Fundarsókn þingmanna

Fimmtudaginn 14. mars 1996, kl. 10:36:35 (3927)

1996-03-14 10:36:35# 120. lþ. 108.92 fundur 225#B fundarsókn þingmanna# (aths. um störf þingsins), KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur

[10:36]

Kristinn H. Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Ég tel óhjákvæmilegt að gera að umtalsefni hvernig þingstörfum er hagað eða öllu heldur hvernig mætingu þingmanna er háttað. Þegar fundur var settur voru mættir átta þingmenn í húsið. Kannski hefur þeim fjölgað eitthvað síðan þá var en ekki er það nú mikið, sýnist mér.

Hér á að fara að ræða mjög mikilsvert mál um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla og það eru einungis átta þingmenn skráðir í þinghús þegar umræða á að hefjast.

(Forseti (ÓE): Þrettán.)

Nú eru þrettán komnir, segir forseti og er það vel að það hafi fjölgað þó að talan þrettán sé ekki hátt hlutfall af 63.

Ég vek athygli á því að það er mætingarskylda á fundum þingsins. Því nefni ég þetta að mér er satt að segja ofboðið hvernig þingmenn, sérstaklega þingmenn stjórnarliðsins, haga sér í þingsölum á þann veg að þeir hreinlega forakta umræður, þeir mæta ekki. Þeir eru yfir höfuð annars staðar en þeir eiga að vera. Ég vil láta það koma fram að ég tel að við verðum auðvitað að sýna sveigjanleika og gæta sanngirni gagnvart þingmönnum því að þeir þurfa að sinna ýmsum störfum. En þetta er of langt gengið, virðulegi forseti, ekki bara í dag heldur undanfarna daga og ég hvet forseta til þess að taka á þessu máli af myndugleik og skörungsskap eins og ég veit að hann getur þegar með þarf.

Eitt af því sem ég tel að valdi því að þingmenn ástunda þann sið að mæta lítt til þingfunda er að það er nánast eins og þeim sé gefið frí með því að safna saman atkvæðagreiðslum og tilkynna fyrir fram að þær verði ekki fyrr en á þessum tíma eða hinum tímanum. Það er nánast tilkynning til þingmanna um það að þeir þurfi ekki að vera hér nema bara þær fáu mínútur sem það tekur að greiða atkvæði. Ég hvet forseta til þess að taka þetta mál til athugunar og brýna fyrir þingmönnum og þá sérstaklega þingmönnum stjórnarliðsins þá skyldu sína að vera á þingfundum.