Varnir gegn mengun sjávar

Miðvikudaginn 13. mars 1996, kl. 15:35:53 (3916)

1996-03-13 15:35:53# 120. lþ. 107.2 fundur 385. mál: #A varnir gegn mengun sjávar# frv. 61/1996, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur

[15:35]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er aðeins örstutt. En það er um 3. gr. að segja að ég tel að þetta form sem hér er sett upp sé til bóta þar sem settur er fram listi yfir það hverju heimilt er að varpa í hafið. Ég álít listann mjög þröngan gagnstætt því sem var í fyrri lögum eins og ég reyndi að gera grein fyrir í framsögu minni þar sem var áður listi yfir það sem bannað var. Hér er sem sagt snúið við formerkjunum og gert í samræmi við ákvæði OSPAR-samningsins hvernig þetta skuli vera.

Hv. þm. nefndi að leyfilegt væri að setja skip og loftför í sjóinn fram til 31. des. 2004. Fyrst svona ákveðin dagsetning er tiltekin finnst mér líklegt án þess að ég hafi það þó fyrir framan mig að hér sé um að ræða einhvern samning sem við kunnum að vera aðilar að. Ég man eftir því að nýlega var í þinginu fyrirspurn um framkvæmd mála af þessu tagi og kom í ljós að það er orðið mjög lítið um það að skipum sé sökkt eða þau dregin til hafs til þess að farga þeim á þann hátt. Hins vegar kann það að skapa önnur vandamál í höfnum, hjá skipasmíðastöðvum eða hjá sveitarfélögum sem þarf þá að taka á með öðrum hætti og er að sjálfsögðu eitt af viðfangsefnum umhvrn. eða umhverfisyfirvalda að sjálfsögðu að glíma við það.

Að lokum minni ég á afstöðu mína og viðbrögð okkar Íslendinga við því þegar til stóð að sökkva títtumræddum olíuborpalli síðasta sumar og við áttum ábyggilega þátt í því að að tókst að koma í veg fyrir það, þ.e. afstaða okkar til málsins og mótmæli við því ásamt mótmælum frá fjölda annarra aðila. Viðhorf mitt til þeirra mála er því nokkuð ljóst þó að það kunni að vera að í lögum eða samningum einhvers staðar sé að finna heimildir sem gera það að verkum að þessi dagsetning er svo afdráttarlaust bundin hér en það álít ég að sé mál sem hv. umhvn. mun að sjálfsögðu skoða í vinnu sinni.