Innheimtustofnun sveitarfélaga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 19:07:45 (3801)

1996-03-11 19:07:45# 120. lþ. 104.11 fundur 356. mál: #A Innheimtustofnun sveitarfélaga# (samningar við skuldara) frv. 71/1996, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[19:07]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti hv. þm. tala nokkuð strítt. Ég lít svo á að þetta frv. sé gagnlegt og skynsamlegt frv. og það sé verið að horfast í augu við staðreyndir. Frv. í sjálfu sér skerðir síður en svo rétt móður eða þess foreldris sem tekur við meðlagi. Innheimtustofnunin stendur skil á meðlaginu hvort sem faðirinn greiðir eða ekki eða móðirin. Það eru ekki feður einir sem greiða meðlög, það gera líka mæður í ýmsum tifellum og greiða föður meðlög með barni sem hjá honum er. Ég hef vissulega hugleitt það misræmi sem af þessu getur skapast að þeir sem standa í skilum fá ekki neina léttingu á sínum byrðum í gegnum frv. En staðreyndirnar tala sínu máli. Skuldirnar hafa hrúgast upp og ég spyr hvað Kvennalistinn vilji gera við þá meðlagsgreiðendur sem hafa lagt árar í bát eða vinna svart og standa hvorki móðurinni skil á lögbundnu meðlagi né samfélaginu.

Ég hugsa líka til kvenna sem hafa farið í sambúð með mönnum sem skulda meðlög. Það vill nú svo til að það eru æðimargir sem hafa komið að máli við mig út af þessum vanda. Ég hef að vísu ekki gert neina sérstaka tæmandi statistik um það en mér segir svo hugur um að a.m.k. helmingurinn séu konur sem hafa farið í sambúð með mönnum, fráskildum mönnum eða barnsfeðrum sem ýmist hafa lagt upp laupana og borga ekki eða streða og streða við að standa í skilum og 75% af kaupinu þeirra er tekið þannig að ég tel að þetta sé ekkert sérmál annars kynsins.