Mannanöfn

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 15:37:59 (3826)

1996-03-12 15:37:59# 120. lþ. 105.4 fundur 73. mál: #A mannanöfn# (heildarlög) frv. 45/1996, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[15:37]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur átt sér stað. Sérstaklega vil ég þakka málefnalega og yfirvegaða ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar áðan og hefði gjarnan viljað að hann ætti sæti í hv. allshn. svo við hefðum getað rætt málið þar áður en hingað væri komið.

Mig langar í upphafi að nefna þetta orðasamband ,,ófrelsi hefðanna`` sem hann hjó eftir. Ég tók það reyndar upp eftir hv. þm. Svavari Gestssyni. Það er ekki mitt sjónarmið að hefðir séu slæmar, öðru nær. Hefðir eru góðar og nauðsynlegar. Þær eiga ekki að fjötra heldur halda mannlífinu á eðlilegum brautum en mega þó ekki stöðva þróun eða breytingar. Það er hefð fyrir þróun í íslensku máli. Það er líka mála sannast.

Við erum að ræða um frv. til laga um íslensk mannanöfn og ég vil benda á það að ábyrgð á nafngjöf er fyrst og fremst foreldranna og það að foreldrar vilja um fram allt gefa börnum sínum góð nöfn. Það er sjálfsagður hlutur af hálfu foreldra og foreldrar hugsa mikið um það áður en kemur að skírn eða nafngjöf, fari það tvennt ekki saman, að gefa góð nöfn sem börnunum sé sæmd af að bera.

Ég veit engin dæmi þess að nafngift sé ekki mikilvæg í augum foreldra og tilfinningamál. Því eru hömlur og eftirlit vandmeðfarin efni. Það þarf að mínum dómi að sýna umburðarlyndi. Og foreldrar þurfa að hafa möguleika á að ræða við einhverja sérfróða aðila um nafngift ef þeir telja að nöfnin sem þeir vilja gefa eða nafnið sé ekki innan eðlilegra marka sem nokkuð almenn sátt getur verið um.

Þá er líka á það að líta að skírn og nafngjöf eru tengdari hér hjá okkur en meðal flestra annarra þjóða. Það á sumpart rætur í þjóðtrúnni en fyrst og fremst í því að við teljum að nafngjöfinni fylgi blessun ásamt skírninni. Margt fólk er líka meðvitað um merkingu nafna sem má líka segja að sé séríslenskt fyrirbæri. Og svo sem áður sagði tel ég margt hæpnara í íslenskum málsháttum en það að gifta fylgi góðu nafni.

Það er allt í lagi með langflest nöfn í íslenskri nafnaflóru. Þau eru auðveld í máli, sjálfsögð og beygingar réttar og eðlilegar. Þróun íslensks nafnsiðar hefur líka verið eðlileg um aldirnar. Lög stóðu ekki til þess að leyfa eða banna. Það er ein ástæða þess að löggjafinn á ekki að hafa stíft taumhald í þessum efnum. En svo sem áður hefur komið fram í umræðunni gerist það í fyrsta skipti í íslenskri málsögu að reynt er að stöðva þá þróun að ný nöfn berist inn í málið með gildandi lögum frá 1991. Það er að gerast, eins og áður sagði, á þeim tíma sem meiri nauðsyn er á sveigjanleika og aðlögunarhæfni. Enda sætti almenningur sig ekki við breytinguna, vandamál hlóðust upp og brýnt var að taka lögin til endurskoðunar. Því vil ég koma að því að það er ekki rétt sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði og fleiri hafa minnst á að nú ríki friður um framkvæmd laganna. Það eru ótal mál sem bíða úrlausnar, bíða þess að kveðið sé upp úr með það af hálfu löggjafans hvað skuli standa í lögunum. Fólk bíður einnig eftir því að úr þessum tilfinningamálum og álitaefnum verði leyst.

