Endurskoðun íþróttalaga

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 14:16:50 (3891)

1996-03-13 14:16:50# 120. lþ. 106.3 fundur 347. mál: #A endurskoðun íþróttalaga# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur

[14:16]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 12. þm. Reykv. fyrir að hreyfa íþróttamálum. Það er satt að segja ekki mjög oft sem þau koma hér fyrir og það á sér tilteknar skýringar. Það á sér að nokkru leyti þær skýringar að árið 1989 var tekin um það ákvörðun í tengslum við sérstaka samninga milli ríkis og sveitarfélaga að sveitarfélögin hefðu íþróttirnar eins og það var orðað og Íþróttasjóður eins og hann var áður var í raun og veru lagður niður og möguleikar ríkisins til að hafa áhrif á þróunina í þessum efnum urðu miklu minni en áður var. Þau urðu minni að mínu mati heldur en æskilegt er. Ég held að við þyrftum að ræða um það hér við annað tækifæri hvernig mætti hugsanlega bæta stjórnkerfi íþróttanna þannig að áhugi Alþingis og stjórnvalda á því að koma nálægt þessu máli geti birst með skarpari hætti en verið hefur.