Gatnagerðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 1996, kl. 17:08:58 (3840)

1996-03-12 17:08:58# 120. lþ. 105.5 fundur 106. mál: #A gatnagerðargjald# (heildarlög) frv. 17/1996, Frsm. KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur

[17:08]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get að nokkru leyti tekið undir þau orð sem hv. síðasti ræðumaður viðhafði varðandi 3. gr. frv. um ákvörðun gatnagerðargjalds. En málið er að það er ákaflega vandmeðfarið að ákveða þetta gjald með tilliti til kostnaðar vegna þess að kostnaður við gatnagerð er gífurlega mismunandi eftir því hvar er og hvernig aðstæður eru. Sjálfsagt væri hægt að búa til meðalstaðal sem farið yrði eftir. En breytingin sem verið er að gera er sú að í stað þess að áður var innheimt gatnagerðargjald í tvennu lagi, er verið að sameina það í eitt. Sveitarfélögin fá tíu ár til að aðlaga sig að þessu nýja kerfi. Núna eru menn að greiða fyrir gatnagerð í sínu sveitarfélagi sem menn nota sameiginlega meira og minna í stað þess að áður var hugsunin sú að menn væru að greiða gatnagerðina í sinni götu við sitt hús. Ég get tekið undir það sjónarmið og það er kannski næsta verkefni að reyna að finna aðra leið til þess að skilgreina gjaldið í beinum tengslum við kostnaðinn. En sú nefnd sem samdi frv. komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að halda þeirri viðmiðun sem hefur verið við lýði einfaldlega vegna þess að menn hafa bara ekki fundið betri aðferð til að skilgreina þetta gjald.