu á náttúruverndarmálin, umhverfis- og náttúruverndarmál, sem kemur saman á náttúruverndarþingi og starf þess verður sjálfsagt að mótast nokkuð í þeim nýja búningi sem þetta frv. gerir ráð fyrir og þá einnig sjálfstæði þess gagnvart ráðuneyti og ráðherra. En þó er skýrt kveðið á um það í frv. að þetta nýja ráð skuli vera ráðgefandi aðili og það hefur auðvitað líka umsagnarskyldu, bæði umsagnarrétt og umsagnarskyldu og vöktunarhlutverk samkvæmt ýmsum greinum frv. sem ég ætla ekki að eyða tímanum í enda sé ég að hann er að renna út frá mér. Það er hægt að fletta því upp og lesa það, en það hefur margvíslegu hlutverki að gegna. Ég hygg að það megi finna ýmsar hliðstæður fyrir slíkum ráðgefandi nefndum í öðrum málaflokkum sem hafa þá svipaða starfsaðstöðu og þetta ráð þarf að koma sér upp, jafnvel að einhverju leyti starfa þá í tengslum við viðkomandi ráðuneyti. Ég þykist muna það að nefnd sú sem starfar samkvæmt lögunum um vernd og veiðar villtra fugla og dýra --- ég fer kannski ekki alveg rétt með nafnið eða heitið á þessum lögum en þar er ráðgefandi nefnd sem starfar í nánum tengslum við ráðuneytið og hefur haft starfsaðstöðu þar inni án þess að ég sé á þessu stigi beinlínis að boða það eða bjóða. Ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum bara að skoða og ræða. Ég óttast í raun ekki að það finnist ekki á því einhverjar viðunandi lausnir. Þá getur menn líka greint á um það hvernig svona ráð á að vera skipað. Ég hygg að það sé rétt að formaður sé eftir sem áður skipaður af ráðherra og það sé tryggt að inn í ráðið komi ákveðin sjónarmið með tilnefningum frá ýmsum aðilum. En hvort þeir eiga að vera fimm og þrír kosnir eða fjórir tilnefndir og fimm kosnir eða öfugt, ég get lýst því yfir hér að ég er tilbúinn til þess að hugleiða þau mál og skoða það nánar hvernig að því skuli best staðið og treysti nefndinni til að vinna vel úr þessu máli. Frv. þetta er mikilvægt mál. Það er mikilvægt að það nái fram að ganga og ég treysti því og vonast til þess og veit að nefndin vinnur vel en ég vona líka að hún treysti sér til að vinna þetta mál hratt þannig að við náum að lögfesta það fyrir vorið.