Vissulega má finna ýmis skringileg nöfn og furðuleg í kirkjubókum liðinna alda og reyndar ekki síst á síðustu öld. En fróðir menn hafa talað um að síðasta öld hafi verið hálfgerð nafnspillingaröld. Þó eru ýmis nöfn falleg þó þau hafi ekki náð festu í málinu. Hér er eitt tekið upp úr kirkjubók, Frumrósa Guðrún Bernharðdína. Hún er fædd 1873. Og ein fékk nafnið Jólavía, 25. desember 1889, væntanlega vegna þess að hún er fædd á jóladaginn, dóttir hjónanna Gísla Jónssonar og Þorbjargar Kristjánsdóttur sem voru gift vinnuhjú á Reykhólum á Barðaströnd. Þau voru skynsemdarfólk og breyttu þessu nafni í Kristín Jólavía með tilvísan til Krists sem var fæddur á jólum og þau hafa vitað mætavel. En síðan virðist hún hafa sleppt þessu nafni alveg, þessu Jólavíu-nafni. Frómráður Ólafsson var fæddur 1829 og Friðgjarn, þetta eru óskaplega falleg nöfn en hafa samt ekki náð festu í málinu. Það er nefnilega þannig að reynslan og sagan sýnir að þau nöfn hreinsast út aftur sem eru óþjál í munni eða ankannaleg. En með eðlilegu frelsi til að ákvarða nöfn mótast og slípast nafnsiðurinn af lifandi notkun. Það er það sem við verðum að gæta að að nafnsiðurinn fái frelsi til að slípast og þróast af notkuninni vegna þess að nafnsiðurinn og málið eru lifandi mál. Því tekur nafnsiðurinn breytingum og stundum verður það vinsælt og viðtekið af nöfnum sem í fyrstunni kann að virðast framandlegt og furðulegt. Það ber líka að hafa hugfast að löggjafinn er ekki að mæla með þeim nöfnum sem eru svona á mörkunum og fram hefur komið líka í umræðunni. Ekki heldur því að allir skuli kenna sig bæði til föður og móður. Það er heimilt og verður e.t.v. notað að einhverju marki og það er sjálfsagður réttur að mínum dómi. Eins það að kenna sig til hvors foreldris síns sem er.

[15:45]

Ég vil þá víkja að millinafnakaflanum. Hann hefur hlotið nokkra gagnrýni og ég hygg að við verðum að taka hann til nokkuð betri umræðu hér og að hv. þm. átti sig á því hvað verið er að reyna að gera með þessum millinafnakafla.

Það hefur átt sér stað þróun, þ.e. með uppteknum erlendum ættarnöfnum á þessari öld. Það hefur að vísu ekki alveg tífaldast en nærri lætur. Það voru 290 ættarnöfn á Íslandi 1910 en eru 1994 2.300. Það stefnir í það að ættarnöfnin flæði yfir og taki yfir og taki af sonar/dóttur kenninafnakerfið íslenska. Þar er ég íhaldssamur. Ég vil ekki að við missum þetta séríslenska fyrirbæri sem ég hygg að eigi að vera stolt okkar í íslenskum nafnasið.

Ég gríp hér aðeins niður í greinargerðinni þau ættarnöfn sem eru komin inn í málið. Ég er ekki að dæma þau, bara sýna hvað þau falla illa að íslensku máli. Það eru nöfn eins og Brown, Bruun, Busk, Cabrera, Carlsen, Cassata, Chelbat, Cilia, Datye, Turner, Tönsberg, Urbancic, Weihe, Weisshappel, Wessman, Wheat, White, Wolfram, Woll, Wöhler og Özcan, svo dæmi séu tekin en þau eru auðvitað miklu, miklu fleiri. Nú er verið að gefa þessu fólki kost á millinafnaleiðinni fyrir sig og ekki síður afkomendur sína. Þeir sem hingað hafa komið með þessi nöfn fá að halda í nafn sem þeim þykir vænt um að sjálfsögðu frá sínum heimalöndum til þess að tapa þeim ekki og fá að hafa þau sem millinöfn en nota sonar/dóttur kerfið hér í framtíðinni. Verði ekki brugðist einhvern veginn við þessu, eins og við leggjum hér til, er ljóst að íslenski kenninafnasiðurinn mun líða undir lok á örfáum áratugum. Um það er ég sannfærður. Við megum ekki leyfa okkur að stinga höfðinu í sandinn og láta sem ekkert sé.

Virðulegi forseti. Það er fjarri því að sátt sé um núgildandi lög um mannanöfn. Eins og áður sagði eru fjölmargar óskir um breytingar. Fjölmargt fólk bíður og ég tel víst að nú fari talsverð umræða af stað í þjóðfélaginu því mörgum eru þessi lög, útfærsla þeirra og framkvæmd tilfinningamál. Á þeim hafa margir, ef ekki allir skoðun og friðurinn sem ríkt hefur undanfarið og ýmsir hafa talað um að sé kominn um lögin er nú ekki fyrir hendi. Það er logn. En það er svikalogn. Það á eftir að bresta á aftur ef við ekki gerum neitt í þessu máli. Það varð strax ljóst eftir setningu laganna 1991 í hvað stefndi og þess vegna var nauðsynlegt að taka strax á málum.